Í hádeginu þann 29. janúar nk. munu söngnemendur úr Tónlistarskóla FÍH, þær Guðrún Ösp Sigurmundardóttir, Ingibjörg Elín Jónsdóttir og Iðunn Helgadóttir bjóða upp á ljúfa hádegistóna á Bókasafni Kópavogs. Á tónleikunum munu þær flytja nokkrar af perlunum hans Magnúsar Eiríkssonar en hann féll frá í liðinni viku. Maggi Eiríks var afkastamikill og vinsæll texta- og lagahöfundur þjóðarinnar og það verður sönn ánægja að og það verður sönn ánægja að minnast hans með flutningi laga sem lifa áfram í hjörtum þjóðarinnar.Meðleikur er í höndum Inga Bjarna Skúlasonar.
Þriðja árið í röð bjóða framhaldsnemendur af söngdeild Tónlistarskóla FÍH til ljúfra hádegistónleika á Bókasafni Kópavogs. Tónleikarnir fara fram síðasta fimmtudag hvers mánaðar en þar stíga tónlistarstjörnur framtíðarinnar á stokk með spennandi blöndu af gömlu og nýju, lög sem öll þekkja í bland við sjaldheyrðari smelli.
Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
Guðrún Ösp hefur sungið frá því í barnæsku og ávallt verið tónelsk. Á uppvaxtarárunum song hún í kórum og söngvakeppnum, þó hún að hún hafi eitt sinn hafnað sæti í háskólakórnum vegna þess að henni bauðst að syngja alt rödd sem hún hefur þó síðan lært að elska. Árið 2017 gekk hún til liðs við Kvennakór Kópavogs (nú Kvennakórinn Blika) og hefur síðan hafið söngnám í rythmískum söng í Tónlistarskóla FÍH þar sem hún stundar nú framhaldsnám. Hún sækir innblástur til listamanna á borð við Söru Bareilles og Emilíönu Torrini.
Ingibjörg Elín stundar söngnám við tónlistarskóla FÍH á miðstigi. Fram að því hefur hún aðallega sungið í skólakórum og sturtunni. Hana dreymir um að verða söngkona og er þakklát fyrir hvert tækifæri sem hún fær til að komast nær því að gera þann draum að veruleika.
Iðunn Helgadóttir er söngkona og stundar um þessar mundir söngnám á miðstigi við tónlistarskóla FÍH. Tónlist hefur verið ástríða hjá henni frá unga aldri og byrjaði hún í tónlistarnámi fimm ára. Á grunnskóla árum lærði hún á nokkur hljóðfæri; fiðlu, selló, gítar og hvað lengst af á píanó. Iðunn hefur einnig sótt margvís söng- og lagasmíðanámskeið. Hún ætlaði sér að verða poppstjarna þegar hún yrði stór – en starfar í dag sem lögfræðingur.






