Það var byrjað að snjóa. Gloría lá í kósí-horninu á Bókasafni Kópavogs og fletti bók um Línu langsokk. Gloría elskaði sögur. Hún malaði af ánægju og sleikti aðra framloppuna um leið og hún fletti bókinni.
Já, Gloría var nefnilega köttur. Hún var grábröndótt með stór, falleg græn augu og mjúkan feld.
Það var rólegt á bókasafninu þennan morgun og ekkert sem benti til þess að eitthvað óvænt myndi rjúfa kyrrðina. Það var komið fram í desember en inni á safninu var ekkert sem minnti á jólin. Engin jólaljós eða skreytingar höfðu verið settar upp. Gloríu fannst það dálítið skrítið þar sem skreytingarnar voru venjulega löngu komnar upp á þessum tíma.
Bækur lágu á víð og dreif á gólfinu eftir heimsókn leikskóla-barna deginum áður og enginn virtist ætla að taka þær upp. Gloría velti fyrir sér hvort það væri svona mikið að gera og enginn hefði komist í að ganga frá?
Kári og Rabbi, gömlu karlarnir úr eldriborgarahúsinu, höfðu valið sér bækur um sjómennsku í gamla daga og sátu nú og drukku kaffið sitt og kíktu í blöðin. Kári var langur og mjór með sítt skegg og hár sem náði niður á axlir en Rabbi var sköllóttur og smávaxinn.
Gloría hafði lagt frá sér bókina og var við það að sofna á mjúkum púðanum þegar hurðin á bókasafninu fauk skyndilega upp með miklum látum. Snjór þeyttist inn á gólf um leið og risastór vera æddi inn á safnið.
Gloríu brá svo mikið að hún stökk hvæsandi upp í loft og lenti á gólfinu með bókina ofan á sér. Veran gekk beint að Gloríu, tók hana upp og hélt á henni eins og ungabarni í stórum krumlunum.
Gloría starði á veruna. Þetta var greinilega tröll og það var grábröndótt eins og hún sjálf.
Kári og Rabbi flýðu í ofboði út af bókasafninu en starfs-manninum var alveg sama og virtist ekki taka eftir neinu.
– Sæl frænka, sagði tröllið og reyndi að heilsa Gloríu en loppan hennar hvarf inn í risastóru krumluna.
– Hver ertu eiginlega? spurði Gloría og reyndi að slíta sig lausa úr fangi tröllsins.
– Nú, ég er hann Dúðadurtur Grýluson, frændi þinn í tíunda ættlið.
– Ertu þá jólasveinn? spurði Gloría.
– Ég hef nú aldrei fengið það hlutverk, svaraði Dúðadurtur. Foreldrum mínum fannst ég of stórvaxinn. Sögðu að ég myndi bara brjóta
allt og bramla ef ég færi að reyna að gefa börnum í skóinn eða dansa í kringum jólatré.
Gloría náði loks að losa sig úr klóm tröllsins og stökk upp í eina bókahilluna í hæfilegri fjarlægð frá tröllinu.
– Hvað ertu eiginlega að gera hérna? spurði hún þegar hún var búin að jafna sig á þessari óvæntu heimsókn.
– Það er allt ónýtt, sagði Dúðadurtur með tárin í augunum.
Jólin eru að koma og það er öllum sama. Ef öllum er sama þá
koma engin jól. Þú verður að hjálpa mér að bjarga jólunum.
Grýla hverfur
Gloría gerði sitt besta til að reyna að hugga Dúðadurt sem sat hágrátandi á gólfinu. Hún stökk upp á öxlina á honum og sleikti burtu sölt tárin sem runnu niður kinnarnar.
Ung kona kom inn á safnið með litla stúlku sem hljóp beint til Dúðadurts og reyndi að knúsa hann. Mamman rak upp skelfingaróp þegar hún sá hann, greip barnið og hljóp með það fram að afgreiðsluborðinu.
– Ég held að við ættum að fara út svo við hræðum ekki gestina, sagði Gloría.
Dúðadurtur kinkaði kolli og laumaðist eins varlega og hann gat á eftir Gloríu en tókst samt að henda niður nokkrum bókum og stólum á leiðinni út. Gloría heyrði að konan var að skamma starfsmanninn í afgreiðslunni fyrir að hræða börn með skrímslum í kósí-horninu.
– Ykkur væri nær að taka til og hafa eitthvað jólalegt hérna, heyrði hún hana segja. Starfsmaðurinn horfði áhugalaus á konuna og sagði að honum væri alveg sama og hélt áfram að skoða símann sinn.
Mamman hrökk við. Hvað var eiginlega í gangi með starfsmanninn sem alltaf hafði verið svo hjálpsamur og alúðlegur hingað til?
Gloría ákvað að fara með Dúðadurt upp í Borgarholtið fyrir ofan bókasafnið. Þar gætu þau sest niður og talað saman. Ef einhver ætti leið framhjá myndi hann bara halda að Dúðadurtur væri einn af steinunum þar, enda ekki orðið bjart svona snemma morguns.
Þau komu sér fyrir í holtinu og Dúðadurtur hóf frásögn sína. Hann sagði að Grýla væri horfin. Hún sagðist ætla að fá sér nýja vinnu og verða áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna. Hún gæti örugglega grætt mikið á því og farið bara til sólarlanda á veturna og haft það notalegt. Hún vildi fá nýtt útlit, sagði hún og klæddi sig í háhælaða skó og hreinan kjól. Greiddi sér meira að segja.
Þá fannst Dúðadurti nóg komið. Grýla vildi verða skvísa. Svo gerðist það hræðilega. Hún ætlaði að blása aðeins upp á sér varirnar til að gera þær stærri en notaði til þess loftpumpu sem hún
fann í gömlu drasli í hellinum þeirra. Pumpan var aðeins kröftugri en hún bjóst við og Grýla flaug upp í loft á útblásnu vörunum, út um hellisopið og hvarf út í buskann.
– Ég hrópaði á bræður mína, Leppalúða og öll tröllin í fjöllunum að hjálpa mér að bjarga henni. En það var alveg sama við hvern ég talaði, allir sögðu að þeim væri alveg sama og enginn nennti að hjálpa mér að finna hana.
Dúðadurtur sagði síðan að eftir hvarf Grýlu hefði allt farið á versta veg á heimili þeirra í Grýluhelli. Það var engin stjórn á neinu lengur. Leppalúði fór daginn eftir að Grýla hvarf og sagðist ætla út í heim að kaupa sér skó því það fengjust ekki nógu stórir skór á Íslandi fyrir loðnu tærnar hans.
Allir jólasveinarnir nema Stúfur sátu og spiluðu tölvuleiki allan daginn. Þeir gerðu ekki neitt til að undirbúa jólin alveg sama hvað Dúðadurtur reyndi að minna þá á að desember væri kominn.
– En það versta er, sagði hann, að jólakötturinn besti vinur minn gjörsamlega umturnaðist. Ég get varla sagt þetta ógrátandi. Hann gerðist vegan. Borðar bara grænmeti og drekkur ekki einu sinni rjómann sem ég gef honum. Einn daginn kom hann heim og var búinn að aflita á sér hárið. Er nú skjannahvítur og situr svo allan daginn að snyrta sig og lakka á sér klærnar með bleiku naglalakki. Hann hvæsir ekki einu sinni þó ég togi í skottið á honum. Flissar bara kjánalega.
Gloría vissi ekki alveg hvað hún átti að segja við þessu öllu saman. Í Borgarholtinu var gott útsýni yfir bæinn. Gloría var mikil jólakisa og hlakkaði alltaf til jólanna. En hvernig stóð á því að það hafði enginn kveikt á jólaljósunum og samt var kominn desember?
Borgarholtið
Þau höfðu setið í holtinu nokkra stund þegar steinninn sem þau sátu á fór að hreyfast.
– Er þetta jarðskjálfti? spurði Gloría og stökk á fætur.
– Nei, heyrðist svarað.
Steinninn opnaðist og út úr honum gekk huldukona. Hún var í fallegum bláum kjól með sítt dökkt hár.
– Ég heiti Dimmblá og ég bý hérna í holtinu. Ég heyrði hvað þú varst að segja og við huldufólkið höfum einmitt miklar áhyggjur. Það er eitthvað skrítið að gerast. Við álfar og huldufólk erum vön að hittast og undirbúa nýárshátíðina okkar í byrjun desember. Hátíðin er mjög mikilvægur fögnuður fyrir okkur en það er bara eins og núna sé öllum sama um hana. Ekkert hefur verið skipulagt og við náum ekki sambandi við neinn af félögum okkar.
Dimmblá sagði þeim að álfar og huldufólk hafi samband hvert við annað með hugsanaflutningi. Þeir þurfa ekki síma eins og mannfólkið.
– En nú er bara eins og það sé ekkert samband og við hér í holtinu vitum ekkert hvað er að gerast í landinu. Við sendum út leiðangra í álfabyggðirnar hér í nágrenninu. Fyrst sendum við hann Pela gamla til að athuga með álfana sem búa í Álfhól hér í bænum. En við heyrðum ekkert frá honum aftur. Hann á það reyndar til að gleyma sér og fer bara að leika sér að stríða gröfumönnum og starfsfólki Vegagerðarinnar. Yrja og Jón, eldri börnin mín buðust þá til að fara til Hafnarfjarðar að hitta álfana í Hamrinum. Þau ættu að vera löngu komin til baka en við höfum ekkert heyrt frá þeim heldur.
Dimmblá bauð Gloríu og Dúðadurti inn á heimili sitt. Það var bjart inni í steininum. Þarna var fleira huldufólk, sem sat við borð við alls konar handavinnu og smíðastörf. Þau voru öll í mjög litskrúðugum fötum.
Dimmblá kynnti þau fyrir huldufólkinu og benti þeim að setjast hjá sér.
– Við verðum að komast til botns í þessu. Við erum líka farin að finna fyrir þessu sinnuleysi hér hjá okkur í holtinu, sagði Dimmblá og benti á nokkra huldumenn sem sátu aðgerðarlausir í einu horninu og störðu fram fyrir sig.
Þau ræddu fram og aftur um hvað þau gætu gert. Gamall gráhærður huldumaður, sem sagðist heita Ævar og hafði setið og prjónað allan tímann án þess að segja neitt, stóð nú snögglega upp.
– Þegar ég var lítill sagði amma mér að ef mannfólkinu fer að verða sama um landið sitt þá missa landvættirnir krafta sína og hætta að geta verndað fólkið og landið. Verða jafnvel öfugsnúnir og geta farið að valda alls konar vandræðum í mannheimum.
Ævar sagði að þetta væri eins og sjúkdómur sem breiddist hratt út og væri hættulegur öllum, bæði álfum, tröllum, mannfólki og öðrum lífverum sem hér búa.
– Er þetta þá svona mér-er-alveg-sama-veiki? spurði Dúðadurtur.
– Einmitt, eina leiðin til að lækna fólkið af þessari veiki er að finna landvættina og fá þeirra aðstoð við að hreinsa landið af þessari óværu. Til þess að það takist þurfið þið að ferðast hringinn í kringum landið á fimm dögum og leysa erfiðar þrautir á ferð ykkar, sagði Ævar.
Gloría var ekki viss um að hún væri góð í að leysa erfiðar þrautir en hún vildi ekki valda Dúðadurti vonbrigðum svo hún bauðst til að fara með honum.
Ævar ráðlagði þeim að fara fyrst upp að Helgufossi í Mosfellsdal að heimsækja álfkonuna í Hrafnakletti.
– Hún er talin mjög vitur og getur vonandi gefið ykkur góð ráð um hvernig þið getið fundið landvættina, sagði hann.
Dimmblá sagðist geta fylgt þeim upp að Helgufossi en síðan yrðu þau á eigin vegum.
Strætóferðin
Þau gengu upp í Hamraborg að strætóstöðinni og biðu eftir vagni sem færi upp í Mosfellsbæ. Þau þurftu ekki að bíða lengi. Óliver strætóbílstjóri var með mikið rautt hár sem stóð í allar áttir. Það var eins og hann væri alltaf úti í hávaðaroki. Hann leit undrandi á þau þegar þau gengu inn í vagninn.
– Þú verður að halda á kettinum, sagði hann við Dimmblá en virtist hálfsmeykur við Dúðadurt. Farið bara og setjist, sagði hann óþolinmóður þegar Dúðadurtur fór að leita í öllum vösum að peningum fyrir farinu. Þau settust aftast í vagninn og reyndu að láta lítið fyrir sér fara.
Aðrir farþegar störðu á þau og sumir hrökkluðust aftur út úr vagninum þegar þau sáu Dúðadurt. Gloría var fegin þegar þau keyrðu af stað. Henni fannst óþægilegt að láta stara svona á sig.
Dúðadurtur hafði aldrei áður komið upp í bíl. Í fyrstu fannst honum þetta spennandi en þegar bílstjórinn gaf í til að komast út á aðalbrautina æpti hann upp yfir sig af skelfingu.
Gloría reyndi að róa hann en það gekk illa. Þá var ekki að sökum að spyrja. Maginn fór að ólga eins og öldur í stórsjó og aumingja Dúðadurtur fékk þessa hræðilegu magapínu. Loks var ekki um annað að ræða en að hleypa öllu út.
Dúðadurtur lyftist í sætinu og með löngu háværu prumpi náði hann að losna við gasið sem safnast hafði fyrir í görnunum. Viðreksturinn hófst með miklu freti í Ártúnsbrekkunni og stóð yfir þar til þau nálguðust Grafarholtið. Þá voru farþegarnir farnir að hósta og veina yfir lyktinni.
Loks stöðvaði Óliver bílstjóri vagninn og hrópaði hátt:
– Bannað að prumpa í vagninum mínum! Út með ykkur strax!
Þau þorðu ekki annað en að hlýða og flýttu sér út úr vagninum. Óliver bílstjóri keyrði burt í snatri með hurðirnar opnar til að lofta út.
Dúðadurtur var hálf skömmustulegur eftir þessa uppákomu en Gloría og Dimmblá sögðu að það væri bara eðlilegt að prumpa annað slagið. Allir gerðu það.
Þau stóðu enn í vegkantinum þegar stór svartur trukkur stöðvaðist við hlið þeirra.
– Þið eruð svo ráðvillt á svip. Getum við eitthvað hjálpað ykkur? spurði bílstjórinn og brosti.
Þetta var eldri maður með hvíta derhúfu og svart alskegg. Hann sagðist heita Gunnar, en væri alltaf kallaður Gussi.
