Einar Kárason, Eliza Reid og Fríða Ísberg verða gestir Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur í árlegu jólabókaspjalli Bókasafns Kópavogs.
Þau lesa úr glænýjum skáldsögum sínum og taka þátt í líflegum samræðum um skáldverk sín sem eru Sjá dagar kona eftir Einar Kárason, Diplómati deyr eftir Elizu Reid og Huldukonan eftir Fríðu Ísberg.
Boðið verður upp á laufléttar veitingar og notalega stemningu. Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Jólabókaspjallið er orðið ómissandi liður í aðventunni og við hlökkum til að sjá ykkur.
Sjá dagar koma eftir Einar Kárason
Í lok 19. aldar hvílir drungi yfir þjóðlífinu en einstaka menn hugsa stórt, þrá framfarir. Allslaus piltur úr Dýrafirði er einn þeirra; óvænt fær hann pláss á amerísku skipi og heldur af stað yfir höf og lönd, óvissuför sem leiðir hann loks á vit athafnaskáldsins Einars Ben. Fjörug saga um bjartsýni, stórhug og stolt frá afburðasnjöllum sagnamanni.
Diplómati deyr eftir Elizu Reid
Fyrsta skáldsaga Elizu Reid, fyrrverandi forsetafrúar, er spennandi og listilega fléttuð glæpasaga þar sem leyndarmálin eru afhjúpuð hvert af öðru. Morð er framið í miðjum hátíðarkvöldverði kanadískra diplómata í Vestmannaeyjum. Ýmsir liggja undir grun og sendiherrafrúin ákveður að rannsaka málið upp á eigin spýtur.
Huldukonan eftir Fríðu Ísberg
Konurnar í Lohr fjölskyldunni skilja ekki að Sigvaldi þeirra, með alla sína augljósu mannkosti, hafi aldrei gengið út. Ennfremur fá þær ekki skilið þá fráleitu ákvörðun hans að gerast einsetumaður í eyðivík. Dag einn birtist Sigvaldi á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku í fanginu og neitar að svara því hver sé móðir barnsins.









