VAKA þjóðlistahátíð 2025 fagnar lifandi hefðum og menningararfi dagana 15. – 21. september í Kópavogi og Reykjavík með fjölbreyttum viðburðum fyrir alla fjölskylduna.
Á VÖKU kemur margt fremsta þjóðlistafólk landsins fram. Þar má hlýða á marga helstu kvæðamenn landsins, njóta þjóðtónlistar frá Íslandi, Noregi og víðar, kynna sér íslenskt handverk sem og sækja erindi og fjölbreyttar vinnustofur í þjóðdönsum, kveðskap, handverki, hljóðfæraleik og danstónlist frá Íslandi, Noregi og Kólumbíu svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á fjölbreytta samveru í formi söngs, dans og samspils.
Meginþema hátíðarinnar í ár er verkefnið og útgáfan Danslög Jónasar – Danslög fyrir fiðlu skráð af Jónasi Helgasyni um 1864. Fyrir rúmum 160 árum skráði Jónas Helgason lög sem hann lék fyrir dansi í Reykjavík og nágrenni á fiðlu sína. Þessi gleymdi tónmenningararfur lítur nú dagsins ljós í nýrri bók ásamt hljóðritum. Útgáfuhóf verður haldið á Bókasafni Kópavogs föstudaginn 19. september kl. 17:00 þar sem ráðherra og fleiri munu ávarpa gesti.
Á hátíðartónleikum síðar um kvöldið mun stórskotalið íslensks og norsks þjóðtónlistarfólks og dansara meðal annars flytja efni úr útgáfunni fyrir gesti í Salnum. Gestum gefst einnig færi á að kynnast tónlistinni og dansinum á fjölbreyttum námskeiðum yfir hátíðina. Efnt verður til dæmis til sérstaks námskeiðs fyrir unga strengjaleikara undir leiðsögn margverðlaunaða norska þjóðlagafiðluleikarans Vegar Vårdal. Þar munu nemendur fá að spreyta sig á danslögunum og glænýjum útsetningum Vegars á þeim.
Fjölbreyttir tónleikar verða á hátíðinni. Á Degi rímnalagsins þann 15. september verða tvennir tónleikar í Salnum. Annars vegar verða tónleikar þar sem tveir skólakórar, Kvæðabarnafjelag Laufásborgar og sönghópur úr Barnaskóla Hjallastefnunnar, skipaðir börnum á aldrinum 4-14 ára flytja kvæðalög. Sama kvöld verða tónleikar í Salnum þar sem úrval kvæðamanna úr Kvæðamannafélaginu Iðunni kveða. Frumfluttir verða nýir rímnaflokkar eftir hagyrðingana Sigurlín Hermansdóttur – samið í tilefni af 70 ára afmæli Kópavogs – og Helga Zimsen, auk annars efnis.
Föstudaginn 19. september blása ferskir norðanvindar þegar norsku tónlistarmennirnir Vegar Vårdal & Vegard Hansen flytja fjölbreytt og rytmískt efni úr norskum tónlistararfi í bland við íslenska tónlist. Á sömu tónleikum mun Ragga Gröndal Trad Squad, skipuð þeim Ragnheiði Gröndal, Unni Birnu Björnsdóttur, Guðmundi Péturssyni og Pétri Grétarssyni, flytja ferskan þjóðlagabræðing í nýjum búningi.
Ókeypis er á flesta viðburði hátíðarinnar. Þar má nefna hádegisviðburði í Bókasafni Kópavogs þar sem bókmenntafræðingurinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson mun reifa um bragfræði og Andrés Ramón tónlistarmaður mun leiða áheyrendur í ferðalag um Suður-Ameríska þjóðlagatónlist.
Fjölskylduviðburðir verða flestir laugardaginn 20. september. Þar verða viðburðir ætlaðir allri fjölskyldunni, frá yngstu fjölskyldumeðlimum yfir í þá elstu. Boðið verður upp á vinnustofur fyrir alla fjölskylduna í menningarkjarna Kópavogs og þar verður m.a. hægt að spreyta sig á gamla íslenska krosssaumnum, kynnast kólumbískum slagverksleik eða íslenska langspilinu.
Á hápunkti hátíðarinnar, Vökupartíi, ganga gestir inn í stórbrotna matarveislu Krónikunnar í uppábúnum forsal Salarins hönnuðum af Birni Loka frá Krot&Krass og FÚSK, njóta kvöldskemmtunar við borðhald áður en dansleikur hefst við undirleik einhverra fremstu dansundirleikara Noregs. Kvöldinu lýkur á þjóðlagabræðingi í boði DJ Kraftgalla.
VAKA þjóðlistahátíð, sem haldin í tíunda sinn, hreiðrar nú um sig í menningarhúsum Kópavogs en fjölmörg tækifæri leynast í vöggu menningarklasans við Hamraborgina fyrir hátíð sem þessa.
Allar upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu Vökufélagsins, vakareykjavik.is, og á samfélagsmiðlum þess. Miðar á kvöldtónleika og í Vökupartí er að finna á heimasíðu Salarins og á tix.is.