– Þetta eru afabörnin mín, tvíburarnir Emilía og Andri, bætti hann við og benti á tvö börn sem sátu í fremra aftursæti bílsins. Þau voru bæði með dökkt hár og blá augu, klædd í íþróttabuxur, lopapeysur og grænar úlpur.
Dúðadurtur sagði þeim á hvaða ferðalagi þau væru og frá veikinni dularfullu. Það væri öllum sama um allt. Meira að segja þó að jólin væru að koma.
– Við verðum að finna landvættina sem allra fyrst, bætti Gloría við.
Afinn og tvíburarnir störðu á Gloríu. Það var eins og augun ætluðu út úr höfðinu á þeim við að heyra hana tala.
– Já, ég get talað og ekkert meira um það að segja. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna og megum engan tíma missa, sagði Gloría. Gussi afi horfði áhyggjufullur í átt að borginni. Þar sáust engin jólaljós.
– Þið segið nokkuð. En skrítið. Við keyrum ykkur þangað sem þið þurfið að fara, sagði Gussi afi.
Þau stukku inn í bílinn hans sem var nógu stór til að rúma þau öll. Dúðadurtur fékk aftasta sætið aleinn fyrir sig en þurfti að beygja hausinn til að reka sig ekki upp í þak bílsins.
Gussi afi spólaði af stað. Næsti áfangastaður var Helgufoss.
Helgufoss
Bíllinn hossaðist eftir malarvegi í átt að Helgufossi. Loks komust þau ekki lengra. Gussi afi lagði bílnum og þau gengu síðasta spölinn að Hrafnakletti sem einnig var kallaður Helguhóll. Þetta var stór svartur grjóthóll rétt við ána. Dimmblá sagði þeim að þarna byggi álfkonan Rósa Lind. Þau bönkuðu á klettinn en enginn svaraði.
– Kannski er hún sofandi, sagði Dúðadurtur og barði af öllu afli á steininn en ekkert gerðist.
– Afi, kannski getur þú opnað steininn með karate-sparki? Afi er nefnilega karate-meistari, sagði Emilía.
Gussi afi brosti, sveif upp í loft, sparkaði öðrum fætinum til hliðar af öllu afli og gaf frá sér hátt karate-hróp svo bergmálaði í dalnum.
– Eruð þið að leita að mér? heyrðist sagt fyrir aftan þau. Þetta var Rósa Lind álfkona. Hún var klædd í silfurlitaðan kjól með dökkt sítt hár og með silfur kórónu á höfði.
Dimmblá kynnti þau fyrir álfkonunni og sagði henni á hvaða ferðalagi þau væru.
– Það er margt undarlegt á seyði þessa dagana, sagði Rósa Lind. Ég kemst til dæmis ekki lengur inn í hólinn minn.
– Geturðu ekki bara galdrað svo hann opnist eins og Harry Potter gerir? spurði Andri.
– Nei, Harry Potter er ekki til í alvörunni. Þetta er í alvörunni, svaraði Rósa Lind.
– Við verðum að finna landvættina. Getur þú ráðlagt þeim hvernig er best að fara að því? spurði Dimmblá.
– Já, sagði Rósa Lind. Þið skuluð byrja á að finna nautið Griðung. Þið gerið það með því að leysa erfiða þraut úti í Brokey. En komið fyrst með mér.
Hún fór með þau upp að Helgufossi að hitta fossbúana sem þar bjuggu, ljósálfana Mínus og Plús. Hún hafði fengið að búa hjá þeim eftir að hóllinn lokaðist. Þeir gætu látið þau hafa nokkuð sem myndi hjálpa þeim að leysa þrautina.
Þegar þau nálguðust fossinn heyrðu þau ískrandi hlátur. Örlitlir ljósgeislar þutu fram og til baka inni í fossinum.
– Þeir eru smá feimnir, sagði álfkonan og benti þeim félögum síðan að koma með sér inn í leynigöng á bak við fossinn. Þegar inn var komið blasti við þeim gríðarstór hellishvelfing. Það sindraði á alls konar litskrúðuga steina á hellisveggjunum.
– Plús, kallaði Rósa Lind og um leið fóru tifandi ljósgeislarnir að stækka svo þeir sáust með berum augum. Ljósálfarnir líktust helst fiðrildum með pínulítinn mannslíkama.
– Plús, hrópaði Dúðadurtur alveg hissa. Hver er Plús?
Um leið og hann hrópaði orðið, stækkuðu fossbúarnir enn meira og voru loks orðnir jafn stórir og Dúðadurtur. Gloría stökk á bak við Gussa afa, henni leist ekkert á þetta. Andri og Emilía göptu af undrun.
– Mínus, Mínus, kallaði Rósa Lind og samstundis minnkuðu álfarnir og urðu á stærð við smáfugla.
Plús sagði þeim að þeir bræður hefðu líka haft miklar áhyggjur af dularfullu mér-er-alveg-sama-veikinni.
– Það er rétt hjá Rósu Lind, sagði hann. Þið þurfið að fara út í Brokey, en fyrst skuluð þið fara upp í Esju og sækja Stúf. Til að leysa þessar þrautir þurfið þið að hafa að minnsta kosti einn jólasvein með í för sem ekki hefur smitast af þessari óværu. Vonandi komið þið ekki of seint þangað.
– Síðan farið þið út í Brokey til að leysa fyrstu þrautina. Þar er hóll sem kallast Dagmálahóll og er álagahóll, bætti Mínus við. Þið þurfið að fara með tvo náttúrusteina með ykkur, annan fyrir álagahólinn og hinn fyrir landvættinn Griðung.
– Segið nú nafnið mitt, sagði Plús. Um leið og þau kölluðu nafnið stækkuðu álfarnir aftur þar til þeir náðu lengst upp í hellis-hvelfinguna. Þar gripu þeir sinn hvorn steinmolann úr berginu og bentu síðan félögunum að minnka sig aftur.
Ljósálfarnir réttu Andra og Emilíu steinana og sögðu að þau yrðu að gæta þeirra vel.
– En er þetta ekki of hættuleg för fyrir börn? Getið þið huldu-fólkið ekki bara séð um þetta? spurði Gussi afi.
– Jú, þetta verður mjög hættuleg för en því miður komumst við Rósa Lind ekki lengra. Hér eru mörkin sem við getum ekki farið yfir nema á nýársnótt. Við huldufólkið leggjum allt okkar traust á ykkur, bætti hún við.
Andri og Emilía horfðu ákveðin á afa sinn.
– Við verðum að gera þetta afi! sögðu þau. Þú kenndir okkur að vera hugrökk og gera það sem þarf að gera þegar mikið liggur við.
Esjan
Gussi afi keyrði sem leið lá upp að Esju. Emilía og Andri voru mjög spennt að sjá heimili jólasveinanna. Gussi afi vildi helst að krakkarnir myndu bíða í bílnum en þau tóku það ekki í mál. Dúðadurtur fylgdi þeim upp í Grýluhelli.
Inni í hellinum lágu jólasveinarnir á gólfinu að spila tölvuleiki. Þeir voru svo niðursokknir í leikinn að þeir litu ekki einu sinni upp þegar gestirnir gengu inn í hellinn.
– Þarna sjáið þið, sagði Dúða-durtur. Það er ekkert hægt að tala við þá.
– Er þetta Grýla? spurði Emilía og benti á tröllskessu sem sat í einu horninu og var að bera á sig fínasta kroppakrem.
– Nei, þetta er hún Gilitrutt. Hvað ertu að gera hérna? spurði Dúðadurtur skessuna.
Skessan var búin að bera svo mikið krem á sig að það var farið að leka af henni niður á hellisgólfið.
– Ég frétti að Grýla væri farin, svo ég bara ákvað að koma hingað í hennar stað. Hún á svo mikið af fínu snyrtidóti. Einhver verður að nota þetta, svaraði Gilitrutt.
Gloría stökk til hennar til að spyrja um Stúf en var svo óheppin að renna í öllu kreminu sem hafði lekið niður á gólf. Feldurinn var allur útataður í kremi.
– Er Stúfur hérna? spurði Gloría þegar hún náði loks að komast aftur á fætur.
– Hann er að elda mat, svaraði Gilitrutt og hélt áfram að maka kroppakreminu í andlit sitt og hár.
– Komum, sagði Dúðadurtur, eldhúshlóðirnar eru innar í hellinum.
Þau fylgdu honum eftir dimmum göngum lengst inn í fjallið. Það var heppilegt að Gussi afi hafði munað eftir að taka með sér vasaljós sem hann var alltaf með í bakpokanum sínum til öryggis.
Stúfur stóð við hlóðirnar og hrærði í stórum potti. Hann æpti upp yfir sig af gleði þegar hann sá Dúðadurt, stökk upp um hálsinn á honum og knúsaði hann.
– Ætla þau að hjálpa okkur? spurði Stúfur og benti á Gloríu, Gussa afa og krakkana.
– Já, Stúfur minn en þú þarft líka að koma með okkur. Við þurfum að fara í háskaför hringinn í kringum landið, leysa erfiðar þrautir og finna landvættina. Ég veit ekki af hverju þú þarft að koma með en þetta sögðu ljósálfarnir í Helgufossi.
– Er ekki betra að einhver stærri og sterkari fari með ykkur? Ég er hvorki hugrakkur né klár.
– Jú, þú verður að koma með. Leiðangurinn er ekki fullmannaður án þín, sagði Gloría, sem var í óðaönn að reyna að sleikja af sér mesta kremsullið.
Stúfur samþykkti loks að fara með þeim. Hann ætlaði samt fyrst að klára kássuna sem hann var að sjóða fyrir bræður sína. Hann vildi ekki að þeir yrðu svangir.
Skyndilega fór allt að nötra og skjálfa inni í hellinum, pottar og pönnur hrundu niður úr hillum. Stúfur rétt náði að bjarga súpupottinum frá því að hendast niður á gólf.
– Jarðskjálfti, hrópaði Gussi afi og greip í Emilíu og Andra. Drífum okkur út.
Hann hljóp af stað með krakkana áleiðis út úr hellinum. Hellirinn hristist svo mikið að hann sá ekki hvert hann var að fara og datt kylliflatur um jólasveinana sem enn lágu á gólfinu að spila tölvuleiki.
– Nei, nei þetta var bara Gilitrutt að ropa hrópaði Stúfur. Hún er þekkt fyrir að hrista jörðina með látunum í sér. Gussi afi vildi samt koma sér út sem fyrst.
Þegar þau gengu út úr hellinum mættu þau jólakettinum. Hann var búinn að lita sig fjólubláan og ilmaði eins og lofnarblóm. Hann sagðist hafa skroppið í pottana í Hvammsvík til að dekra dálítið við sig.
– Já, við þurfum greinilega að hafa hraðar hendur, sagði Gussi afi þegar hann sá útlitið á jólakettinum. Hann tók í hendurnar á tvíburunum og þau flýttu sér öll saman niður fjallið og í bílinn.
Brokey
Gussi afi stoppaði í Borgarnesi. Þar fengu þau sér pylsur og ís í sjoppunni. Þau settust í eitt hornið. Þar var nógu stór bekkur svo Dúðadurtur gat setið hjá þeim. Lítill strákur sat með pabba sínum við næsta borð. Hann hrópaði upp yfir sig þegar hann sá Dúðadurt og benti á hann.
– Pabbi, sjáðu tröllkarlinn. Pabbi sneri baki í þau og sussaði á barnið.
– Uss, Pési litli. Það er dóna-legt að benda á fólk og setja út á útlit þess, hann er örugglega bara í körfuboltaliðinu sem er að fara að spila við Skallagrím. Þeir eru stundum hávaxnir, sagði pabbinn og hélt áfram að lesa blaðið sitt.
Pési litli hélt áfram að stara á þau. Stúfur brosti til hans, setti upp stút og vísifingur á munninn til að sýna honum að þetta væri þeirra leyndarmál. Barnið kinkaði kolli og hélt áfram að borða ísinn sinn.
Þau héldu áfram ferðinni og næsta stopp var á Dröngum á Snæfellsnesi. Þaðan var stutt út í Brokey. Þar var gistiheimili fyrir ferðamenn. Gussi afi fór inn á hótelið til að athuga með far út í eyjuna.
Þegar hann kom til baka sagði hann að afgreiðslumaðurinn hefði bara talað útlensku en hann væri viss um að hann hefði sagt að það væri bátur í fjörunni sem þau mættu fá lánaðan.
Gussi afi keyrði niður að sjónum. Þar lá árabátur á hvolfi rétt við fjöruborðið. Þau stukku út úr bílnum. Afi rótaði í skottinu og fann björgunarvesti fyrir krakkana. Gloría var ekki spennt fyrir því að fara í sjóferð. Henni var illa við vatn.
– Þú sest bara neðst í bátinn þá sérðu ekki sjóinn, sagði Dúðadurtur, þetta verður ekkert mál.
Dúðadurtur sneri bátnum við með einu handtaki og skellti honum á réttan kjöl. Þau komu sér öll fyrir í bátnum. Gussi afi ýtti frá landi, tók svo tvöfalt heljarstökk og lenti fimlega um borð eins og karate-meistara einum er lagið.
Gussi afi settist við árarnar og réri af fullum krafti í áttina að Brokey. Veðrið var gott en það var farið að dimma. Þau yrðu eflaust að gista í Brokey í nótt. Þau voru næstum því komin út í eyjuna þegar Dúðadurtur rak augun í eitthvað á botni bátsins.
– Hvað ætli þetta sé? sagði hann um leið og hann greip um eitthvað sem líktist korktappa. Hann kippti honum upp til að skoða hann betur. Samstundis flæddi sjór af miklum krafti inn í bátinn. Gloría varð strax rennandi blaut. Hún svamlaði í vatninu og komst ekki upp á þóftirnar. Krakkarnir æptu upp yfir sig af hræðslu.
Afi stökk til, greip negluna og stakk henni aftur á sinn stað. Báturinn var orðinn hálffullur af vatni en sem betur fer höfðu Emilía og Andri ekki blotnað. Andri náði að grípa Gloríu upp úr vatninu. Hún var óttalega ræfilsleg að sjá svona rennandi blaut.
Dúðadurtur var alveg miður sín þegar hann áttaði sig á hvað hann hafði gert og grét hástöfum.
– Svona, svona, þetta var alveg óvart, sagði Stúfur og reyndi að hugga bróður sinn.
– Dragðu okkur nú í land svo fleiri þurfi ekki að blotna.
