Á Bókasafni Kópavogs er dagur myndlistar nú haldinn hátíðlegur, en hátíðahöldin standa allan mánuðinn.
”Er það ekki bara viðeigandi að dagur myndlistar sé allur október,” spyr Arndís Þórarinsdóttir, deildarstjóri á bókasafninu. ”Myndlistarmenn hugsa svo stórt – einn dagur á Merkúr er til dæmis 58 jarðardagar, svo þessi hugmynd um mánaðarlangan dag myndlistar opnar allskonar skemmtilegar kosmískar pælingar. Eins og margt í myndlistinni.”
Aðalsafnið heldur upp á daginn með sýningu á verkum Barböru Árnason sem fengin eru að láni frá Gerðarsafni. Bókasafnið og Gerðarsafn eru bæði hluti af menningarhúsum Kópavogs og samstarfið því eðlilegt.
”Barbara var Kópavogsbúi og stór hluti höfundarverks hennar eru myndskreytingar á bókum. Það er því vel við hæfi að nýta tækifærið til að vekja athygli á verkum hennar hérna á bókasafninu, hjá okkur mætist listin og bókmenntirnar á hverjum degi, rétt eins og í verkum Barböru,” segir Arndís. Á bókasafninu er góður safnkostur um myndlist sem byggður hefur verið upp undanfarin ár, en á þriðju hæðinni er upplagt að setjast í mjúkan stól og láta sig hverfa ofan í hvern undraheiminn á fætur öðrum úr hillum safnsins.
Þessi frétt birtist fyrst í Kópavogspóstinum í október 2016