Þegar fjölbreytileikinn styður við menningararfinn

Á vordögum hlaut Bókasafn Kópavogs styrki fyrir tvö skemmtileg verkefni sem hafa auðgað starfið á safninu síðustu vikur. Annars vegar er um að ræða styrk frá Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið ,,Blásum lífi í þjóðsögurnar“ sem snýr að því að halda á lofti þeim menningararfi sem íslensku þjóðsögurnar geyma og kynna þær fyrir börnum. Þá fékk bókasafnið styrk frá Nordplus og Bókasafnasjóði fyrir verkefnið ,,Bóksafnið í fjöltyngdu samfélagi“ en verkefnið snýr að því að koma betur til móts við þá fjölbreyttu hópa sem sækja safnið heim.

,,Það hefur verið mikil ánægja með þá fjölbreyttu viðburði sem safnið hefur nýtt styrkina í og gaman að sjá hvernig verkefnin tvö hafa stutt hvort við annað og stuðlað að auknum áhuga á menningu, tungumálinu og skapandi samverustundum fjölbreyttra hópa,“ segir Eyrún Ósk Jónsdóttir verkefnastjóri fræðslu og miðlunar á bókasafninu sem heldur utan um verkefnin tvö.

Blásum lífi í þjóðsögurnar

Alla miðvikudaga býður bókasafnið upp á sögustundir fyrir leikskólahópa. Á haustdögum hefur starfsfólk lesið valdar þjóðsögur fyrir börnin og kynnt fyrir þeim þennan skemmtilega menningararf okkar Íslendinga.

Í kringum hrekkjavökuna var haldin skrímslasmiðja þar sem krakkar gátu komið og teiknað íslensku skrímslin úr þjóðsögunum og hengt upp á safninu. Það var mikil sköpunargleði hjá börnunum sem kepptust við að koma með sína útgáfu af Nykrinum, Skeljaskrímslinu, Rauðhöfða, Skoffín og Skuggabaldri og fleiri óvættum. Yfir 200 myndir litu dagsins ljós. Þá skemmtu börnin sér við að leita að íslensku skrímslunum í ratleik á bókasafninu og fengu um leið fræðslu um þessar þjóðsagnapersónur.

Daginn fyrir hrekkjavökuna mættu svo um 50 börn og fullorðnir á draugasögustund í barnadeildinni þar sem þau fengu að heyra allt um íslensku draugana Móra og Skottur, útburði, fylgjur og afturgöngur og hvernig hægt er að verjast þeim. ,,Það vakti það mikla kátínu þegar börnin fengu að heyra að samkvæmt íslensku þjóðsögunum getur þú fælt burtu drauga með prumpi og gabbað þá upp úr skónum til að gera sig svo litla að hægt er að veiða þá í glas eða sauðalegg,“ segir Eyrún Ósk um sögustundina.

Í haust fór safnið svo af stað með gríðarlega spennandi verkefni þar barnabókahöfundurinn Eygló Jónsdóttir var fengin til að skrifa jólasögu byggða á þjóðsögupersónum í 24 köflum sem verður eins konar jóladagatal safnsins í desember. Börnum gafst tækifæri á að senda inn tillögur um hvað átti að gerast í sögunni, hvar sagan átti að gerast, hvaða persónur sagan átti að fjalla um og hvað persónurnar áttu að heita. Alls bárust yfir 120 tillögur frá börnum og hefur höfundur nú lokið við að vinna þær inn í söguna og er afraksturinn ótrúlega spennandi saga full af hugmyndaauðgi barna í Kópavogi. Þá er hópur barna í 4. bekk í Salaskóla og Snælandsskóla nú að vinna við það að myndskreyta söguna.

,,Það er margt spennandi framundan sem tengist þjóðsöguverkefninu, eins og útisögustundir um álfa í Borgarholtinu fyrir nemendur í 1. bekk og jólakattadagskrá fyrir elstu deildir leikskólanna í desember og við hlökkum til að halda áfram að kynna íslensku þjóðsögurnar fyrir börnum og halda á lofti þessum menningararfi okkar allra,“ segir Eyrún Ósk.