Dúðadurtur lét ekki segja sér það tvisvar. Hann stökk út í sjóinn og dró bátinn síðasta spölinn alla leið upp á land.
Brokey var falleg eyja með hæðum, hólum og klettabeltum við ströndina. Stórt hvítt hús með rauðu þaki stóð á hæð ofan við fjöruna. Það var ljós í gluggum.
Gussi afi tók Gloríu upp og tróð henni inn undir úlpuna sína til að halda á henni hita. Aðeins hausinn á Gloríu stóð út um
hálsmálið.
– Vonandi getum við fengið að gista hérna. Gloría þarf að komast inn í hlýjuna sem allra fyrst svo hún verði ekki veik, sagði Gussi afi. Þau flýttu sér upp að húsinu og bönkuðu á dyrnar.
Dagmálahóll
Gömul kona kom til dyra. Hún var klædd í rósóttan kjól með rautt heklað sjal á herðum. Hárið lá í tveimur fléttum niður á axlir.
– Hún er örugglega hundrað ára, hvíslaði Emilía að Andra.
Gamla konan bauð þeim strax inn. Hún sagðist heita Snjóhildur en væri kölluð Snjóla. Hún hafði fylgst með vandræðum þeirra á bátnum út um eldhúsgluggann og var því tilbúin með heitt kakó handa þeim og hlý teppi.
Þau settust inn í eldhús hjá Snjólu og drukku kakóið.
– Ég vissi að það var eitthvað að, huldufólkið hérna úti í Hellishól hefur verið eitthvað svo órólegt undanfarið, sagði Snjóla þegar Gussi afi útskýrði fyrir henni hvers vegna þau væru komin þangað.
Það var komið fram á kvöld svo þau ákváðu að fara að álagahólnum daginn eftir. Snjóla bjó um þau á dýnum á gólfinu í stóru herbergi og lét þau fá enn fleiri teppi og sængur til að breiða yfir sig. Dúðadurtur lagðist á hliðina og steinsofnaði strax. Gloríu var enn hrollkalt svo hún ákvað að skríða inn í eyrað á Dúðadurti og kúra sig þar. Andardráttur hans yljaði henni svo hún sofnaði vært.
Næsta dag vakti Snjóla þau með morgunmat. Hún sagði þeim að hún væri orðin næstum hundrað ára og ætti því erfitt með að ganga í þúfum.
– Getur þú ekki bara sagt okkur hvar hóllinn er? spurði Stúfur.
– Nei, ég kem með ykkur. Þessi ungi maður virðist vera mjög sterkur, hann getur borið mig, svaraði Snjóla og benti á Dúðadurt.
Dúðadurtur var svo hissa að hann kom ekki upp nokkru orði. Hann var reyndar töluvert eldri en þessi kona, kannski svona 300 árum eldri. Hann mundi það ekki alveg. Tröll verða svo gömul.
Þegar út var komið lyfti Gussi afi Snjóhildi á háhest á Dúðadurti og gamla konan benti þeim í hvaða átt skyldi halda. Þau gengu þvert yfir túnið þar til þau komu að nokkuð stórum hól. Efst á hólnum var grjóthaugur.
Þau sáu strax að búið var að róta í haugnum, rífa upp rætur og alls konar plöntur sem höfðu vaxið þarna um sumarið. Það voru fótspor út um allt og búið var að traðka niður gróðurinn. Djúp hola var í miðjum hólnum og klósettpappírs-ræmur lágu á víð og dreif.
– Oj, er búið að kúka á álagahólinn? Er fólk gengið af göflunum? sagði Gussi afi hneykslaður.
Dúðadurtur beygði sig svo Snjóla kæmist niður á jörðina. Hún staulaðist að hólnum.
– Þetta er hræðilegt, sagði hún þegar hún sá verksummerkin. Það má aldrei hrófla við álagahólnum. Það boðar ekki gott.
– Hver myndi gera svona, sagði Andri og reyndi að hughreysta Snjólu.
– Það stoppaði skemmtiferðaskip hérna fyrir utan eyjuna í gær. Það er greinilegt að ferðamönnunum, sem komu hér í land, var alveg sama um náttúruna, sagði Snjóla.
– Við verðum að þrífa þetta, sagði Andri.
– Og laga hólinn, sagði Emilía.
Þau voru öll sammála um það. Hópurinn gekk að hólnum en um leið kom sterk vindhviða eins og frá hólnum sjálfum og feykti þeim upp í loft og langt aftur á bak.
Þau veltust um á jörðinni þegar þau lentu og litu skelkuð hvert á annað.
– Hvað var nú þetta? sagði Dúðadurtur.
– Þetta var nú meiri vindhviðan, sagði Gussi afi.
Þau stóðu hikandi á fætur og gengu hægum skrefum aftur að hólnum en um leið var eins og fótunum væri kippt undan þeim. Þau komust ekki nær.
– Ég hef heyrt að þegar einhver raskar ró álagahóla þá getur þetta gerst, sagði Snjóla.
– En veit hóllinn ekki að við erum að reyna að hjálpa? sagði Emilía.
– Nei, við þurfum að sýna honum það, sagði Snjóla. Bara ef við værum með einhverja gjöf fyrir hann.
Andri brosti breitt og dró upp steininn sem Plús og Mínus höfðu látið hann fá.
– Einmitt, sagði Gloría. Náttúrusteinninn.
Andri lyfti upp steininum.
– Elsku hóll, ekki vera hræddur. Við ætlum að færa þér þennan stein að gjöf og þrífa ruslið í kringum þig og laga skemmdirnar. Viltu leyfa okkur það?
Hann tók skref varlega nær og öll fyrirstaða var horfin.
– Þetta tókst, sagði Emilía.
Þau hófust þegar handa við að moka ofan í holuna og snyrta hólinn eins vel og þau gátu. Þau tíndu upp klósettpappírinn í ruslapoka og máðu út ummerkin eftir allt traðkið. Að því loknu lagði Andri steininn frá fossbúunum ofan á hólinn.
– Nú skulum við kalla á Griðung. Hann á að vera einhvers staðar hér á Vesturlandi, sagði Dúðadurtur.
Þau kölluðu eins hátt og þau gátu, störðu út á hafið en ekkert gerðist.
– Sjáið þið, hrópaði Emilía allt í einu og benti á hólinn.
Steinninn var farinn að lýsa með silfurlituðu ljósi. Upp úr jörðinni fór að spretta blóðberg og ljónslappi eins og það væri hásumar.
Þau voru svo upptekin við að dást að fegurðinni að þau tóku ekkert eftir því sem var að gerast úti á sjónum. Gríðarlegar öldur risu upp úr hafinu og stefndu á fullri ferð í áttina að þeim.
Griðungur
Himinhá alda skall upp á ströndina og vatnselgurinn kastaðist yfir stóran hluta eyjunnar. Nema á Dagmálahól þar sem ferðalangarnir stóðu. Hóllinn virtist nú hafa einhvers konar
verndarhjúp sem kom í veg fyrir að sjórinn næði að skella á þeim.
Smám saman fór vatnið að renna til baka aftur út í sjóinn. Dúðadurtur hafði náð að grípa utan um alla þar sem þau stóðu þarna á hólnum. Hann ætlaði ekki að missa neinn í sjóinn.
Þegar hann sleppti takinu mætti þeim undarleg sjón. Snjóla gamla skríkti af kátínu.
– Þetta er það klikkaðasta sem ég hef séð um ævina, sagði hún og tók nokkur dansspor á mjóum titrandi leggjunum.
Risastórt naut kom öslandi upp úr sjónum og stefndi í áttina til þeirra. Það var eins og fjall kæmi gangandi á móti þeim. Landvætturinn Griðungur var mættur. Hann var með tvö stór horn og loðinn feld. Hann hristi sig þegar hann kom upp úr fjörunni og vatnsgusurnar slettust alla leið til Ólafsvíkur.
Nautið rumdi og leit á þau. Það hljómaði eins og röddin kæmi innan úr jörðinni.
– Hver raskar ró minni? Hvað viljið þið? rumdi nautið.
Þau hrukku við skelfingu lostin. Snjóla gamla var sú eina sem virtist ekki vera í áfalli við að sjá þetta ferlíki. Hún fór þegar að útskýra málið fyrir Griðungi.
– Af hverju ætti ég að hjálpa, þegar öllum er sama! hvæsti hann.
– En okkur er ekki sama, sagði Gloría. Við höfum ferðast alla leið hingað til þess að lækna fólkið af mér-er-alveg-sama-veikinni.
– Já, þú verður að hjálpa okkur. Þú ert einn af landvættunum, sagði Emilía og rétti honum hinn steininn frá ljósálfunum. Það er þitt hlutverk að vernda landið. Við skulum hjálpa þér við það. Við getum gert þetta saman.
Griðungur tók við steininum og virti börnin fyrir sér. Hann táraðist.
– Ykkur stendur greinilega ekki á sama. Takk fyrir að gefa mér von. Við þurfum að byrja á að fara til Ísafjarðar. Þar hefur þessi óværa skotið rótum og allt er komið í óefni. Saman getum
við kannski upprætt veikina þar.
– Þið verðið fyrst að skila mér heim í hús. Ég verð að skrifa þetta allt strax niður í sjálfsævisöguna mína, sagði Snjóla og iðaði af spenningi.
Þau þökkuðu henni fyrir hjálpina og Dúðadurtur hljóp með gömlu konuna aftur heim í húsið sitt.
Snjóla settist við eldhús-borðið, fékk sér kaffibolla og kveikti á útvarpinu. Fréttirnar voru að byrja:
– Í fréttum er þetta helst. Landhelgisgæslan varar við mikilli haföldu við Íslandsstrendur. Sjófarendur eru beðnir um að fara varlega. Jarðskjálfti upp á 5,5 fannst nálægt Esju.
Snjóla kinkaði kolli, nú voru stórir hlutir að fara að gerast.
Þegar Dúðadurtur snéri aftur klifruðu hann og ferða-félagarnir á bak nautsins. Það gekk vel enda var Gussi afi gamall fjallagarpur og krakkarnir vanir að klifra á Skóla-hreystivellinum. Síðan grófu þau sig vel ofan í þykkan feldinn.
Griðungur þaut af stað með miklum látum. Hafið ólgaði allt í kringum hann þegar hann öslaði yfir Breiðafjörð, meðfram ströndinni og alla leið til Ísafjarðar. Há Vestfjarðafjöllin þutu fram hjá þeim. Loks stöðvaði nautið förina rétt við Pollinn á Ísafirði.
Þau voru fegin að hafa fast land undir fótum eftir þetta skrítna ferðalag. Þau litu í kringum sig. Alls staðar sáu þau rusl og drasl út um allt á götum bæjarins og við húsin.
– Þetta er hræðilegt, sagði Emilía og benti á leikvöllinn.
Rusl flæddi upp úr ruslatunnunum á leiksvæðinu. Þau sáu fullorðið fólk ganga um bæinn eins og uppvakningar. Það hélt á gosdósum og nammibréfum og henti því frá sér á jörðina eins og heilalausir zombíar.
Andri og Emilía fölnuðu af skelfingu.
– Uppvakningar, hrópaði Andri.
– Nei, sagði Gloría. Þetta er bara venjulegt fólk. En það er farið að haga sér eins og uppvakningar.
– Ég hef oft komið í þennan fallega bæ, sagði Gussi afi, ég bara skil ekki hvað hefur gerst hérna.
– Það er öllum sama um landið, rumdi Griðungur og hristi hausinn.
Skyndilega æpti Stúfur upp yfir sig og þaut af stað. Á leik-svæðinu sá hann uppblásinn ærslabelg. Hann hafði alltaf langað að prófa að hoppa á svona belg.
Þau eltu Stúf og horfðu á hann hoppa og skoppa af hjartans lyst. Dúðadurtur sá hvað þetta var skemmtilegt svo hann ákvað að prófa líka. Hann stökk á belginn en við það þeyttist Stúfur
langa leið upp í loft og hvarf síðan á bak við Eyrarfjall.
Ísafjörður
– Úps, ekki góð hugmynd, sagði Dúðadurtur, skömmustulegur á svip.
Börn sem voru á leið á ærslabelginn horfðu undrandi á flugferðina.
– Vá, fljúgandi jólasveinn, fljúgandi jólasveinn, hrópaði lítill strákur og klappaði saman lófunum.
– Ég fer og næ í hann, rumdi Griðungur, stökk af stað og hvarf á svipstundu á bak við fjallið.
Hann var fljótur að finna Stúf sem hafði stungist á kaf ofan í snjóskafl svo aðeins lappirnar stóðu upp úr. Lítil tröllastelpa var að reyna að toga Stúf upp úr snjónum. Hún var berfætt með úfinn haus, í grábláum buxum og grænni peysu.
– Ég heiti Tröllaskjóða og á heima þarna úti í Skessusæti, sagði tröllastelpan þegar þau höfðu loks náð að bjarga Stúfi upp úr snjóskaflinum. Hún sagði þeim að tröllin þar væru í miklum vandræðum. Nátttröllin væru að breytast í steina um hánótt og hin tröllin, sem annars þola sólarljósið, væru að fá alls konar ofnæmi og útbrot í sólarljósinu. Það væri bara allt eitthvað öfugsnúið.
Griðungur sagði Tröllaskjóðu þá að rífa hár úr hala sínum og fara með það heim í tröllahellinn. Sjóða úr því graut og láta tröllin borða hann.
– Taktu síðan væna lufsu af hári af hausnum á mér og stráðu því hér um fjöllin og heiðarnar. Þá ætti að komast á jafnvægi hér um slóðir, um stund að minnsta kosti, sagði Griðungur.
Tröllaskjóða lét ekki segja sér það tvisvar og reytti hárlufsur af Griðungi í gríð og erg. Að því loknu kvöddust þau og Griðungur fór á harðastökki, með Stúf á bakinu, til hinna ferðalanganna sem stóðu enn hjá krökkunum við ærslabelginn.
– Þetta eru Hrafney, Sóldís og Doddi litli bróðir þeirra, útskýrði Andri, þegar Stúfur fór að heilsa krökkunum.
– Vá, er hann ekki hættulegur? spurði Sóldís og benti á Griðung.
– Nei, sagði Gussi afi. Hann er að hjálpa okkur.
– Það er nefnilega allt í ólagi, sagði Dúðadurtur og dæsti.
Griðungur hristi hausinn, rumdi ógurlega og tók síðan til máls.
– Við verðum að vekja fólk upp af þessum doða. Ef fólkinu er sama um landið og náttúruna þá getum við landvættirnir ekki sinnt hlutverki okkar.
