Það var byrjað að snjóa. Gloría lá í kósí-horninu á Bókasafni Kópavogs og fletti bók um Línu langsokk. Gloría elskaði sögur. Hún malaði af ánægju og sleikti aðra framloppuna um leið og hún fletti bókinni.
Já, Gloría var nefnilega köttur. Hún var grábröndótt með stór, falleg græn augu og mjúkan feld.
Það var rólegt á bókasafninu þennan morgun og ekkert sem benti til þess að eitthvað óvænt myndi rjúfa kyrrðina. Það var komið fram í desember en inni á safninu var ekkert sem minnti á jólin. Engin jólaljós eða skreytingar höfðu verið settar upp. Gloríu fannst það dálítið skrítið þar sem skreytingarnar voru venjulega löngu komnar upp á þessum tíma.
Bækur lágu á víð og dreif á gólfinu eftir heimsókn leikskóla-barna deginum áður og enginn virtist ætla að taka þær upp. Gloría velti fyrir sér hvort það væri svona mikið að gera og enginn hefði komist í að ganga frá?
Kári og Rabbi, gömlu karlarnir úr eldriborgarahúsinu, höfðu valið sér bækur um sjómennsku í gamla daga og sátu nú og drukku kaffið sitt og kíktu í blöðin. Kári var langur og mjór með sítt skegg og hár sem náði niður á axlir en Rabbi var sköllóttur og smávaxinn.
Gloría hafði lagt frá sér bókina og var við það að sofna á mjúkum púðanum þegar hurðin á bókasafninu fauk skyndilega upp með miklum látum. Snjór þeyttist inn á gólf um leið og risastór vera æddi inn á safnið.
Gloríu brá svo mikið að hún stökk hvæsandi upp í loft og lenti á gólfinu með bókina ofan á sér. Veran gekk beint að Gloríu, tók hana upp og hélt á henni eins og ungabarni í stórum krumlunum.
Gloría starði á veruna. Þetta var greinilega tröll og það var grábröndótt eins og hún sjálf.
Kári og Rabbi flýðu í ofboði út af bókasafninu en starfs-manninum var alveg sama og virtist ekki taka eftir neinu.
– Sæl frænka, sagði tröllið og reyndi að heilsa Gloríu en loppan hennar hvarf inn í risastóru krumluna.
– Hver ertu eiginlega? spurði Gloría og reyndi að slíta sig lausa úr fangi tröllsins.
– Nú, ég er hann Dúðadurtur Grýluson, frændi þinn í tíunda ættlið.
– Ertu þá jólasveinn? spurði Gloría.
– Ég hef nú aldrei fengið það hlutverk, svaraði Dúðadurtur. Foreldrum mínum fannst ég of stórvaxinn. Sögðu að ég myndi bara brjóta
allt og bramla ef ég færi að reyna að gefa börnum í skóinn eða dansa í kringum jólatré.
Gloría náði loks að losa sig úr klóm tröllsins og stökk upp í eina bókahilluna í hæfilegri fjarlægð frá tröllinu.
– Hvað ertu eiginlega að gera hérna? spurði hún þegar hún var búin að jafna sig á þessari óvæntu heimsókn.
– Það er allt ónýtt, sagði Dúðadurtur með tárin í augunum.
Jólin eru að koma og það er öllum sama. Ef öllum er sama þá
koma engin jól. Þú verður að hjálpa mér að bjarga jólunum.
Grýla hverfur
Gloría gerði sitt besta til að reyna að hugga Dúðadurt sem sat hágrátandi á gólfinu. Hún stökk upp á öxlina á honum og sleikti burtu sölt tárin sem runnu niður kinnarnar.
Ung kona kom inn á safnið með litla stúlku sem hljóp beint til Dúðadurts og reyndi að knúsa hann. Mamman rak upp skelfingaróp þegar hún sá hann, greip barnið og hljóp með það fram að afgreiðsluborðinu.
– Ég held að við ættum að fara út svo við hræðum ekki gestina, sagði Gloría.
Dúðadurtur kinkaði kolli og laumaðist eins varlega og hann gat á eftir Gloríu en tókst samt að henda niður nokkrum bókum og stólum á leiðinni út. Gloría heyrði að konan var að skamma starfsmanninn í afgreiðslunni fyrir að hræða börn með skrímslum í kósí-horninu.
