Nonni og Selma: fjör í fyrsta bekk

Nonni og Selma: fjör í fyrsta bekk

Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk kom út árið 2007 og segir frá vinunum Nonna og Selmu. Bæði vakna þau eldsnemma einn daginn, langt á undan öllum öðrum, með fiðrildahóp í maganum, því þau eru að fara að byrja í fyrsta bekk. Þau búa á Akureyri, Selma er nýaðflutt en Nonni uppalinn þar, og kynnast á fyrsta degi fyrsta bekkjar. Þau ná strax glimrandi vel saman og verða bestu vinir. Þau gera hluti sem von er á að sex ára börn geri, fara í sund, komast í blöðin fyrir hugrekkislega björgun stórstjörnu úr andapollinum og sýna þannig að það skiptir ekki máli að Nonni sé með fötlun, hann getur gert það sem ófatlað fólk getur. Nonni er nefnilega með fötlun sem hann kallar „lötulöpp“ og þarf því að notast við göngugrind dagsdaglega. 

Bókin var skrifuð með styrk frá CP-samtökunum sem höfðu það markmið að skrifuð yrði barnabók með fatlað barn í aðalhlutverki.

Brynhildur Þórarinsdóttir

Brynhildur Þórarinsdóttir (f. 1970) er Reykvíkingur og bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands, með kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri. Fyrsta ritverk Brynhildar sem birtist opinberlega var smásagan „Áfram Óli“ sem birtist í samnefndu smásagnasafni árið 1998. Árið áður hafði Brynhildur hlotið fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Samtaka móðurmálskennara fyrir sömu sögu. Brynhildur hefur síðan skrifað fjölda barnabóka, þar á meðal tvíleik um Nonna og Selmu, og verðlaunabókina Leyndardómur ljónsins. Þá hefur hún einnig gefið út ríkulega myndskreyttar endursagnir á þremur Íslendingasögum, Njálu, Eglu og Laxdælu, sem hlutu mikið lof fyrir aðgengilega framsetningu menningararfsins. Brynhildur hefur sömuleiðis gefið út kennslubækur fyrir Íslendingasögur í samstarfi við Námsgagnastofnun og miðlað fróðleik um þær í bókarformi á erlendum vettvangi.

Lestraganga í Kópavogi er samstarfsverkefni Bókasafns Kópavogs og Barnabókaseturs Íslands.

Í göngunni má finna textabrot úr þeim íslensku barnabókum sem þjóðinni eru hvað kærastar og með því að færa textabrotin út í náttúruna sameinar gangan útivist, samverustundir fjölskyldunnar og lestrarhvatningu. Sumar bækurnar munu foreldrar/forráðamenn kannast við frá því í bernsku, aðrar eru nýlegar og þekktar meðal barnanna.

Tilvalið er skrifa hjá sér þær bækur sem kveikja áhuga eða hafa verið lesnar og athuga svo hvar hægt er að nálgast þær, á bókasafninu, í bókabúð eða í bókahillu hjá ættingja eða vini.

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau-sun
Lokað

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau-sun
Lokað