– Getum við hjálpað? spurðu Hrafney og Sóldís.
– Já, allir geta hjálpað, svaraði Emilía. Þið getið byrjað á því að segja fullorðna fólkinu að henda ekki rusli úti í náttúrunni og vera duglegt við að flokka.
– Já, og ekki skemma fjöllin okkar og landið að óþörfu, bætti Stúfur við.
– Ég veit, við stofnum björgunarsveit, sagði Hrafney.
– Já, svona eins og hvolpasveitina nema bara barnasveitina sem bjargar landinu, bætti Sóldís við.
– Pant vera Rikki, sagði Doddi litli og iðaði af spenningi. Hann elskaði hvolpasveitina.
– Frábær hugmynd, svöruðu Emilía og Andri.
Griðungur tók nú fram steininn góða frá ljósálfunum og lagði hann á jörðina. Skyndilega skipti steinninn sér í fimm steina.
– Takið einn stein hvert ykkar, sagði hann við börnin. Þeir munu hjálpa ykkur að muna hvað þið hafið mikilvægu hlutverki að gegna. Þið eruð framtíð þessa lands.
Emilía, Andri og systkinin tóku hvert fyrir sig einn stein og settu í vasann. Þau ætluðu vissulega að passa þá vel.
Fyrsta verkefnið var að þrífa ruslið af leikvellinum. Hópurinn flýtti sér að tína upp allt draslið. Þegar þau voru hálfnuð með verkið gengu kona og maður fram hjá. Þau virtust dofin eins og þau væru uppvakningar en allt í einu leit konan upp og sá hvað krakkarnir voru að gera. Hún brosti og togaði í manninn sinn sem einnig virtist vakna úr leiðslunni.
– Hvaðan kom allt þetta rusl? stundi hún. Við skulum hjálpa krökkunum.
Innan skamms höfðu enn fleiri bæst í hópinn. Þegar líða tók á daginn var hálfur bærinn kominn út að þrífa og tína upp rusl.
– Þetta tókst. Nú er ekki lengur þörf á okkur hér. Þau hafa sigrast á óværunni, sagði Griðungur. Nú þurfið þið að finna Gamm sem er landvættur Norðurlands og fá hann til að aðstoða ykkur við næstu þraut. Ég skal fara með ykkur yfir á Hvammstanga.
Ferðafélagarnir kvöddu krakkana á Ísafirði og klifruðu aftur á bak Griðungs. Þegar þau héldu af stað frá Ísafirði yfir Steingrímsfjarðarheiði var byrjað að snjóa.
Ísbjörn við Vatnsnes
Þegar þau nálguðust Vatnsnes hægði Griðungur á sér. Fyrir utan nesið sáust borgarísjakar á reki. Emilía og Andri höfðu aldrei áður séð svona risastóra ísjaka á ævinni. Þau störðu hugfangin á þessi ferlíki.
– Sjáðu, það er eitthvað sem hreyfist þarna á ísnum, sagði Emilía og benti á gula þúst sem hreyfðist fram og til baka á ísjakanum.
– Við verðum að gá hvað þetta er. Kannski er einhver í
vandræðum þarna, sagði Andri.
Griðungur tók undir sig stökk og á augabragði var hann kominn að ísjakanum. Þetta var fullorðinn ísbjörn með lítinn ísbjarnarhún með sér.
Þeir höfðu greinilega borist með ísnum frá Grænlandi.
– Hvað eru ísbirnir að gera á Íslandi? Þeir eiga ekki heima hér, sagði Emilía.
– Því miður eru ísbirnir á válista. Það þýðir að þeir eiga á hættu að verða útdauðir, svaraði Gussi afi. Ísinn þeirra er að bráðna vegna hlýnunar jarðar og stundum berast þeir á ísjökum alla leið hingað til Íslands.
– Við verðum að bjarga þeim! sagði Dúðadurtur.
– Engar áhyggjur, ég skal fara með þá aftur til Grænlands, sagði Griðungur.
Í fyrstu virtust ísbirnirnir hræddir og ætluðu að stökkva af jakanum og út í sjó þegar þau nálguðust. Griðungur rumdi þá hátt og ísbirnirnir lögðust niður á ísinn og biðu. Þeir virtust skilja að þau voru komin til að hjálpa þeim.
– En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að ísinn þeirra bráðni? spurði Emilía.
– Við getum reynt að fá fólk til að draga úr mengun. Þið gætuð til dæmis sent bréf á Alþingi til að hvetja þingmennina til að láta Ísland draga enn meira úr mengun, sagði Gussi afi.
Andri og Emilía tóku þegar í stað upp símana sína og pikkuðu eitthvað á ljóshraða.
– Búin, sagði Emilía.
– Ha? sögðu Gussi afi, Dúðadurtur og Gloría í kór.
– Ég er búin að senda tölvupóst á Alþingi.
– Þvílíkir töfrar! sagði Stúfur. Þetta er eins og hugsanaflutningur.
Krakkarnir litu hvort á annað og flýttu sér aftur að pikka í gríð og erg inn í símana.
– Hvað eruð þið nú að gera? spurði Gloría.
– Búinn, sagði Andri. Ég sendi skilaboð á alla í skólanum mínum og bað þá um að senda líka bréf á Alþingi.
Griðungur öslaði með félagana aftur í land og setti þá niður rétt utan við Hvammstanga. Þar kvaddi hann þau. En fyrst sagði hann Andra að rífa hár úr hala sínum. Það kæmi að notum seinna þegar þau hefðu leyst allar þrautirnar.
– Það er köttur sem býr hér í fjörunni við Hvammstanga. Hún heitir Mía. Hún getur hjálpað ykkur að ná sambandi við Gamm. Síðan stökk Griðungur að ísjakanum, ýtti honum á undan sér eins og brimbretti og hvarf með ísbirnina út á Húnaflóa.
– Hvar finnum við eiginlega þessu Míu? sagði Gussi afi. Verðum við ekki að skipta liði og leita um alla fjöruna?
– Ég get örugglega fundið hana, sagði Gloría og byrjaði að hnusa út í loftið. Hún hljóp síðan fram og til baka þefandi í allar áttir.
– Jú, hérna finn ég lykt. Það eru ekki bara hundar sem eru lyktnæmir, hélt hún áfram og benti þeim á að elta sig.
Bak við stóran stein í fjörunni sat svört kisa með hvítar loppur. Hún var að gæða sér á fiskbita sem einhver hafði skilið þarna eftir. Hún leit upp, heilsaði Gloríu og hélt svo áfram að borða.
Gloría útskýrði fyrir henni á hvaða ferðalagi þau væru og spurði hvort hún gæti hjálpað þeim að ná sambandi við landvættinn Gamm.
– Humm, sagði Mía og sleikti á sér loppurnar. Það fer eftir ýmsu, hér er öllum orðið alveg sama um allt. Áður en ég get náð í Gamm verður ljós að skína í myrkrinu. Síðan stakk hún sér ofan í gjótu og hvarf.
– Hún talar bara í gátum, hvernig eigum við að ráða fram úr þessu? sagði Gussi afi áhyggjufullur.
Þegar þau komu inn í bæinn sáu þau að þarna voru heldur engin jólaljós og ekkert sem minnti á að jólin væru að koma. Fyrir utan grunnskólann sáu þau nokkur börn á skólalóðinni. Þau virtust öll vera mjög leið og sum voru grátandi.
Hvammstangi
Emilía og Andri flýttu sér til krakkanna á skólalóðinni og spurðu þau af hverju þau væru svona leið. Börnin litu upp og voru meira hissa en hrædd yfir þessum skrítnu ferðalöngum sem voru komnir í bæinn þeirra.
– Ég fékk kaffi í skóinn, sagði strákur í blárri lopapeysu með ljóst krullað hár. Hann sagðist heita Brynjar.
– Já, og ég fékk kæstan hákarl, það var ógeðslegt, sagði lítil stelpa með rauðar fléttur. Hún var greinilega búin að gráta mikið yfir þessu.
– Og ég fékk dollu af kattamat og ég á ekki einu sinni kött, sagði stelpa sem hét Íris. Hún var í óðaönn að reyna að hugga litlu stelpuna með rauðu flétturnar. Hún sagði að þetta væri hún Birta litla systir hennar sem væri bara sex ára.
Stúfur, sem hafði falið sig á bak við Dúðadurt, steig nú fram fyrir hópinn.
– Þið verðið að fyrirgefa bræðrum mínum. Þeir eru ekki alveg með sjálfum sér þessa dagana.
Krakkarnir litu hissa á Stúf.
– Ertu alvöru jólasveinn? spurðu þau og nokkur þeirra prófuðu að toga í skeggið á honum til að gá hvort það væri örugglega ekta.
– Ég væri nú alveg til í smá kattamat hjá ykkur, sagði Gloría og horfði löngunaraugum á dolluna.
Íris hellti úr dósinni á stéttina og Gloría var ekki lengi að gófla í sig matinn. Krakkarnir tóku gleði sína á ný. Alvöru jólasveinn og talandi köttur voru eitthvað til að gleðjast yfir.
– Kennarinn sagði að við hlytum bara að hafa verið svona óþekk. Þá fengi maður kartöflu í skóinn. Kannski átti jólasveinninn ekki kartöflu handa svona mörgum, sagði Brynjar hugsi.
Jói, dökkhærður strákur, sem hafði setið álengdar, hélt á gömlum slitnum ullarsokk í hendinni sem hann hafði fengið í skóinn.
– Ég sagði mömmu að það væri ekkert jólalegt hjá okkur svo kannski hefði jólasveinninn þess vegna ruglast. „Mér er alveg sama“, sagði mamma. Hún sagði að það væri bara vesen að setja upp allt jólaskrautið bara til að taka það svo niður aftur í janúar. „Bara vesen“, sagði hún.
– Við erum einmitt að leita að Gammi, landvættinum, til að biðja hann um að hjálpa okkur að vekja fullorðna fólkið upp af þessari mér-er-alveg-sama-veiki, sagði Emilía.
– Kötturinn Mía, sagði að við gætum ekki fundið Gamm fyrr en ljós skín í myrkrinu, sagði Gloría.
– Ég veit, sagði Andri. Hvað með jólaljósin?
Hann snéri sér að krökkunum.
– Þið verðið að taka til ykkar ráða og gera þetta sjálf, sagði hann. Finnið allt jóladótið og skreytið bæinn eins og þið getið.
– Og ég lofa að gefa ykkur ekki kaffi og hákarl í skóinn í nótt, sagði Stúfur. Honum þótti þetta allt mjög leitt.
Krakkarnir laumuðust aftur inn í skólann. Allir kennararnir voru inni á kaffistofu. Þau flýttu sér niður í geymsluna þar sem þau vissu að jóladótið var geymt. Þau drógu fram jólaseríur, músastiga og aðventukransa. Innan skamms voru þau búin að setja upp ljósaseríur í glugga skólans og skreyta allt hátt og lágt.
Þegar bjallan hringdi inn úr frímínútum komu kennararnir fram og brostu agndofa þegar þeir sáu ljósin.
– Ég veit, sagði skólastjórinn með tár í augum. Höfum bökunarfrí í dag. Allir heim að skreyta. Frí í skólanum þar sem eftir er dagsins!
Krakkarnir hlógu og klöppuðu saman lófunum. Allir flýttu sér heim að skreyta húsin sín í gríð og erg. Innan skamms lýstu jólaljósin upp bæinn og kyrrð og ró færðist yfir allt.
Gammur
Ferðafélagarnir flýttu sér aftur niður í fjöru að gjótunni sem Mía hafði stokkið ofan í.
– Mía, kallaði Andri og stakk hausnum ofan í gjótuna. Mía sat þar á syllu og var að spjalla við pínulitla álfa. Þeir voru ekki stærri en þumalputtinn á Andra.
– Þetta eru Lilli, Tubbi og Lúlli vinir mínir. Ykkur hefur tekist að láta ljósin skína í myrkrinu, svo þeir gátu náð fjarsambandi við Gamm. Hann var staddur lengst norður í hafi en er á leiðinni til landsins.
Andri heilsaði álfunum. Þeir vinkuðu vinalega og hurfu síðan inn í stein í gjótunni.
Úti á sjónum sáu þau risastóran örn nálgast ströndina. Hann var með gulan gogg, gular klær og brúnar fjaðrir sem glitraði á í vetrarsólinni. Gammur var mættur.
Hann settist hjá þeim í fjörunni. Andri velti fyrir sér hvernig svona ferlíki gæti eiginlega flogið. Gammur hafði hitt Griðung á leið hans til Grænlands með ísbirnina. Griðungur hafði sagt honum frá leiðangri þeirra.
– Þið eruð þegar byrjuð að lækna fólk hér á Norðurlandi af þessari óværu og hafið bjargað þessum bæ. En það er annar bær hér á Norðurlandi sem er í enn verri málum.
Mía, sem hafði verið ofan í gjótunni, kom nú gangandi í rólegheitum til þeirra.
– Hann Jón fiskur, vinur minn, sagði mér frá því.
– Áttu fisk fyrir vin? spurði Emilía alveg hissa. Enda sýndist henni Mía alveg til í að gæða sér á fiskmeti í fjörunni.
– Ég borða ekki vini mína, svaraði Mía, sem virtist vita hvað Emilía var að hugsa.
Jón fiskur hafði sagt henni að stóru verksmiðjurnar við ströndina væru farnar að henda olíu og úrgangi í sjóinn. Þær væru að menga strendur landsins. Verksmiðjueigendurnir nenntu bara ekki
lengur að hreinsa eftir sig. Þeim væri alveg sama.
– Þetta eru hræðilegar fréttir, sagði Gussi afi. Hvað getum við gert?
– Við förum á Húsavík, sagði Gammur, klifrið á bak mér. Við förum strax.
– Bíðið, bíðið! Þið þurfið að gera annað fyrst, sagði Mía.
Kötturinn hefur auga,
þar sig hægt er að lauga
og finna gullna bauga, sagði Mía og hvarf aftur ofan í gjótuna.
– Já, hún Mía talar oft í gátum en ég held ég skilji þessa. Í Vatnsdalnum er merkilegt náttúruvætti sem kallast Kattarauga. Þar er að finna máttugan gullhring sem aðeins má nota ef mikið liggur við. Og aðeins ef það er til góðs fyrir alla í landinu. Margir hafa reynt að finna hann en ekki orðið ágengt, sagði Gammur. Þið þurfið þennan hring til að finna Dreka, landvætt Austurlands, og til að klára leiðangurinn. Við förum þangað fyrst.