Bókasafnið í fjöltyngdu samfélagi

Bókasafn Kópavogs hlaut eins og áður segir einnig styrk frá Bókasafnasjóði fyrir fjölmenningarlegri viðburðaröð og styrk frá Nordplus fyrir þróunar- og samstarfsverkefni milli Bókasafns Kópavogs, Hässleholm City Library í Svíþjóð og Central Library of Lääne County í Eistlandi til að bæta þjónustu við innflytjendur. Verkefnið snýr að því að koma betur til móts við allan þann fjölbreytta hóp fólks sem heimsækir bókasafnið og þar með virkja innflytjendur betur til þátttöku í ,,bókasafnssamfélaginu.“ Söfnin munu heimsækja hvert annað og læra hvert af öðru. Þá munu þau einnig þróa ný og spennandi verkefni, hvert á sínu safni, sem munu höfða til fjölbreytts hóps.

,,Kveikjan að verkefninu var sú, að mikill fjöldi innflytjenda sækir safnið á hverjum degi til þess að nota tölvu og prentara en nýtir sér ekki aðra þjónustu safnsins. Þessu viljum við á Bókasafni Kópavogs breyta og viljum við að öll upplifi sig velkomin hingað á safnið,“ segir Eyrún Ósk.

Ákveðið var að halda áfram með viðburðaröðina Tala og spila alla laugardaga þar sem öll þau sem vilja æfa sig í íslensku geta komið, tekið í spil og æft sig að tala íslensku með aðstoð íslenskukennara. Stundin hefur verið vel sótt og einkennst af vináttu og gleði.

Þá fór Bókasafnið af stað með opið hús fyrir hælisleitendur og flóttafólk á þriðjudagsmorgnum í samstarfi við GETA hjálparsamtök. Boðið er upp á kaffi og veitingar og leikföng fyrir yngstu þátttakendurna. Síðan er boðið upp á skapandi samverustund þar sem börn og fullorðnir geta perlað saman, málað, saumað út eða gert eitthvað annað skapandi um leið og það kynnist öðrum.

,,Úkraínska listakonan Viktoriia Leliuk kom til okkar á dögunum og hélt listasmiðju fyrir börn og fjölskyldur. Smiðjan fór fram á úkraínsku, íslensku og ensku. Í desember verður svo haldin úkraínsk jólahátíð á bókasafninu með sögustund á úkraínsku og úkraínski jólasveinninn St. Nikulás mun kíkja í heimsókn ásamt vinum sínum, tveimur íslenskum jólasveinum. “Enda eru íslensku jólasveinarnir og þeir erlendu allir perluvinir”, segir Eyrún Ósk.“

Stór hluti þeirra innflytjenda sem heimsækir safnið kemur frá Venesúela og því var ákveðið að halda venesúelska hátíð á bókasafninu í svartasta skammdeginu í lok nóvember sem nefnist Sól í sinni þar sem tónlistarfólk frá Venesúela kemur fram, sögustund verður á spænsku og boðið verður upp á mat og drykki frá Venesúela.

Bókasafnið hefur einnig boðið upp á fjölmenningarleg fræðsluerindi eins og fyrirlestur um friðarheimspeki búddismans, austræna menningu og þau íslömsku samfélög sem dvelja hér á landi. Framundan í þeirri viðburðaröð eru erindi þar sem við fáum að kynnast menningararfleifð Bosníu og Hersegóvínu, sögu nokkurra flóttamanna o.fl.

Að lokum má nefna sögustundir á öðrum erlendum tungumálum og tónleikaröð þar sem innflytjendur deila tónlist frá sínu heimalandi sem verða á dagskrá hjá Bókasafninu á næstu mánuðum.

,,Strax og við fórum af stað með þetta fjölmenningarlega átak sáum við fjölgun á að innflytjendur væru að nýta sér þjónustu okkar og er það mjög gleðilegt,“ segir Eyrún Ósk.

