Jón úr Vör var Kópavogsbúi til áratuga, fyrsti bæjarbókavörðurinn í Kópavogi og skáld sem markaði þáttaskil í íslenskri bókmenntasögu.
Í síðasta mánuði, 21. janúar, voru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns og var því fagnað á ýmsan hátt í bæjarfélaginu eins og þegar hefur verið greint frá á þessum síðum.
„Við erum mjög ánægð með Daga ljóðsins að þessu sinni,“ segir Arndís Þórarinsdóttir, deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs sem er einn skipuleggjandi hátíðahaldanna. „Þetta byrjaði með hvelli á fæðingardegi Jóns þegar Menningarhúsin voru með fjölskyldustundir tengdar orðlistinni bæði í Salnum og á Bókasafninu og svo var hátíðin þar sem Ljóðstafurinn var afhentur Ástu Fanneyju Sigurðardóttur virkilega skemmtileg. Ljóðin voru góð og allir voru í hátíðarskapi, bæði ungir og aldnir, en þá voru einnig afhent verðlaun í Ljóðasamkeppni Grunnskóla Kópavogs. Svo strax á fyrsta degi hátíðarinnar var dagskrá sem höfðaði til ljóðaunnenda á öllum aldri, sem setti tóninn fyrir það sem eftir var vikunnar.“
Lista- og menningarráð Kópavogs hefur afhent Ljóðstafinn frá árinu 2002 þegar Hjörtur Pálsson hlaut hann. „Mér finnst það dálítið merkilegt að í gegnum jafnt kreppu sem góðæri hefur Kópavogsbær alltaf verið tilbúinn að setja fjármuni og mannafla í þessa keppni og þar með í ljóðlistina,“ segir Arndís. „Það er aumur bær þar sem ekki er gefinn gaumur að listum en Kópavogur stendur sig með miklum sóma í þessum málaflokki, finnst mér.“
Hátíðinni lauk þegar haldið var málþing um ævi og störf Jóns í Salnum, 28. janúar sl, sem Þorsteinn frá Hamri, kollegi Jóns, opnaði. Þar stigu á stokk Frímann Ingi Helgason og Þóra Elfa Björnsson, sem vörpuðu upp myndum úr lífi skáldsins, Hjörtur Pálsson sem ræddi um Jón eins og hann geymir hann í minni sínu, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ræddi skáldskap Jóns og Fríða Ísberg velti fyrir sér þýðingu Jóns og samtímamanna hans fyrir ung skáld og unga ljóðalesendur.
„Erindið hennar Fríðu var ansi gott,“ segir Arndís. „Hún lagði áherslu á að það er erfitt að kveikja í nýrri kynslóð ljóðalesenda með því að bera eingöngu á borð fyrir hana skáldskap kynslóðanna á undan. Krakkar eiga auðveldara með að tengja við samtíma sinn – og nóg af kröftugum samtímaskáldskap kveikir hungur í meira, sem leiðir þau á vit eldri skáldanna. Ég vona að Dagar ljóðsins í Kópavogi hafi sinnt þessu kalli – upplestrarkvöld starfandi skálda í Garðskálanum var fullt af sprengikrafti og á Bókasafninu erum við núna með ljóðlistaverk í stigum hússins sem er eftir hana Hörpu Dís Hákonardóttur sem vann þau í Skapandi Sumarstörfum Molans í fyrrasumar. Svo við höfðum talsverða breidd í dagskránni.“
Um 130 manns mættu á málþingið Jón úr Vör – skáld þorps og þjóðar, sem sýndi að Jón lifir enn góðu lífi í hugum Kópavogsbúa þó nú sé nokkuð um liðið síðan hann skálmaði um Hamraborgina með höndina greipta um stafinn.
Áður birt í Kópavogspóstinum.