Gammur lagðist niður og sagði þeim að klifra á bak sér og halda sér fast. Hann skyldi fljúga með þau þangað. Gussi afi var hálf smeykur og reyndi að binda börnin föst við Gamm með snæri sem hann var með í bakpokanum sínum. Það væri betra að hafa öryggisbelti, hugsaði hann með sér, en þetta verður að duga.
Gammur flaug með þau af stað í austurátt. Eftir stutta stund voru þau komin inn í Vatnsdal að Kattarauga. Þetta var djúp tjörn með tveimur fljótandi hólmum sem ráku fram og aftur um vatnið eftir því sem vindurinn blés. Í miðju vatnsins glitti í eitthvað sem líktist risastóru auga sem starði illskulega á þau.
Kattarauga
– Þetta er lindarauga, sagði Gammur. Hér býr hún Fanndís. Hún er vatnadís. Hún sér allt sem gerist hér í kring. Hún er greinilega ekki í góðu skapi.
Það var komið kvöld svo þau ákváðu að gista við tjörnina og reyna að ná tali af Fanndísi daginn eftir. Gussi afi dró göngutjald upp úr bakpokanum og krakkarnir og Gloría komu sér fyrir í tjaldinu.
Dúðadurtur hafði lofað að hlaupa með Stúf á hestbaki um landið þessa nótt til að gefa eitthvað gott í skóinn. Hann vildi alls ekki valda krökkunum á Hvammstanga vonbrigðum. Dúðadurtur hafði þá ofurkrafta að geta hlaupið á ljóshraða. Stúfur þurfti bara að passa sig að fjúka ekki af baki þegar Dúðadurtur rauk af stað.
Þegar Gussi afi, Gloría og krakkarnir voru farnir inn í tjald að sofa breiddi Gammur vængi sína yfir þau eins og ungamamma til að halda á þeim hita.
Það snjóaði um nóttina. Morguninn eftir þegar krakkarnir kíktu út úr tjaldinu stóð Gammur við tjörnina. Hann var að rífast við tvær verur sem stóðu á hólma úti í vatninu. Verurnar líktust köttum. Þær voru svartar, með sundfit á tánum en höfðu hvorki veiðihár né rófu og feldurinn var eins og hreistur á fiskum.
Andri og Emilía höfðu heyrt um vatnaskrímslið Nykur sem leit út eins og hestur með öfuga hófa en þessar vatnaverur voru greinilega ekki af hestakyni.
– Hvar er Gussi afi? spurði Emilía. Þau sáu hann hvergi. Þau reyndu að kalla á Gamm. Hann var mjög æstur og gargaði illilega á vatnakettina. Þeir hvæstu á móti og létu stærð Gamms ekki trufla sig.
Loks tók Gammur eftir því að Gloría og krakkarnir voru vaknaðir og fór til þeirra þar sem þau stóðu við tjaldið.
– Ég hef því miður slæmar fréttir að færa ykkur, sagði Gammur. Afi ykkar er horfinn. Hún Fanndís hlýtur að hafa lagt á mig einhvern svefngaldur því ég varð ekki var við neitt.
Þegar Gammur vaknaði sá hann að spor eftir Gussa afa lágu út úr tjaldinu og að tjörninni. Þar sá hann síðan stór hófför sem voru greinilega eftir Nykur. Hann elti förin upp á Arnarvatnsheiði þar sem þau hurfu í snjónum.
– Við verðum að finna afa strax, sagði Andri og tárin láku niður kinnar hans. Emilía reyndi að hugga bróður sinn en var sjálf alveg miður sín. Hún tók upp símann sinn og hringdi á Neyðarlínuna.
– Afi er horfinn, sagði hún og ætlaði að segja hvar þau væru stödd en manneskjan í símanum svaraði, „mér er alveg sama“ og skellti á. Þetta var allt svo hræðilegt.
– Vatnakettirnir sögðu mér að Fanndís vildi ekkert tala við okkur og ekki láta okkur fá hringinn, sagði Gammur. Hún ætti fullt í fangi með að vernda vatnið sitt.
Krakkarnir hlupu að tjörninni og kölluðu eins hátt og þau gátu á Fanndísi. Þau ætluðu sko ekki að láta einhverjar vatnaverur stela honum Gussa afa.
Loks sáu þau hreyfingu á vatninu. Upp úr því reis fögur vatnadís í heiðblárri skikkju sem bylgjaðist í vatninu. Hún synti hægt um vatnið og horfði rannsakandi á krakkana.
– Hvar er Gussi afi, er allt í lagi með hann? hrópuðu krakkarnir.
– Það amar ekkert að honum afa ykkar. Ég treysti ekki fullorðna fólkinu og þess vegna sendi ég hann í burtu. Ef þið getið fengið einhverja hér á Norðurlandi til að láta sér annt um landið sitt, skal ég leyfa ykkur að fá hringinn og segja ykkur hvar afi ykkar er. En þið þurfið að gera þetta ein, sagði Fanndís og benti á Gloríu og krakkana.
Húsavík
Emilía og Andri horfðu áhyggjufull á Gloríu.
– Hvernig getum við gert þetta ein? sagði Andri.
Gammur reyndi að róa þau.
– Við gerum eins og hún segir. Við förum strax til Húsavíkur og fáum fólkið þar til að láta sér annt um landið.
– En getum við ekki beðið eftir Stúf og Dúðadurti? sagði Emilía.
– Nei, við verðum að fara strax. Það liggur mikið við, sagði Gammur.
Þau klifruðu á bak fuglsins. Gammur þaut upp í loftið og fyrr en varði var tjaldið hans Gussa afa eins og pínulítil rúsína í snjónum.
Gammur setti þau niður rétt utan við Húsavík.
– Hér er mikið verk að vinna, sagði Gammur. Þið kallið á mig þegar þið hafið fengið fólkið í þessum bæ til að hætta að vera sama um landið sitt. Síðan flaug hann burt og hvarf bak við fjöllin.
Þegar þau nálguðust bæinn fóru þau að finna mjög vonda lykt.
– Þetta er ógeðsleg fýla, sagði Emilía og tók fyrir nefið. Þau sáu nokkra krakka vera að renna sér á snjóþotum. Þau voru öll með klemmu á nefinu.
– Af hverju er svona vond lykt hérna? spurði Andri krakkana.
– Það er verksmiðjan. Það bilaði einhver hreinsunarbúnaður en forstjórinn nennir ekki að láta laga þetta. Segir að það sé allt of dýrt.
– Já, hann segir að þetta sé bara peningalykt. En ég hef aldrei fundið neina lykt af peningum, sagði stelpa með bláa húfu í rauðum snjógalla. Hún sagðist heita Sóley. Hún var með lítinn hund með sér sem var mjög forvitinn um Gloríu og reyndi að þvo henni á bak við eyrun.
– En hvað segja foreldrar ykkar? Það getur ekki verið hollt fyrir neinn að anda þessu að sér, sagði Emilía.
– Þeim er bara alveg sama, svöruðu krakkarnir.
– Þið þurfið að mótmæla og kannski fara bara sjálf í verkfall. Það er ekki hægt að bjóða neinum upp á svona ógeð, sagði Gloría.
Litla hundinum hennar Sóleyjar brá svo mikið þegar Gloría fór að tala að hann datt um koll og steinlá með lappirnar upp í loft eins og hann væri dauður.
– Þetta er Gloría, sagði Andri. Hún er mjög klár köttur eins og þið heyrið.
Krakkarnir vildu heyra Gloríu tala meira svo hún sagði þeim hvers vegna þau væru komin hingað. Gussi afi væri horfinn og allt væri undir því komið að þeim tækist að fá fólk til að hætta að vera sama um landið.
Krakkarnir vildu ólmir hjálpa. Það var ákveðið að fara í mótmælagöngu og láta alla í bænum vita að krakkarnir væru búnir að fá nóg af þessari ógeðslegu fýlu.
Alex og Embla, stærstu krakkarnir í hópnum, fóru af stað til að hóa saman öllum börnunum í bænum. Þau ætluðu síðan að hittast niðri við höfnina í bátaskýli sem afi Emblu átti.
Gloría, Andri og Emilía eltu krakkana niður í fjöru. Það voru mörg gömul falleg hús við höfnina og bátar bundnir við bryggju. Þetta er svo fallegur bær hugsaði Gloría með sér, bara að það
væri ekki svona vond lykt hérna. Hún óskaði þess að hún hefði putta til að geta haldið fyrir nefið.
Inni í bátaskýlinu var mikið af verkfærum, alls konar spýtum og málningu.
Þau hófust þegar handa við að útbúa mótmælaspjöld. Eftir nokkra stund voru þau komin með fullt af spjöldum. Sum með slagorðum á borð við, ,,Burt með fýluna“ og „Hreint loft í bæinn“. Önnur með myndum sem krakkarnir teiknuðu af fuglum fljúgandi yfir bæinn haldandi fyrir nefið, krökkum og dýrum með nefklemmu og „OJ“ skrifað með stórum stöfum.
Þessir krakkar ætluðu sannarlega að láta til sín taka. En gætu þau stöðvað heila verksmiðju?
Kröfugangan
Það var komið fram á kvöld þegar krakkarnir á Húsavík voru tilbúnir með kröfuspjöldin. Þá fékk Alex góða hugmynd. Hann sagði að enginn svæfi með nefklemmu heldur með alla glugga lokaða svo lyktin kæmist ekki inn í húsin.
– Þegar foreldrar okkar eru farnir að sofa þá felum við allar nefklemmurnar svo þau neyðist til að anda þessu að sér. Síðan förum við í mótmælagöngu um bæinn og endum hjá verksmiðjunni, sagði Alex.
Krökkunum leist vel á þetta og ákváðu að hittast daginn eftir klukkan átta við bátaskýlið. Andri, Emilía og Gloría gistu í skýlinu um nóttina.
Næsta dag voru krakkarnir komnir snemma. Áætlunin gekk vel. Foreldrar um allan bæ voru að leita að nefklemmum en fundu engar. Gloría sá fólk á hlaupum í vinnuna haldandi um nefið.
Krakkarnir lögðu síðan af stað með kröfuspjöldin. Karitas, lítil stelpa með loðhúfu og síðar fléttur, hafði skrifað á spjaldið sitt: „Burt með fýlu, heim með Grýlu.“ Hún var greinilega með hugann við vandræði jólasveinanna líka.
Krakkarnir vöktu mikla athygli í bænum. Fólk kom hlaupandi út til að sjá hvað væri að gerast. Gloría heyrði marga tauta með sjálfum sér.
– Þetta er alveg rétt hjá þeim, það verður að gera eitthvað.
Smám saman fór fullorðna fólkið að ganga með þeim og hrópa slagorð. Þau staðnæmdust fyrir utan verksmiðjuna og héldu áfram að hrópa og kalla.
Á skrifstofunni sat forstjórinn og var að reikna út hvernig hann gæti grætt meiri pening þegar skrifstofustjórinn kom æðandi inn um dyrnar. Hann hélt um nefið og reyndi að tala en kúgaðist og kom ekki upp nokkru orði. Þá kom verkstjórinn og reyndi líka að tala. Þeir voru orðnir grænir í framan af ógleði.
Verkstjórinn opnaði munninn en þá kom gusa upp úr honum og hann ældi öllum morgunmatnum yfir skrifstofustjórann. Skrifstofustjórinn ældi svo yfir forstjórann. Forstjórinn reyndi að segja eitthvað en ældi svo mikið sjálfur að hann gat ekki talað. Hann tók fram blað og skrifaði með stórum stöfum: „Slökkvið á vélunum.“
Verkstjórinn lét ekki segja sér það tvisvar heldur hljóp inn í verksmiðjuna og slökkti sjálfur. Starfsfólkið hrópaði af gleði og hljóp út til krakkanna. Ógeðslegi reykurinn hætti að liðast upp úr reykháfnum á verksmiðjunni.
– Þið gátuð þetta, sagði Andri.
– Já, með ykkar hjálp, svaraði Embla. Vindurinn var þegar farinn að feykja burtu vondu lyktinni og ilmur af söltum sjó og þara farinn að berast til þeirra.
Forstjórinn kom labbandi út. Hann var búinn að reyna að ná af sér mestu ælunni. Hann bað krakkana afsökunar á að hafa verið svona heimskur að halda að peningar væru mikilvægari fyrir bæinn en hreint loft.
Krakkarnir ákváðu að fyrirgefa honum en þau ætluðu að fylgjast vel með að hann stæði við loforð sitt og léti lagfæra hreinsibúnaðinn.
Karitas litla, sem var dóttir forstjórans, greip í höndina á pabba sínum og sagðist vilja jólaljós og jólatré strax fyrir allan bæinn og að Grýla yrði að koma heim. Pabbi hennar lofaði að gera sitt besta. Hann vissi samt ekki hvar hann gæti fundið Grýlu. En hann myndi gefa öllum frí þar til búið væri að laga verksmiðjuna og hann myndi fara sjálfur að skreyta bæinn.
– En fyrst verður þú að skipta um föt pabbi, það er svo vond gubbulykt af þér, sagði Karitas og brosti.
Fljótlega fóru jólaljós að sjást um allan bæinn.
Hringurinn
Emilía og Andri voru að dást að ljósunum í bænum þegar þau heyrðu kallað fyrir aftan sig.
– Vel gert!
Þarna voru þeir Stúfur og Dúðadurtur komnir aftur. Það voru miklir fagnaðarfundir. Stúfur sagði að þeir hefðu hlaupið marga hringi um landið að leita að þeim. Þegar þeir sáu jólaljósin kvikna á Húsvík voru þeir vissir um að Andri, Emilía og Gloría hefðu komið því til leiðar.
Þau kölluðu á Gamm. Hann hafði beðið þeirra við fjallið Búrfell, skammt frá Húsavík og var snöggur að koma til þeirra. Hann sagði að nú þyrftu þau að fara aftur að Kattarauga og reyna að fá gullhringinn hjá vatnadísinni. Næsta verkefni væri að finna Dreka. Hann hlýðir engu nema hann sjái gull.
Tjaldið hans afa var enn við Kattarauga þegar þau komu til baka. Dúðadurtur pakkaði því saman ef þau þyrftu aftur á því að halda.
Þau kölluðu á Fanndísi en enginn svaraði. Ekkert bólaði heldur á vatnaköttunum. Dúðadurtur reyndi að vaða út í tjörnina en það var eins og einhverjir kraftar ýttu honum í burtu. Stúfur og krakkarnir komust ekki heldur nálægt vatninu.
