Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er spennandi að skoða viðburðadagskrá safnsins. Fyrsti viðburður ársins er fundur lesklúbbsins Lesið á milli línanna, 4. janúar og er það aðeins byrjunin á hreint út sagt þjappaðri dagskrá næstu mánaða. Nýr hannyrðaklúbbur, Garn og gaman, lítur dagsins ljós þriðjudaginn 16. janúar kl. 10-12. Með honum vonumst við til að svara þörf þeirra sem ekki geta mætt eftir hádegi á miðvikudögum í Hannyrðaklúbbinn Kaðlín. Þann sama dag hefjum við einnig leika með Lesnæði kl. 19:30-21:30 þar sem gestum býðst að lesa í friði og næra andann öll þriðjudagskvöld. Tala og spila hefur göngu sína 13. janúar og verður alla laugardaga á vorönn fyrir fólk sem talar smá íslensku og vill fá tækifæri og aðstöðu til að æfa sig.
Leslyndið sívinsæla heldur áfram þegar Einar Kárason heimsækir okkur 17. janúar og Auður Ava þann 7. febrúar. Fjölskyldustundir hefjast 13. janúar á Lindasafni og 20. janúar á aðalsafni. Foreldramorgnar verða á sínum stað annan hvern fimmtudag frá 25. janúar, Hádegisdjass með Tónlistarskóla FÍH, Bókmenntaklúbburinn Hananú og svona mætti lengi telja.
Dagskrána má sjá hér og við hvetjum ykkur til að kynna ykkur hana vel og fylgjast með viðburðum sem detta inn næstu vikur.
Gleðilegt viðburðaríkt ár!