Blómareisa

02.09.2020 - 30.09.2020

Sigrún Ása Sigmarsdóttir sýnir vatnslitamyndir og teikningar sem unnar voru á liðnu ári. Pappír og vatn eru í aðalhlutverki á sýningunni, skapa sviðið fyrir liti og form og gefa listakonunni færi á að dvelja með gleði í litríkri sköpuninni.

„Rauði þráðurinn í verkunum er náttúruleg form með vísun í lífrænan plöntuheim,“ segir Sigrún. „Hið smágerða og fínlega er kallað fram með sterkum litum og áferð. Pappírinn sjálfur og spennandi yfirborð hans kveikir hugmyndir, ásamt flæðandi eiginleikum vatnslitanna sem blandast frjálsir á fletinum. Verkin eru lagskipt þar sem pastel, akrýl, litblýantar og pennar vefa sig um vatnslitinn.“

Sýningin fer fram í fjölnotasal aðalsafns og stendur til 30. september.