Gloría átti hins vegar ekki í neinum vandræðum með að nálgast tjörnina. Hún rak trýnið ofan í og sá glitta í eitthvað skínandi á botninum. Gæti þetta verið hringurinn? Hún sem þoldi ekki að blotna. En hún varð að gera eitthvað. Bara að það séu ekki fleiri óvættir af kattarkyni hérna, hugsaði hún með sér. Hún hafði alltaf óttast skuggabaldur sem var afkvæmi tófu og kattar. Þeir gátu verið mjög varasöm kvikindi.
Án þess að segja orð stökk Gloría ofan í vatnið og synti til botns. Hún greip gullhringinn í munninn og reyndi að synda til baka en gat það ekki. Gloría skreið að lindarauganu á botni tjarnarinnar
og starði inn í það. Eins og til að segja að nú þyrftu vatnaverurnar að koma til hjálpar.
Skyndilega fór vatnið í auga lindarinnar að ólga eins og gosbrunnur og skaut Gloríu upp úr vatninu og upp á þurrt land.
– Aðeins köttur kemst í Kattaraugað, heyrði Gloría sagt fyrir aftan sig þegar hún skreið rennblaut frá tjörninni. Þarna var vatnadísin Fanndís komin með vatnakettina tvo á öxlunum.
– Þið notið hringinn vel, sagði hún.
– Vá, hvað þú ert hugrökk Gloría, sagði Andri og reyndi að þurrka mestu bleytuna af Gloríu.
– Ég var samt skíthrædd, sagði Gloría.
Fanndís gerði sig líklega til að stinga sér aftur á kaf ofan í vatnið.
– En hvað með afa!? Þú lofaðir að segja okkur hvar hann væri, hrópaði Emilía.
Fanndís yppti öxlum.
– Nykurinn fór með hann upp að Kverkfjöllum til bergrisanna. Þið finnið hann á Suðurlandi.
Dreki
Gammur flaug næst með þau til Vopnafjarðar og skildi þau eftir við foss innst í Hofsá.
– Þarna undir fossinum býr jötunn sem gæti hjálpað ykkur að finna Dreka. Fosskarlinn, eins og hann er kallaður, var mikill grallari í gamla daga en hefur ekki látið sjá sig í meira en hundrað ár, sagði Gammur. Kannski er hann tilbúinn í smá félagsskap.
Áður en Gammur kvaddi rétti hann Emilíu og Andra fjaðrir úr stéli sínu.
– Þið notið svo fjaðrirnar þegar þar að kemur, sagði hann og flaug svo burtu í norðurátt.
Dúðadurtur kallaði eins hátt og hann gat á jötuninn. Í fyrstu gerðist ekkert en síðan sáu þau stóran loðinn haus stingast út úr fossinum.
– Hver er að kalla á mig? spurði jötunninn og hristi hausinn.
– Ég er hann frændi þinn, sagði Dúðadurtur, og mig vantar hjálp.
Tröll geta verið úrill og jafnvel hættuleg en þau munu alltaf hjálpa ættingjum sínum. Þetta vissi Dúðadurtur.
Fosskarlinn Fossi steig út úr fossinum og spurði strax hvernig hann gæti hjálpað. Hann var miklu stærri en Dúðadurtur, klæddur í gæruskinn en berfættur eins og öll önnur tröll og jötnar. Á jakkanum hans voru margir djúpir vasar. Eflaust til að safna í matarforða fyrir veturinn. Það kæmust heilu kindurnar ofan í þessa vasa, hugsaði Andri með sér.
Fossi var strax til í að hjálpa þeim. Hann sagði að sér væri farið að leiðast og vildi fara að takast á við ný verkefni. Þegar hann var yngri var hann alltaf að grínast í bændunum í sveitinni en nú sæi hann bara ekki nokkra sálu.
– Þið verðið að fara mjög varlega þegar þið nálgist Dreka, sagði Fossi. Hann er mjög úrillur þessa dagana. Ég hef séð hann æða hérna um Austurland með snjódreka, orma, pöddur og eðlur á eftir sér. Ég er skíthræddur um að þeir komi af stað snjóflóði með látunum í sér.
– Til að finna Dreka þurfum við að fara upp á hæsta fjallið og hrópa nafn hans þrisvar sinnum, sagði Fossi. Fylgið mér.
Fossi setti Emilíu og Andra í einn vasann á jakkanum sínum og Stúf og Gloríu í hinn. Síðan arkaði hann af stað og Dúðadurtur hljóp á eftir honum.
Þeir klifruðu upp á hæsta fjallið og þar tók Fossi þau upp úr vösunum og setti þau á jörðina.
Síðan hrópuðu þau af lífs- og sálarkröftum nafn Dreka þrisvar sinnum.
– Dreki! Dreki! Dreki!
Um leið birtist ógurlegur hreistraður dreki, með stóra vængi, eldrauð augu, risa klær og tennur eins og hákarl. Drekinn nálgaðist þau á miklum hraða.
– Fljót! Sýndu honum gullhringinn, hrópaði Dúða-durtur um leið og Dreki hnitaði hringi fyrir ofan þau.
Emilía lyfti hringnum upp eins hátt og hún gat. Dreki stakk sér niður að þeim með opinn kjaftinn eins og hann ætlaði að gleypa þau öll og öskraði ógurlega. Fjöllin hristust og krakkarnir veinuðu af skelfingu. Þetta var hræðilegasta skrímsli sem þau höfðu nokkru sinni séð og það var að fara að éta þau.
Lagarfljótsormurinn
Dreki greip gullhringinn úr höndum Emilíu með klónum og settist skammt frá þeim. Hann þefaði af hringnum og leit síðan á þau.
– Ég var næstum búinn að pissa á mig af hræðslu, sagði Dúða-durtur þegar hann var búinn að jafna sig. Dreki ætlaði greinilega ekki að éta þau í þetta sinn.
– Talið! skipaði Dreki.
Andri og Emilía voru rétt búin að ná andanum eftir þessa lífsreynslu. Þau langaði mest að hlaupa í burtu en mundu þá eftir Gussa afa. Þau yrðu að standa sig fyrir afa og alla hina.
Þau sögðu Dreka frá ferðalagi sínu og hvað væri í húfi. Dreki starði á þau og ýtti svo gullhringnum aftur til Emilíu.
– Passaðu hann vel, sagði Dreki. Kannski er enn von um að fólkið átti sig og við landvættirnir getum aftur farið að vernda landið.
Dreki sagði þeim að fara í Hallormsstaðaskóg og fá Lagarfljóts-orminn í lið með sér. Skógurinn væri í mikilli hættu. Þau yrðu að bjarga honum. Síðan flaug hann í burtu.
Ferðin í Hallormsstaðaskóg gekk vel. Það var hlýtt í vasanum á gærujakkanum hans Fossa og þau gátu notið útsýnisins yfir fjöllin og heiðarnar.
Hallormsstaðaskógur breiddi úr sér við Lagarfljót. Krakkarnir höfðu aldrei fyrr séð svona stóran skóg á Íslandi. Fossi horfði hugfanginn yfir skóglendið.
En eitthvað var ekki í lagi. Þau stoppuðu í Atlavík. Þarna var allt fullt af stórum vinnuvélum sem voru byrjaðar að ryðja burtu trjám og róta upp jarðveginn.
Á stóru skilti við svæðið stóð: „Öll umferð bönnuð. Hér verður byggð stærsta og mesta verksmiðja á Íslandi.“
– Það má ekki skemma skóginn! hrópaði Fossi.
Þau stóðu öll niðurlút og störðu á eyðilegginguna. Fyrir aftan þau heyrðist skvamp í ánni. Risastór mosagrænn ormur, með haus eins og eðla, skaut kryppunni upp úr fljótinu og teygði hausinn í áttina til þeirra.
– Ætlið þið að gera eitthvað í því? rumdi í orminum.
Stórar öldur mynduðust á vatninu.
– Ó já, svaraði Fossi.
– Ég finn fyrir hringnum sem þið eruð með svo þið getið stólað á mig, sagði ormurinn.
Þau lögðu á ráðin um hvað væri hægt að gera.
– Við verðum að koma í veg fyrir meiri skemmdir, sagði Stúfur. Dúðadurtur sneri sér að Fossa.
– Þarft þú ekki að taka upp fyrri siði og byrja að stríða fólkinu? Taka gröfurnar þeirra og vélarnar og fela þetta dót? Ormur getur hjálpað þér að flytja þær í burtu. Kannski getur hann synt með þær niður að Fellabæ eða lengra, sagði Dúðadurtur.
Fossa leist vel á þessa hugmynd. Hann greip eina gröfuna í fangið og óð með hana út í fljótið til ormsins.
– Sæktu aðra, ég get nú borið meira en þetta, sagði Lagarfljótsormurinn og beið þar til Fossi var búinn að raða tveimur gröfum og þremur vinnuvélum á bak hans. Síðan synti hann á fleygiferð með tækin á bakinu og hvarf niður fljótið.
Á bak við tré hafði skógarálfurinn Kvika fylgst vel með öllu sem fram fór.
– Takk fyrir að fara burtu með þessi skelfilegu tæki. En þetta er ekki nóg. Á eftir ætla mennirnir að sprengja stórt svæði í skóginum svo þeir geti sett þessa risa-verksmiðju sína þar.
– Getum við ekki hrætt þá til að hætta við þessa verksmiðju eins og álfarnir í Kópavogi gerðu þegar það átti að sprengja Álfhól? sagði Andri spenntur.
Fossi hoppaði upp og niður af kæti. Það hljómaði vel.
– Fylgið mér, sagði Kvika.
Fossi og Dúðadurtur laumuðust á eftir henni að vinnusvæðinu. Andri, Emilía, Gloría og Stúfur földu sig í vasanum á Fossa og fylgdust með öllu.
Á vinnusvæðinu voru nokkrir vinnumenn í gulum vestum með appelsínugula hjálma á höfði. Þeir voru að setja sprengiefni ofan í jörðina. Þeir virtust hálf-sofandi eins og þeir væru í leiðslu.
Fossi og Dúðadurtur hlupu öskrandi inn á mitt svæðið. Mennirnir hrukku við. Þeir áttuðu sig ekki í fyrstu á því sem var að gerast, svo fölnuðu þeir af skelfingu.
– Tröll! Alvöru tröll! æpti einn vinnumaðurinn.
Fossi æddi að öllum sprengjunum, tíndi þær upp og gleypti þær í heilu lagi.
– Hann át sprengjurnar! Fljótir, sprengið þær! Sprengið tröllið! orgaði einn mannanna.
Félagi hans flýtti sér að ýta á sprengjutakkann og örlítið gutl heyrðist inni í maganum á Fossa. Síðan hleypti hann út pínulitlu, vesælu prumpi.
Mennirnir veinuðu af ótta og hlupu allir hver í sína áttina. Nokkrir hlupu niður að fljótinu en þar tók Lagarfljótsormurinn á móti þeim.
– Skrímsli! Alls staðar skrímsli! görguðu mennirnir.
– Ekki byggja þessa verksmiðju! Ekki sprengja skóginn! urraði Fossi.
– Við lofum! Við lofum! hrópuðu mennirnir sem voru svo sannarlega vaknaðir upp af doðanum sem áður hafði heltekið þá.
– Hér verður ekki byggð nein verksmiðja, lofuðu þeir.
– Ég held þeim sé batnað, sagði Emilía og Andri kinkaði kolli.
– Ég verð eftir hér hjá skógarálfunum og Lagarfljótsorminum og gæti þess að þeir standi við loforðið, sagði Fossi.
Í því kom Dreki fljúgandi og lenti hjá þeim.
– Ykkur tókst það. Þið hafið hrakið óværuna á brott héðan. Nú þurfið þið bara að fara á Suðurland og finna Jötun.
Síðan tók hann smá hreistur af vængjum sínum og rétti Emilíu og Andra.
– Þið notið þetta þegar þar að kemur, sagði hann og hvarf síðan út á fjörðinn.
Jötunn
Dúðadurtur sagði að hann þyrfti að skjótast upp að Snæfelli og finna þar góðan fararskjóta fyrir þau. Hann gæti ekki borið þau öll einn.
Hann þaut upp til fjalla og hvarf. Eftir skamma stund kom hann til baka með eitthvað sem líktist hreindýri. Dýrið var með stór horn og klaufir en þegar betur var að gáð sáu þau að þetta var ekki hreindýr heldur kýr. Gloría hafði aldrei áður séð kú með berum augum. Það var ekki mikið af þeim í Kópavogi.
– Sæl verið þið, ég heiti Búkolla, sagði kýrin.
Emilía og Andri voru alveg hissa. Þarna var hin eina og sanna Búkolla komin til að hjálpa þeim.
– Geturðu flogið? spurði Andri. Þið fóruð svo hratt yfir að það var eins og þið kæmuð fljúgandi.
– Nei, en með jólasveini og trölli get ég farið ansi hratt yfir og næstum því flogið, svaraði Búkolla.
Áður en Fossi kvaddi þau reif hann bút úr gærunni sinni og vafði utan um börnin og Gloríu.
– Það gæti orðið mjög kalt á leiðinni yfir fjöllin og jökulinn, sagði hann.
Krakkarnir settust á bak Búkollu, Dúðadurtur batt Gloríu inn í gærupoka og festi við Andra. Stúfur stökk upp á bakið á Dúðadurti og svo þutu þau öll af stað.
Stefnan var tekin á Snæfell og þaðan farið sem leið lá beint yfir Vatnajökul og niður að fjallinu Lómagnúpi.
Þetta var fallegur en kaldur dagur, varla ský á himni. Snjór lá yfir öllu. Fjöll og tindar þutu fram hjá þeim á leifturhraða. Fyrr en varði voru þau komin á Suðurland.
Lómagnúpur reis tignarlegur upp af Skeiðarársandi. Þau fóru strax að skima eftir Jötni við fjallið og kalla á hann en ekkert bólaði á honum. Þau leituðu síðan um sandana og allt svæðið um kring án árangurs. Kannski finnum við aldrei Gussa afa, hugsaði Emilía með sér. Hún settist niður og grét.
Tárin féllu á sandinn við fætur hennar. Skyndilega fór sandurinn að hreyfast. Það var eitthvað þarna undir. Emilía stökk á fætur og kallaði á vini sína sem enn voru að leita neðar á sandinum.
