Ef ég væri grágæs – Við fögnum sumrinu með leiksýningu í barnadeild.
Grjótgerður var afar merkileg lítil vera, grá á litin, alveg eins og steinn. Hún bjó efst uppi á fjalli þaðan sem hún horfði yfir litríka veröldina. En hún var leið og þung á brá, því hún var bara grá, og henni var farið að leiðast að horfa á lífið þjóta hjá. Skyndilega flaug grágæs yfir höfði Grjótgerðar. Vá! Grágæsin var grá, en samt glöð og hýr á brá! Nú var Grjótgerður komin með svarið, hún skyldi láta breyta sér í grágæs. Því næst lagði hún af stað í ótrúlegt ferðalag. Á ferð sinni kynnist hún dularfullum svifverum, stressuðum skógarálfi og kolkrabba, sem í ljós kemur að hefur töframátt. Þegar kolkrabbinn er við það að breyta Grjótgerði í grágæs og draumurinn er við það að rætast hættir Grjótgerður skyndilega við. Ferðalagið hefur kennt henni að hún þarf ekki að breytast – hún sjálf er einstök, falleg og fullkomin alveg eins og hún er. Sagan af Grjótgerði hefur ríkan boðskap sem á sannarlega erindi við börnin okkar. Sýningin er 25-30 mínútur að lengd, einlæg, falleg og sprenghlægileg! Leikarar sýningarinnar eru Ellen Margrét Bæhrenz og Arnmundur Ernst Backman.
Ef ég væri grágæs er nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Ellen Margréti Bæhrenz sem leikur jafnframt í sýningunni. Það er annað barnaleikrit Ellenar en hið fyrra, Nátttröllið Yrsa – einmana á jólanótt, sló einmitt í gegn á bókasafninu fyrir jólin.
Vika 17 sem er vikan eftir páska er alþjóðleg vika heimsmarkmiða á bókasöfnum. Af því tilefni fannst okkur tilvalið að bjóða upp á barnaleikritið Ef ég væri grágæs en 15. heimsmarkmiðið fjallar einmitt um líf á landi.
“Sýningin var mjög lifandi og greip athygli barnanna um leið. Alls konar furðuverur birtust á vegferð Grjótgerðar og vöktu mikla kátínu hjá börnunum. Við í Hagaborg getum svo sannanlega mælt með þessari sýningu.“
„Góður boðskapur í sýningunni og frábært að svo góðum boðskap sé hægt að koma á framfæri á fyndinn og skemmtilegan hátt.“ „Heilt yfir skemmtileg upplifun sem skyldi mikið eftir sig hjá starfsfólkinu og börnunum í Bergheimum.“