Fjölmenning og menningar arfleið okkar vinna saman

,,Það hefur verið einstaklega gaman að vinna af þessum tveimur verkefnum. Það sem hefur komið okkur mest á óvart er að sjá hvernig verkefni tengd fjölmenningu og verkefni tengd íslenska menningararfinum hafa unnið vel saman og stutt hvort við annað,“ segir Eyrún. ,,Orðræðan í samfélaginu er allt of oft á þann hátt að óttast að fjölmenningin vinni gegn íslenskri menningu og að ef áherslan sé á fjölmenningu þá verði íslensk tunga og menning í hættu á að hverfa. En í litla samfélaginu okkar á Bókasafninu höfum við séð þetta einmitt öfugt farið. Menning styður nefnilega við menningu og hvers konar sköpun styrkir tengsl og tungumálið. Um leið og við fórum að halda sérstaka viðburði fyrir innflytjendur sáum við að það skilaði sér í þátttöku þeirra í öðrum viðburðum.“

Bókasafnið býður upp á mánaðarlegan viðburð sem nefnist Lesið fyrir hunda. Þar sem stutt er við heimalestur með því að bjóða börnum að koma og lesa heimalesturinn fyrir sjálfboðaliða með hund. Áður en fjölmenningarátakið hóf göngu mættu innflytjendur sjaldan á þessa viðburði en á haustönn hefur safnið tekið á móti börnum frá Úkraínu, Venesúela og annar staðar frá sem hafa komið til að æfa sig í að lesa á íslensku fyrir hundana. Þannig hefur fjölmenningarátakið skilað sér í að börn séu að æfa sig í að lesa á íslensku.

Þá þótti starfsfólki bókasafnsins gaman að sjá heilu fjölskyldurnar af erlendum uppruna mæta saman á draugasögustund þar sem í einu tilfellinu þýddi faðirinn, sem kunni örlítið í íslensku, fyrir fjölskylduna sína draugasögurnar sem fluttar voru úr íslensku þjóðsögunum.

Einnig komu margir nýir Íslendingar með börnin sín í skrímslasmiðjuna okkar og kynntu sér skrímslin úr íslensku þjóðsögunum og þótti þeim ansi skemmtilegt að kynnast þessum undarlegu skrímslum úr íslenska sagnararfinum.

Á sama tíma hafa íslenskir lánþegar bókasafnsins lýst yfir ánægju að fá aðgang að svo fjölbreyttum viðburðum eins og að taka þátt í afrískri dans- og trommusmiðju og að fræðast um Íslam og venesúelska matarmenningu svo eitthvað sé nefnt. ,,Það er yndislegt að fá að taka þátt í að skapa andrúmsloft þar sem öll upplifa sig velkomin og að gert sé ráð fyrir öllum. Þannig vinnur þetta allt saman. Bókasafns-fjölskyldan okkar er að kynna sér menningu hvers annars og halda henni á lofti. Það hvetur alla aðila til að njóta meiri menningar, bæði íslenskrar og þeirrar sem kemur erlendis frá. Ef við hugsum út í það þá hafa aldrei fleiri verið að læra íslensku og talað íslensku en einmitt núna. Þegar við bjóðum alla velkomna og höldum ólíkri menningu á lofti þá verður úr að allir lesa meira, allir kynnast menningararfinum og hvert öðru. Á þennan hátt erum við í raun að vernda tungumál okkar og menningararfinn með því að bjóða velkominn fjölbreyttan hóp og halda allra menningu á lofti,“ segir Eyrún Ósk að lokum.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

21
des
12:00

Sögustund á úkraínsku

Aðalsafn
03
jan
11:00

Get together

Aðalsafn
04
jan
11:00

Tala og spila

Aðalsafn
06
jan
17:00

Þrettándatónleikar

Aðalsafn
07
jan
07
jan
20:00

Haltu mér - slepptu mér

Aðalsafn
08
jan
09
jan
15:00

Lesið á milli línanna

Aðalsafn
10
jan
11:00

Get together

Aðalsafn
11
jan
11:30

Lesið fyrir hunda

Aðalsafn
11
jan
11:00

Tala og spila

Aðalsafn

Sjá meira

Aðalsafn

mán
8-18
24. des-26. des
Lokað
fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán
13-18
24. des-26. des
Lokað
fös
13-18
lau
11-15
sun
Lokað

Aðalsafn

mán
8-18
24. des-26. des
Lokað
fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán
13-18
24. des-26. des
Lokað
fös
13-18
lau
11-15
sun
Lokað