Upp úr jörðinni reis mikill risi. Þetta var Jötunn. Hann var búinn að grafa sig ofan í sandinn. Hann settist upp og horfði hissa á Emilíu. Hún sagði honum allt af létta og nú yrði hann að hjálpa þeim með síðasta áfangann í þessum björgunarleiðangri.
Jötunn lagðist aftur niður og sópaði sandinum yfir sig svo Emilía sá aðeins í eitt auga hans.
– Hvað ertu að gera? hrópaði hún.
– Ekki neitt, ég get ekki gert neitt og mér er alveg sama. Það er allt ónýtt, járnstafurinn minn er horfinn, sagði Jötunn og reyndi að sópa meiri sandi yfir sig.
Nú voru hinir félagarnir komnir til þeirra. Þau reyndu öll að tala um fyrir Jötni en hann lét ekki segjast.
– En þú ert vitrastur allra landvættanna, sagði Stúfur og potaði í nefið á risanum. Gerðu eitthvað.
– Allur minn kraftur og viska kemur úr járnstafnum mínum, vældi Jötunn og gróf sig enn lengra ofan í svartan sandinn, og mér er líka bara alveg sama.
Þau litu áhyggjufull hvert á annað. Jötunn var greinilega búinn að smitast af veikinni. Án hans gætu þau ekki klárað þrautirnar og sigrast endanlega á mér-er-alveg-sama-veikinni.
Þau gerðu allt sem þeim datt í hug. Tímunum saman reyndu þau að tala um fyrir honum og hvetja hann áfram með ráðum og dáðum. En ekkert gekk.
Að endingu voru þau alveg uppgefin. Þau settust niður við hlið hans. Voru þetta endalokin? Öllum yrði bara sama um allt, landið yrði bara eyðilagt og það kæmu engin jól. Var þá allt þeirra erfiði unnið fyrir gýg?
Bergrisarnir
– Gaur, við erum að koma, heyrðu þau sagt með þrumu-röddu svo undirtók í fjöllunum.
Andri og Emilía spruttu á fætur. Í fjarska sáu þau þrjá bergrisa koma arkandi í áttina til þeirra. Þeir voru risavaxnir eins og Jötunn. Allir voru þeir klæddir gráum gærum með sítt hár sem flaksaði
í allar áttir þegar þeir strunsuðu yfir ár og vötn á leið sinni. Upp úr vasa á gærunni hjá einum þeirra sáu þau mannveru veifa til þeirra.
– Afi, ert þetta þú? hrópuðu börnin þegar risarnir stöðvuðu hjá þeim.
Bergrisinn lyfti Gussa afa upp úr vasanum og setti hann varlega niður. Það voru miklir fagnaðarfundir. Börnin dönsuðu af gleði í kringum afa sinn og knúsuðu hann. Stúfur og Gloría snerust í hringi af fögnuði.
– Hann afi ykkar er sko alvöru gaur, sagði bergrisinn, sem sagðist heita Loðmundur, kallaður Lúbbi.
– Hann var sko ekkert hræddur við okkur, hélt Lúbbi áfram. Hann gerði bara eitthvað hí ha stökk og sagðist vera karate-meistari. Enginn bergrisi eða aðrir vættir skyldu stöðva hann í að finna afabörnin sín og bjarga landinu frá eilífri glötun.
– Hann Lúbbi sá ykkur þjóta fram hjá þegar hann var að skima eftir ykkur krökkunum fyrir karate-meistarann, sagði annar bergrisi sem kallaðist Ýmir.
Sá þriðji sagði ekki orð en horfði með aðdáun á Gussa afa. Þeim fannst hann greinilega mjög svalur.
Bergrisarnir hófust handa við að grafa Jötun upp úr sandinum og reisa hann á fætur. Hann mótmælti og vildi bara leggjast aftur en þeir tóku það ekki í mál.
– Sjáðu þessa krakka hérna og afa þeirra, þau eru búin að leggja á sig mikið erfiði. Þau eru ekkert að fara að gefast upp. Það er ekki í boði. Taktu þau þér til fyrirmyndar, sagði Lúbbi og reyndi að rétta úr Jötni sem stóð hokinn og niðurlútur fyrir framan þau.
– En járnstafurinn minn er horfinn, sagði Jötunn og reyndi aftur að leggjast.
– Járnstafur er bara stafur og ekkert annað. Þú færð enga visku úr honum, sagði Andri.
– Já, viskan kemur frá hjartanu, frá kærleika og samkennd með öðrum. Það segir mamma alltaf, sagði Emilía.
Jötunn rétti úr sér og horfði undrandi á þau. Síðan leit hann niður á bringuna á sér eins og hann vildi gá hvort hann sæi einhverja visku koma út úr hjartanu.
– Þetta er bara orðað svona, sagði Gussi afi og hló, viskan býr innra með þér. Í þínu lífi og fyrri reynslu.
Það birti yfir Jötni. Síðan hristi hann sig kröftuglega eins og hann væri að hrista af sér veikina.
– Ó, nú veit ég hvar stafurinn minn er, hrópaði Jötunn.
Hann sagði að þau þyrftu að fara með sér út að Reynisdröngum. Hún Eivör, sem býr úti í Skessudranga, hafði beðið hann um aðstoð vegna skemmda á dranganum hennar. Fólk var víst byrjað að höggva stóra steina úr dröngunum til að taka heim með sér sem minjagripi.
– En ég sagði bara nei, ég var eitthvað svo áhugalaus um allt. Það hefur örugglega verið þessi mér-er-alveg-sama-veiki sem þið voruð að segja mér frá, sagði Jötunn. Hún hefur náð stafnum með skessugaldri og ætlað að laga drangann sinn með honum.
– Þarna sérðu, þú hefur enn viskuna þína, sagði Gloría.
Bergrisarnir kvöddu nú glaðir úr því að Jötunn var búinn að átta sig. Þeir sögðust myndu fylgjast með uppi á Öræfajökli. Ef eitthvað færi úrskeiðis þá kæmu þeir strax til hjálpar.
Búkolla ákvað hins vegar að fylgja þeim félögum áfram. Það var svo langt síðan hún hafði lent í ævintýrum að hana langaði að sjá hvernig þetta endaði.
Reynisdrangar
Niðri í Reynisfjöru var fullt af ferðamönnum þrátt fyrir frost og kulda. Brúðhjón voru að fara að gifta sig í fjörunni. Brúðurin var í hvítum síðum kjól sem dróst eftir svörtum sandinum. Brúðarslörið stóð beint upp í loftið í sjávarrokinu. Pípuhattur brúðgumans var fokinn út á sjó.
– Þetta er ekki góð hugmynd. Vita þau ekki hvað aldan getur verið hættuleg hérna? sagði Andri.
Þarna voru líka menn að reyna að sjósetja bát. Þeir voru með axir og ætluðu greinilega að fara að ná sér í minjagrip úr Reynisdröngum. Aðrir voru uppteknir við að taka myndir af sjálfum sér í fjörunni og tóku ekkert eftir því þegar Jötunn óð út í sjóinn að dröngunum.
– Við bíðum hérna, sagði Gussi afi.
Þau komu sér fyrir á háum hól þar sem þau gátu fylgst með ferðum Jötuns úr öruggri fjarlægð frá briminu.
Jötunn heilsaði fyrst tröllkarlinum í Landdranga. Hann opnaði annað augað en lokaði því strax aftur. Það var greinilega búið að höggva heilmikið af bergi úr klettinum hans.
– Ertu þá loksins kominn? sagði skessan Eivör, þegar Jötunn kom að Skessudranga. Þarna er stafurinn þinn. Ég gat ekkert notað hann.
Jötunn greip stafinn og sneri honum í hringi yfir höfði sér.
– Þetta var hressandi, sagði hann. Nú þurfum við bara að losna við allt þetta fólk úr fjörunni áður en ég get farið að laga drangana ykkar.
– Hún Katla vinkona mín er nokkuð góð í að fæla fólk í burtu. Hún á þessar fínu hlaupabuxur sem gera það að verkum að hún getur hlaupið endalaust. Sendu henni skilaboð með stafnum þínum um að koma hingað, sagði Eivör.
Jötunn lét ekki segja sér það tvisvar og beindi járnstafnum í átt að Mýrdalsjökli þar sem Katla bjó og blés um leið kröftuglega í hann.
Fljótlega sáu þau Kötlu koma hlaupandi niður í fjöruna. Hún var ægileg að sjá með kolsvart hárið flaksandi í allar áttir og rosalegar lappir. Hún urraði og hvæsti á alla sem hún mætti enda þekkt fyrir að vera mjög grálynd í skapi.
Þegar hún kom niður að sjó heilsaði hún Jötni og spurði hvað hún ætti að gera.
– Smalaðu öllum þessum ferðamönnum upp úr fjörunni svo ég geti hafist handa við að lagfæra drangana, sagði Jötunn.
Katla fór strax til baka upp í fjöruna, gretti sig og rak upp gól til að hræða ferðamennina. Mennirnir sem enn voru að baksa við bátinn í fjöruborðinu hlupu veinandi í burtu með hakana sína.
Brúðguminn var svo hræddur að hann gat sig hvergi hreyft svo brúðurin þurfti að draga hann á eftir sér upp úr fjörunni. Aðrir ferðamenn hlupu öskrandi í allar áttir til að komast undan skessunni.
Þegar allir ferðamennirnir voru farnir og komnir í rúturnar sínar hófst Jötunn handa. Hann veifaði stafnum í kringum sig og bjó til hvirfilvind sem snerist í kringum Reynisdranga. Úr öllum áttum komu steinar og grjót fljúgandi inn í skýstrókinn.
– Það var eins gott að fólkið var farið, sagði Dúðadurtur þar sem þau sátu og fylgdust með því sem gerðist. Það er mikill kraftur í honum Jötni.
Smám saman hægðist á vindinum og grjótið féll niður nákvæmlega þar sem það hafði upphaflega verið.
Eivör og tröllkarlinn hristu sig smávegis eins og til að þakka fyrir. Katla hljóp hins vegar í einum spretti aftur heim til sín.
Jötunn gekk að hólnum þar sem félagarnir sátu.
– Nú þurfum við að finna leið til að koma í veg fyrir að ferðamenn fari aftur að taka með sér steina úr berginu sem minjagripi, sagði Jötunn.
Krakkarnir brostu og bentu á stórt skilti sem þau höfðu þegar búið til á meðan Jötunn var að laga drangana. Á það höfðu þau skrifað: „Stranglega bannað að taka steina úr berginu! Ef þú gerir það þarftu að borga milljón trilljónir í sekt!“
Jötunn hló.
– Þið eruð greinilega skrefinu á undan. Þetta er flott skilti.
Hann þakkaði þeim fyrir að lækna sig af þessari hættulegu veiki. Nú þyrftu þau að halda áfram án hans. Síðasti og erfiðasti áfanginn væri eftir. Hann reif hár úr skeggi sínu og rétti krökkunum.
– Þið hafið leyst allar þrautirnar og sigrast á veikinni í öllum landsfjórðungum. En til að uppræta veikina endanlega og bjarga landinu þurfið þið að fara með gjafirnar frá okkur landvættunum og gullhringinn í hjarta jarðar. Ég bið að heilsa Surti, sagði Jötunn og svo var hann farinn.
Sundhnúkagígar
– Hvar er hjarta jarðar? spurði Emilía.
– Og hver er Surtur? spurði Andri.
– Surtur er eldjötunn. Hann bæði brennir og byggir upp, sagði Dúðadurtur. Hann hefur verið að ólmast undanfarið á Reykjanesi.
– Hjarta jarðar er þá kannski eldkvikan sem er djúpt ofan í jörðinni. Surtur hlýtur að eiga að vísa okkur þangað, sagði Stúfur.
– Hann býr í Surtsey, sagði Búkolla. En þangað má enginn fara nema vísindamenn. Við verðum þess vegna að fara út í Heimaey og kalla á hann þaðan.
Það var komið myrkur svo þau ákváðu að gista í tjaldinu um nóttina og halda áfram strax í birtingu. Gussi afi átti erfitt með að sofna. Honum leist ekki á þetta. Þessi eldjötunn var eflaust hættulegur.
Þau lögðu af stað snemma morguns. Þegar þau komu að Landeyjasandi var engin ferja til að flytja þau til Eyja.
– Við verðum bara að hætta við þetta, sagði Gussi afi.
– Nei, sagði Búkolla. Taktu hár úr hala mínum og leggðu það á jörðina. Legg ég á og mæli ég um að það verði að svo stórri brú að hún nái til Vestmannaeyja.
Stúfur var snöggur að reyta hár úr hala Búkollu og viti menn, stærðarinnar brú myndaðist sem lá alla leið út í Heimaey.
– Vá, sagði Andri og vildi strax hlaupa út á brúna.
– Það er smá vandamál, sagði Búkolla. Brúin getur bara borið mig, Gloríu og krakkana. Þið hinir verðið að bíða hér.
– Nei, ég fer ekki aftur frá þeim, sagði afi og ætlaði að banna Emilíu og Andra að fara.
En Stúfur og Dúðadurtur grátbáðu hann um að stoppa börnin ekki. Það væri svo stutt til jóla og þau yrðu að ljúka verkefninu.
– Treystu okkur afi, sögðu Andri og Emilía.
Að lokum gaf Gussi afi sig.
– En þið lofið þá að fara varlega, sagði hann.
Krakkarnir lofuðu því. Búkolla hljóp þegar af stað með börnin og Gloríu yfir brúna. Stúfur, Dúðadurtur og Gussi afi horfðu á eftir þeim. Um leið og þau voru komin yfir í Heimaey hvarf brúin.
– Bíðið hér, sagði Búkolla. Ég ætla að synda að Surtsey og kalla á Surt.
Á meðan Búkolla var í burtu biðu krakkarnir og Gloría niðri við höfnina. Það var dauflegt um að litast í bænum og ekkert sem minnti á jólin. Stór krummi fylgdist með þeim úr fjarska. Búkolla kom fljótt til baka.
– Hann er ekki í Surtsey. Förum upp að Eldfelli. Hann gæti verið þar, það er auðvitað eldfjall, sagði Búkolla.
Þau leituðu á fjallinu og kölluðu á Surt en enginn svaraði.
– Hann fór ofan í hellinn þarna, sagði Huginn, krumminn sem hafði fylgst með þeim. Þið getið rakið slóð hans, bætti hann við og benti á hellisop neðst í fjallinu.
Emilía ætlaði að spyrja krumma hver hann væri en þá var hann horfinn.
