Sumarspírur Menningarhúsanna í Kópavogi

30.06.2020 - 13.08.2020

Menningarhúsin í Kópavogi hafa fengið til liðs við sig öfluga sumarstarfsmenn sem munu standa fyrir skapandi og fræðandi smiðjum alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga í sumar kl. 13-15, fram til 13. ágúst.

Þær Guðný Sara Birgisdóttir, myndlistarkona og meistaranemi í hönnun við Listaháskólann, Ýr Jóhannsdóttir, textíllistakona og nemi í listkennsludeild Listaháskólans, Jóhanna Malen Skúladóttir, jarðvísindanemi í HÍ og teiknari, og Þórhildur Magnúsdóttir, víólunemi í Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn, eru sumarstarfsmenn Menningarhúsanna í Kópavogi í sumar.

Þær munu sjá um skipulag skemmtilegra smiðja yfir sumartímann fyrir unga sem aldna þvert á Menningarhúsin í Kópavogi með sjálfbærni og endurvinnslu að leiðarljósi. Leikið verður með einkenni allra húsa; bókmenntir, náttúru, sögu, tónlist og myndlist, svo allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi. Smiðjurnar hefjast þann 30. júní, eru ókeypis og verða alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga eftir hádegi, með fyrirvara um breytingar. 

Nánari upplýsingar verða birtar vikulega á heimasíðu Menningarhúsanna og á Facebook-síðunni Sumarspírur í Kópavogi.