Bók októbermánaðar er Hinstu blíðuhót og Augnablik í eilífðinni eftir Kjersti Anfinnsen.
Hjartaskurðlæknirinn Birgitte Solheim er komin á eftirlaun. Þegar endalokin færast nær virðist henni sem allt rakni upp og losni. Hún er orðin öldruð og flestir í vinahópnum hafa safnast til feðra sinna. Líkaminn hrörnar og hneppir hana í bönd svo hún einangrast. Einmana dvelur hún löngum stundum í íbúð sinni í París.
Starfsferill hennar innan karlaheims hefur tekið á, og henni láðist að stofna fjölskyldu. Nú reynir Birgitte að sættast við líf sitt en hefur ekki gefið drauminn um ástina upp á bátinn.
Hér birtast saman í einni bók tvær skáldsögur norska rithöfundarins Kjersti Anfinnsen, sem báðar fjalla um hjartaskurðlækninn Birgitte og viðureign hennar við tímann og aldurinn. Sagan er ljúfsár, viðkvæm, kómísk og dálítið bitur frásögn af einsemd, ást og dauða.
Bókaklúbburinn hentar öllum hressum konum sem vilja hittast, lesa á milli línanna og spjalla um yndislestur á léttu nótunum. Lesin er ein bók á mánuði sem er svo rædd fyrsta fimmtudag í mánuði á fundum klúbbsins.
Allar konur velkomnar á meðan húsrúm leyfir. Hlökkum til að hitta ykkur!
Fylgist með í Facebook-hópnum Lesið á milli línanna | Bókasafn Kópavogs.
Hjartanlega velkomnar!