– Ég get því miður ekki klifrað ofan í helli þar sem ég er bara með klaufir. Þið þrjú verðið að halda áfram án mín, sagði Búkolla.
Hún sagði þeim að rífa væna lufsu úr halanum sínum sem hún breytti svo í fínustu vasaljós.
Emilía og Andri klifruðu inn um þröngt hellisopið. Gloría stökk á eftir þeim. Hún sá ágætlega í myrkrinu en fannst samt betra að hafa vasaljósin. Andri og Emilía voru dálítið hrædd en gátu samt dáðst að fegurðinni sem birtist í alls konar lituðum steinum og klettamyndum inni í hellinum.
Gloría þefaði og fann fljótt lykt af eldi og ösku. Það hlyti að vera slóð eldjötunsins. Hún vísaði krökkunum leiðina. Hellirinn var eins og völundarhús. Það voru ótal leiðir sem hægt var að fara svo hún varð að vera viss um að velja rétta leið.
Þau gengu lengi, lengi. Þessi hellir virtist endalaus. Emilía og Andri voru orðin mjög þreytt svo þau settust niður til að hvíla sig. Hvað ef þau væru nú villt inni í þessum dimmu göngum. Gloría gat ekki hugsað þá hugsun til enda.
– Snúum við, sagði Emilía. Ég er hrædd.
– En það treysta allir á okkur, við verðum að halda áfram, sagði Andri og togaði Emilíu á fætur.
– Mér er alveg sama, sagði hún.
– Ekki! hrópaði Andri. Ekki segja þetta. Ekki láta veikina ná tökum á þér.
Hún bægði frá sér óttanum og þau héldu áfram góða stund. Það var orðið vel heitt í hellinum. Fram undan sáu þau glitta í rauð augu. Þetta var Surtur. Hann var ógurlegur að sjá með skínandi sverð í hendi.
– Hvað eruð þið að gera hér? hvæsti hann illilega.
– Surtur, hrópaði Emilía og gekk nær eldjötninum þrátt fyrir hitann sem lagði frá honum. Við erum að leita að hjarta jarðar.
Þau sögðu honum frá ferð sinni og sýndu honum hringinn og poka með hárum, fjöðrum og hreistri frá Landvættunum.
Surtur kinkaði kolli. Síðan hjó hann með sverðinu í hellisloftið sem opnaðist upp í himininn. Sólin var sest og desember myrkrið tók á móti þeim.
Fyrir utan hellinn sáu þau gígaraðir. Það glitti í glóandi vikur undir svörtu hrauninu. Þau voru komin að Sundhnúkagígum við Grindavík. Surtur benti þeim á örugga leið að einum gígnum.
Andri, Emilía og Gloría gengu strax af stað í átt að gígnum. En allt í einu var eins og þyrmdi yfir krakkana. Þeim varð alveg sama um allt. Til hvers voru þau að þessu? Þau nenntu ekki að labba upp að þessum gíg. Þau nenntu ekki að bjarga landinu. Þau nenntu bara engu. Þau námu staðar og störðu tómum augum fram fyrir sig.
– Nei! Ekki þið líka! kveinaði Gloría. Við verðum að klára þetta. Við erum komin alla þessa leið. Hristið þetta af ykkur.
En Andri og Emilía heyrðu ekki í henni. Gloría vissi að nú yrði hún að gera eitthvað róttækt. Hún yrði að vekja börnin. Hún stökk aftan á Andra og beit hann í rassinn.
Andri veinaði upp yfir sig og Emilía hrökk við.
– Hvað gerðist eiginlega? spurði Andri.
– Æi, fyrirgefðu, sagði Gloría, ég varð að gera eitthvað. Fljót! Komið þið, hér er gígurinn!
Þau hlupu saman upp að gígnum. Surtur stóð skyndilega við hlið þeirra.
– Nú skulum við byrja að byggja upp aftur, sagði hann. Kastið hringnum og pokanum ofan í gíginn.
Emilía og Andri hlýddu samstundis. Það byrjaði þegar að sjóða og malla í gígnum. Var nýtt eldgos að hefjast?
Jólaandinn
Upp úr gígnum reis móða sem í fyrstu var grá en fór síðan að snúast í hringi og allir regnbogans litir birtust. Ljósadýrðin lýsti upp umhverfið og norðurljósin dönsuðu yfir himinhvolfið.
– Ykkur tókst það, heyrðu þau hrópað fyrir aftan sig. Þarna voru þau öll komin, Stúfur, Dúðadurtur, Búkolla og Gussi afi. Stúfur dansaði af gleði.
Skyndilega heyrðist mikill hvinur í lofti. Úr norðri, suðri, austri og vestri birtust landvættirnir allir á sama tíma. Þegar þeir snertu jörðina við gíginn var eins og fegursti hljómur færi um allt landið. Andi jólanna var mættur og smaug inn í hjörtu allra sem þarna voru og breiddist hratt út um landið.
Uppi á mosagrónum hraunum, hólum og hæðum birtust andlit álfa, huldufólks og annarra náttúruvætta. Frá þeim streymdi gleði og kærleikur, samkennd og vinátta.
Dúðadurtur og Stúfur héldust í hendur. Gussi afi faðmaði börnin og sagði að þau væru stórkostlegar hetjur. Emilía og Andri táruðust af gleði.
– Þið sigruðuð þessa hættulegu veiki, sagði Gussi afi.
Í fjarska sáu þau jólaljósin kvikna eitt af öðru og lýsa upp bæina. Jólaandinn breiddist hratt út og snerti við hjörtum allra í landinu. Uppi við Kverkfjöll dönsuðu bergrisarnir og sungu jólalög svo undir tók í fjöllunum.
Landvættirnir hurfu síðan hver í sína áttina til að halda áfram að vernda landið. Dreki sagðist reyndar ætla að skjótast fyrst aðeins á norðurpólinn og sækja Grýlu. Hún hefði brotlent þar eftir flugferðina. Hann myndi skila henni aftur heim í hellinn sinn.
Daginn eftir bárust fréttir af undarlegum fljúgandi furðuhlut yfir norðurpólnum sem náðist á gervitunglamyndir.
Gloría var sátt og glöð en nú var hún tilbúin að komast aftur
í kósíhornið, heim á bókasafnið sitt.
Þau kvöddu Búkollu sem vildi drífa sig heim fyrir jólin og héldu af stað upp á Grindavíkurveg. Björgunarsveitarmenn stóðu í vegkantinum. Þeir buðust strax til að keyra þau heim.
Þegar þau nálguðust Kópavog og Borgarholtið blasti við þeim stórkostleg sjón. Kirkjan á hæðinni var lýst upp í fegurstu litum. Allt holtið var ein ljósadýrð. Það var eins og birtan kæmi innan úr jörðinni.
Dimmblá og huldufólkið í holtinu stóð úti og fagnaði þeim þegar þau stigu út úr bílnum og týndu álfarnir voru búnir að skila sér aftur heim.
Fréttirnar um sigurinn á mér-er-alveg-sama-veikinni höfðu farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Bókasafn Kópavogs sló upp mikilli jólahátíð. Fjöldi manns var kominn á safnið til að njóta jólaandans og gleðjast saman. Þegar Gloría og félagar gengu inn á safnið var þeim fagnað eins og hetjum.
– Við megum aldrei láta okkur vera sama um landið okkar og þá sem hér lifa, sagði Gloría og uppskar mikið lófaklapp. Það var sungið og fagnað langt fram á nótt.
Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með Gussa afa eftir þetta ævintýri. Dúðadurtur og Stúfur héldu svo heim í Esjuna. Þar voru jólasveinarnir önnum kafnir við að undirbúa jólin. Grýla var mætt aftur kát og hress, reynslunni ríkari og sátt við sjálfa sig og aðra.
Á nýársdag hittust þau öll aftur á Bessastöðum þar sem þau fengu fálkaorðu frá forseta Íslands fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar.
Aðalsteinn Kjaran Egilsson |
Agla Hrönn Aradóttir |
Aldís Elayna Marshall |
Alexander Rós Raffnsöe |
Alice Anna Martins Oddsdóttir |
Alma Margrét Karn Elvarsdóttir |
Amelía Eva Bjarnadóttir |
Ana Luiza S. De Pinho Sobral |
Andri Þór Arnarson |
Anja Mist Einarsdóttir |
Anna Lovísa Emilsdóttir |
Anthony Gia Hung Nguyen |
Antoni Ben Powichrowski |
Arnar Bjarki Unnarsson |
Arney Kristbergsdóttir |
Arnór Atli Valdemarsson |
Áróra Björk Stefánsdóttir |
Benedikt Helgi Scheving |
Beniamin Tymon Siwicki |
Bjarki Svanur Magnússon |
Bjarki Þór Ingólfsson |
Björn Kári Valsson |
Bríet Lilja Jónsdóttir |
Brynjar Gylfi G. Malmquist |
Daria-Diana Dumitru |
David Vu |
Diljá Björt Axelsdóttir |
Elísabet Ása L. Tómasdóttir |
Ellert Helgi Guðmundsson |
Emil Birgir Valsson |
Emilía Alba Árnadóttir |
Emma Dís Borgþórsdóttir |
Emma Katrín Arnarsdóttir |
Erik Ernir Arnþórsson |
Erna María Hlynsdóttir |
Evelyn Kría A. Couper |
Fanndís Embla Erlingsdóttir |
Gísli Þór Kristmannsson |
Guðbjörn Snorri Tómasson |
Guðrún Sveinsdóttir |
Gunnar Hrafn Baldursson |
Hafdís Birna Einarsdóttir |
Heiða Kristinsdóttir |
Heiðbjört Erla Atladóttir |
Heiðrún Arna Sindradóttir |
Helga María Bóasdóttir |
Helga Sól Agnarsdóttir |
Henry Þór Don Kjartansson |
Hera Dröfn Guðmundsdóttir |
Hildur Hjartardóttir |
Hjörleifur Brynjólfsson |
Hrafn Elís Svansson |
Högni Freyr Geirdal |
Iðunn Arinbjarnar Pálsdóttir |
Iðunn Bóel Tandradóttir |
Indra Sólveig Anna Salvamoser |
Ingibjörg Ólöf Þórdísardóttir |
Ingvi Þór Kristinsson |
Íris Ástrós Eyþórsdóttir |
Jakob Rayan Singh |
Jasmín Bella M. Rafnsdóttir |
Jasmín Freyja Helgadóttir Darai |
Jódís Kristín Jónsdóttir |
Jóhann Elías Thomasson Boitard |
Jón Daníel Grímsson |
Jón Þór Ingólfsson |
Karl Salman Usmansson Virk |
Katla Madeleine Ævarsdóttir |
Katrín Þóra Baldursdóttir |
Kári Kristinn Úlfarsson |
Klara Guðbjörg Hringsdóttir |
Kristel Nótt Einarsdóttir |
Kristján Elís Sigurgeirsson |
Kristófer Atli Baldvinsson |
Lilja Rut Jóhannesdóttir |
Lilja Vernharðsdóttir |
Lísbet Lóa Ákadóttir |
Luciana Khudor Faraj |
Magnús Tumi Hilmarsson |
Maria Vladimirovna Manukovskaya |
Marta Björk Mikolajczyk Félix |
Marta Valgeirsdóttir |
Már Norðdahl |
Nazar Baranov |
Ólavía Rós Elíasdóttir |
Óliver Rafn Róbertsson |
Óskar Sigurgeir Auðar Edduson |
Óskar Þór Símonarson |
Ragnheiður Borg Sveinsdóttir |
Ríkharður Darri Reynisson |
Saga Freysdóttir |
Sara Bjartey Guðmundsdóttir |
Sara Líf Mete |
Sara Rós Scheving |
Sigurður Frosti Guðlaugsson |
Sigurður Smári Sigurðsson |
Sindri Karl Heimisson |
Snædís Elín Stefánsdóttir |
Snæfríður Ísold Baldursdóttir |
Sóldís Svala Arnarsdóttir |
Sóley Emma Ævarsdóttir |
Sóley Hermannsdóttir |
Sólrún Birna Björnsdóttir |
Stefán Már Daníelsson |
Steinunn Birna Unnarsdóttir |
Stella Margrét Fróðadóttir |
Sunna Björk Ágústsdóttir |
Sverrir Eysteinn Arnarsson |
Tara Líf Hlíðkvist Davíðsdóttir |
Tara Sif Don Kjartansdóttir |
Tómas Henry Möller |
Úlfhéðinn Björnsson |
Viktor Helgi Jónsson |
Viktor Óli Eggertsson |
Viktoría Sigmarsdóttir Beekman |
Víkingur Frosti Þórarinsson |
Ylva Breiðfjörð Arnþórsdóttir |
Yrja Björk Andradóttir |
Þorsteinn Darri Bergþórsson |
Þór Hechmann Emilsson |
Þórarinn Ingi Arnarsson |
Þórður Bjarni Jónasson |
Þórunn Embla Davíðsdóttir |
Örvar Atli Birkisson |
Og nafnlausar tillögur |
Í byrjun hausts 2024 óskuðum við á Bókasafni Kópavogs eftir tillögum frá börnum fyrir jólasögu sem rithöfundurinn Eygló Jónsdóttir vann síðan úr. Hún skrifaði jólasögu í 24 köflum upp úr hugmyndum barnanna og í henni er að finna ýmsar persónur sem börnin stungu upp á, nöfn sem krakkarnir völdu, staðarheiti og atvik sem krakkarnir lögðu til.
Eygló Jónsdóttir nýtti hugmyndir frá 125 börnum í söguna og eru þau nefnd aftast í bókinni sem meðhöfundar.
bekkur í Salaskóla og Snælandsskóla myndskreyttu svo bókina, auk þess sem þau sendu inn tillögur.
Þessi saga var unnin sem partur af verkefninu ,,Blásum lífi í þjóðsögurnar“ sem er styrkt af Barnamenningarsjóði.
Sérstakar þakkir fá allir þeir sem tóku þátt í að gera þetta verkefni að veruleika.
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig á fréttabréf Bókasafns Kópavogs:
HAFÐU SAMBAND OG FYLGSTU MEÐ
OPNUNARTÍMI BÓKASAFNS KÓPAVOGS
mán til fös
kl. 8-18
laugardaga
kl. 11-17
mán til fös
kl. 13-18
laugardaga
kl. 11-15*
*lokað á laugardögum í júní, júlí og ágúst
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 13-18
Opið laugardaga
kl. 11-15
Skráðu þig hér á fréttabréf Bókasafns Kópavogs: