Heimsókn 4. bekkinga á Bókasafn Kópavogs

29. september 2022

Góa, Guðjón Davíð Karlsson þarf vart að kynna fyrir bæjarbúum en í ár er hann bæjarlistarmaður Kópavogs og hefur undanfarið hitt 4. bekkinga úr grunnskólum bæjarins í menningarheimsókn á Bókasafni Kópavogs.

Gréta Björg, deildarstjóri barnastarfs og Kolbrún Björk, verkefnastjóri safnsins segja það hafa verið sanna ánægju að fá Góa með sér í lið við að taka á móti þessum frábæru krökkum. „Gói hefur verið alveg æðislegur í þessum heimsóknum, hann talaði við krakkana um allt á milli himins og jarðar, til dæmis um ímyndunaraflið, bókalestur, tilfinningar og margt, margt fleira,“ segir Gréta Björg. „Það var sérstaklega mikið líf á bókasafninu þegar Gói og krakkarnir tóku lagið Horfðu til himins með undirleik Góa í enda heimsóknar, starfsfólki og gestum til mikillar gleði,“ segir Kolbrún Björk. Skólaheimsókn 4. bekkinga er liður í lista- og menningarfræðslu Bókasafns Kópavogs.