– Ykkur væri nær að taka til og hafa eitthvað jólalegt hérna, heyrði hún hana segja. Starfsmaðurinn horfði áhugalaus á konuna og sagði að honum væri alveg sama og hélt áfram að skoða símann sinn.
Mamman hrökk við. Hvað var eiginlega í gangi með starfsmanninn sem alltaf hafði verið svo hjálpsamur og alúðlegur hingað til?
Gloría ákvað að fara með Dúðadurt upp í Borgarholtið fyrir ofan bókasafnið. Þar gætu þau sest niður og talað saman. Ef einhver ætti leið framhjá myndi hann bara halda að Dúðadurtur væri einn af steinunum þar, enda ekki orðið bjart svona snemma morguns.
Þau komu sér fyrir í holtinu og Dúðadurtur hóf frásögn sína. Hann sagði að Grýla væri horfin. Hún sagðist ætla að fá sér nýja vinnu og verða áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna. Hún gæti örugglega grætt mikið á því og farið bara til sólarlanda á veturna og haft það notalegt. Hún vildi fá nýtt útlit, sagði hún og klæddi sig í háhælaða skó og hreinan kjól. Greiddi sér meira að segja.
Þá fannst Dúðadurti nóg komið. Grýla vildi verða skvísa. Svo gerðist það hræðilega. Hún ætlaði að blása aðeins upp á sér varirnar til að gera þær stærri en notaði til þess loftpumpu sem hún
fann í gömlu drasli í hellinum þeirra. Pumpan var aðeins kröftugri en hún bjóst við og Grýla flaug upp í loft á útblásnu vörunum, út um hellisopið og hvarf út í buskann.
– Ég hrópaði á bræður mína, Leppalúða og öll tröllin í fjöllunum að hjálpa mér að bjarga henni. En það var alveg sama við hvern ég talaði, allir sögðu að þeim væri alveg sama og enginn nennti að hjálpa mér að finna hana.
Dúðadurtur sagði síðan að eftir hvarf Grýlu hefði allt farið á versta veg á heimili þeirra í Grýluhelli. Það var engin stjórn á neinu lengur. Leppalúði fór daginn eftir að Grýla hvarf og sagðist ætla út í heim að kaupa sér skó því það fengjust ekki nógu stórir skór á Íslandi fyrir loðnu tærnar hans.
Allir jólasveinarnir nema Stúfur sátu og spiluðu tölvuleiki allan daginn. Þeir gerðu ekki neitt til að undirbúa jólin alveg sama hvað Dúðadurtur reyndi að minna þá á að desember væri kominn.
– En það versta er, sagði hann, að jólakötturinn besti vinur minn gjörsamlega umturnaðist. Ég get varla sagt þetta ógrátandi. Hann gerðist vegan. Borðar bara grænmeti og drekkur ekki einu sinni rjómann sem ég gef honum. Einn daginn kom hann heim og var búinn að aflita á sér hárið. Er nú skjannahvítur og situr svo allan daginn að snyrta sig og lakka á sér klærnar með bleiku naglalakki. Hann hvæsir ekki einu sinni þó ég togi í skottið á honum. Flissar bara kjánalega.
Gloría vissi ekki alveg hvað hún átti að segja við þessu öllu saman. Í Borgarholtinu var gott útsýni yfir bæinn. Gloría var mikil jólakisa og hlakkaði alltaf til jólanna. En hvernig stóð á því að það hafði enginn kveikt á jólaljósunum og samt var kominn desember?
Borgarholtið
Þau höfðu setið í holtinu nokkra stund þegar steinninn sem þau sátu á fór að hreyfast.
– Er þetta jarðskjálfti? spurði Gloría og stökk á fætur.
– Nei, heyrðist svarað.
Steinninn opnaðist og út úr honum gekk huldukona. Hún var í fallegum bláum kjól með sítt dökkt hár.
– Ég heiti Dimmblá og ég bý hérna í holtinu. Ég heyrði hvað þú varst að segja og við huldufólkið höfum einmitt miklar áhyggjur. Það er eitthvað skrítið að gerast. Við álfar og huldufólk erum vön að hittast og undirbúa nýárshátíðina okkar í byrjun desember. Hátíðin er mjög mikilvægur fögnuður fyrir okkur en það er bara eins og núna sé öllum sama um hana. Ekkert hefur verið skipulagt og við náum ekki sambandi við neinn af félögum okkar.
Dimmblá sagði þeim að álfar og huldufólk hafi samband hvert við annað með hugsanaflutningi. Þeir þurfa ekki síma eins og mannfólkið.
– En nú er bara eins og það sé ekkert samband og við hér í holtinu vitum ekkert hvað er að gerast í landinu. Við sendum út leiðangra í álfabyggðirnar hér í nágrenninu. Fyrst sendum við hann Pela gamla til að athuga með álfana sem búa í Álfhól hér í bænum. En við heyrðum ekkert frá honum aftur. Hann á það reyndar til að gleyma sér og fer bara að leika sér að stríða gröfumönnum og starfsfólki Vegagerðarinnar. Yrja og Jón, eldri börnin mín buðust þá til að fara til Hafnarfjarðar að hitta álfana í Hamrinum. Þau ættu að vera löngu komin til baka en við höfum ekkert heyrt frá þeim heldur.
Dimmblá bauð Gloríu og Dúðadurti inn á heimili sitt. Það var bjart inni í steininum. Þarna var fleira huldufólk, sem sat við borð við alls konar handavinnu og smíðastörf. Þau voru öll í mjög litskrúðugum fötum.
Dimmblá kynnti þau fyrir huldufólkinu og benti þeim að setjast hjá sér.
– Við verðum að komast til botns í þessu. Við erum líka farin að finna fyrir þessu sinnuleysi hér hjá okkur í holtinu, sagði Dimmblá og benti á nokkra huldumenn sem sátu aðgerðarlausir í einu horninu og störðu fram fyrir sig.
Þau ræddu fram og aftur um hvað þau gætu gert. Gamall gráhærður huldumaður, sem sagðist heita Ævar og hafði setið og prjónað allan tímann án þess að segja neitt, stóð nú snögglega upp.
– Þegar ég var lítill sagði amma mér að ef mannfólkinu fer að verða sama um landið sitt þá missa landvættirnir krafta sína og hætta að geta verndað fólkið og landið. Verða jafnvel öfugsnúnir og geta farið að valda alls konar vandræðum í mannheimum.
Ævar sagði að þetta væri eins og sjúkdómur sem breiddist hratt út og væri hættulegur öllum, bæði álfum, tröllum, mannfólki og öðrum lífverum sem hér búa.
– Er þetta þá svona mér-er-alveg-sama-veiki? spurði Dúðadurtur.
– Einmitt, eina leiðin til að lækna fólkið af þessari veiki er að finna landvættina og fá þeirra aðstoð við að hreinsa landið af þessari óværu. Til þess að það takist þurfið þið að ferðast hringinn í kringum landið á fimm dögum og leysa erfiðar þrautir á ferð ykkar, sagði Ævar.
Gloría var ekki viss um að hún væri góð í að leysa erfiðar þrautir en hún vildi ekki valda Dúðadurti vonbrigðum svo hún bauðst til að fara með honum.
Ævar ráðlagði þeim að fara fyrst upp að Helgufossi í Mosfellsdal að heimsækja álfkonuna í Hrafnakletti.
– Hún er talin mjög vitur og getur vonandi gefið ykkur góð ráð um hvernig þið getið fundið landvættina, sagði hann.
Dimmblá sagðist geta fylgt þeim upp að Helgufossi en síðan yrðu þau á eigin vegum.
Strætóferðin
Þau gengu upp í Hamraborg að strætóstöðinni og biðu eftir vagni sem færi upp í Mosfellsbæ. Þau þurftu ekki að bíða lengi. Óliver strætóbílstjóri var með mikið rautt hár sem stóð í allar áttir. Það var eins og hann væri alltaf úti í hávaðaroki. Hann leit undrandi á þau þegar þau gengu inn í vagninn.
– Þú verður að halda á kettinum, sagði hann við Dimmblá en virtist hálfsmeykur við Dúðadurt. Farið bara og setjist, sagði hann óþolinmóður þegar Dúðadurtur fór að leita í öllum vösum að peningum fyrir farinu. Þau settust aftast í vagninn og reyndu að láta lítið fyrir sér fara.
Aðrir farþegar störðu á þau og sumir hrökkluðust aftur út úr vagninum þegar þau sáu Dúðadurt. Gloría var fegin þegar þau keyrðu af stað. Henni fannst óþægilegt að láta stara svona á sig.
Dúðadurtur hafði aldrei áður komið upp í bíl. Í fyrstu fannst honum þetta spennandi en þegar bílstjórinn gaf í til að komast út á aðalbrautina æpti hann upp yfir sig af skelfingu.
Gloría reyndi að róa hann en það gekk illa. Þá var ekki að sökum að spyrja. Maginn fór að ólga eins og öldur í stórsjó og aumingja Dúðadurtur fékk þessa hræðilegu magapínu. Loks var ekki um annað að ræða en að hleypa öllu út.
Dúðadurtur lyftist í sætinu og með löngu háværu prumpi náði hann að losna við gasið sem safnast hafði fyrir í görnunum. Viðreksturinn hófst með miklu freti í Ártúnsbrekkunni og stóð yfir þar til þau nálguðust Grafarholtið. Þá voru farþegarnir farnir að hósta og veina yfir lyktinni.
Loks stöðvaði Óliver bílstjóri vagninn og hrópaði hátt:
– Bannað að prumpa í vagninum mínum! Út með ykkur strax!
Þau þorðu ekki annað en að hlýða og flýttu sér út úr vagninum. Óliver bílstjóri keyrði burt í snatri með hurðirnar opnar til að lofta út.
Dúðadurtur var hálf skömmustulegur eftir þessa uppákomu en Gloría og Dimmblá sögðu að það væri bara eðlilegt að prumpa annað slagið. Allir gerðu það.
Þau stóðu enn í vegkantinum þegar stór svartur trukkur stöðvaðist við hlið þeirra.
– Þið eruð svo ráðvillt á svip. Getum við eitthvað hjálpað ykkur? spurði bílstjórinn og brosti.
Þetta var eldri maður með hvíta derhúfu og svart alskegg. Hann sagðist heita Gunnar, en væri alltaf kallaður Gussi.
– Þetta eru afabörnin mín, tvíburarnir Emilía og Andri, bætti hann við og benti á tvö börn sem sátu í fremra aftursæti bílsins. Þau voru bæði með dökkt hár og blá augu, klædd í íþróttabuxur, lopapeysur og grænar úlpur.
Dúðadurtur sagði þeim á hvaða ferðalagi þau væru og frá veikinni dularfullu. Það væri öllum sama um allt. Meira að segja þó að jólin væru að koma.
– Við verðum að finna landvættina sem allra fyrst, bætti Gloría við.
Afinn og tvíburarnir störðu á Gloríu. Það var eins og augun ætluðu út úr höfðinu á þeim við að heyra hana tala.
– Já, ég get talað og ekkert meira um það að segja. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna og megum engan tíma missa, sagði Gloría. Gussi afi horfði áhyggjufullur í átt að borginni. Þar sáust engin jólaljós.
– Þið segið nokkuð. En skrítið. Við keyrum ykkur þangað sem þið þurfið að fara, sagði Gussi afi.
Þau stukku inn í bílinn hans sem var nógu stór til að rúma þau öll. Dúðadurtur fékk aftasta sætið aleinn fyrir sig en þurfti að beygja hausinn til að reka sig ekki upp í þak bílsins.
Gussi afi spólaði af stað. Næsti áfangastaður var Helgufoss.
Helgufoss
Bíllinn hossaðist eftir malarvegi í átt að Helgufossi. Loks komust þau ekki lengra. Gussi afi lagði bílnum og þau gengu síðasta spölinn að Hrafnakletti sem einnig var kallaður Helguhóll. Þetta var stór svartur grjóthóll rétt við ána. Dimmblá sagði þeim að þarna byggi álfkonan Rósa Lind. Þau bönkuðu á klettinn en enginn svaraði.
– Kannski er hún sofandi, sagði Dúðadurtur og barði af öllu afli á steininn en ekkert gerðist.
– Afi, kannski getur þú opnað steininn með karate-sparki? Afi er nefnilega karate-meistari, sagði Emilía.
Gussi afi brosti, sveif upp í loft, sparkaði öðrum fætinum til hliðar af öllu afli og gaf frá sér hátt karate-hróp svo bergmálaði í dalnum.
– Eruð þið að leita að mér? heyrðist sagt fyrir aftan þau. Þetta var Rósa Lind álfkona. Hún var klædd í silfurlitaðan kjól með dökkt sítt hár og með silfur kórónu á höfði.
Dimmblá kynnti þau fyrir álfkonunni og sagði henni á hvaða ferðalagi þau væru.
– Það er margt undarlegt á seyði þessa dagana, sagði Rósa Lind. Ég kemst til dæmis ekki lengur inn í hólinn minn.
– Geturðu ekki bara galdrað svo hann opnist eins og Harry Potter gerir? spurði Andri.
– Nei, Harry Potter er ekki til í alvörunni. Þetta er í alvörunni, svaraði Rósa Lind.
– Við verðum að finna landvættina. Getur þú ráðlagt þeim hvernig er best að fara að því? spurði Dimmblá.
– Já, sagði Rósa Lind. Þið skuluð byrja á að finna nautið Griðung. Þið gerið það með því að leysa erfiða þraut úti í Brokey. En komið fyrst með mér.
Hún fór með þau upp að Helgufossi að hitta fossbúana sem þar bjuggu, ljósálfana Mínus og Plús. Hún hafði fengið að búa hjá þeim eftir að hóllinn lokaðist. Þeir gætu látið þau hafa nokkuð sem myndi hjálpa þeim að leysa þrautina.
Þegar þau nálguðust fossinn heyrðu þau ískrandi hlátur. Örlitlir ljósgeislar þutu fram og til baka inni í fossinum.
– Þeir eru smá feimnir, sagði álfkonan og benti þeim félögum síðan að koma með sér inn í leynigöng á bak við fossinn. Þegar inn var komið blasti við þeim gríðarstór hellishvelfing. Það sindraði á alls konar litskrúðuga steina á hellisveggjunum.
– Plús, kallaði Rósa Lind og um leið fóru tifandi ljósgeislarnir að stækka svo þeir sáust með berum augum. Ljósálfarnir líktust helst fiðrildum með pínulítinn mannslíkama.
– Plús, hrópaði Dúðadurtur alveg hissa. Hver er Plús?
Um leið og hann hrópaði orðið, stækkuðu fossbúarnir enn meira og voru loks orðnir jafn stórir og Dúðadurtur. Gloría stökk á bak við Gussa afa, henni leist ekkert á þetta. Andri og Emilía göptu af undrun.
– Mínus, Mínus, kallaði Rósa Lind og samstundis minnkuðu álfarnir og urðu á stærð við smáfugla.
Plús sagði þeim að þeir bræður hefðu líka haft miklar áhyggjur af dularfullu mér-er-alveg-sama-veikinni.
– Það er rétt hjá Rósu Lind, sagði hann. Þið þurfið að fara út í Brokey, en fyrst skuluð þið fara upp í Esju og sækja Stúf. Til að leysa þessar þrautir þurfið þið að hafa að minnsta kosti einn jólasvein með í för sem ekki hefur smitast af þessari óværu. Vonandi komið þið ekki of seint þangað.
– Síðan farið þið út í Brokey til að leysa fyrstu þrautina. Þar er hóll sem kallast Dagmálahóll og er álagahóll, bætti Mínus við. Þið þurfið að fara með tvo náttúrusteina með ykkur, annan fyrir álagahólinn og hinn fyrir landvættinn Griðung.
– Segið nú nafnið mitt, sagði Plús. Um leið og þau kölluðu nafnið stækkuðu álfarnir aftur þar til þeir náðu lengst upp í hellis-hvelfinguna. Þar gripu þeir sinn hvorn steinmolann úr berginu og bentu síðan félögunum að minnka sig aftur.
Ljósálfarnir réttu Andra og Emilíu steinana og sögðu að þau yrðu að gæta þeirra vel.
– En er þetta ekki of hættuleg för fyrir börn? Getið þið huldu-fólkið ekki bara séð um þetta? spurði Gussi afi.
– Jú, þetta verður mjög hættuleg för en því miður komumst við Rósa Lind ekki lengra. Hér eru mörkin sem við getum ekki farið yfir nema á nýársnótt. Við huldufólkið leggjum allt okkar traust á ykkur, bætti hún við.
Andri og Emilía horfðu ákveðin á afa sinn.
– Við verðum að gera þetta afi! sögðu þau. Þú kenndir okkur að vera hugrökk og gera það sem þarf að gera þegar mikið liggur við.
Esjan
Gussi afi keyrði sem leið lá upp að Esju. Emilía og Andri voru mjög spennt að sjá heimili jólasveinanna. Gussi afi vildi helst að krakkarnir myndu bíða í bílnum en þau tóku það ekki í mál. Dúðadurtur fylgdi þeim upp í Grýluhelli.
Inni í hellinum lágu jólasveinarnir á gólfinu að spila tölvuleiki. Þeir voru svo niðursokknir í leikinn að þeir litu ekki einu sinni upp þegar gestirnir gengu inn í hellinn.
– Þarna sjáið þið, sagði Dúða-durtur. Það er ekkert hægt að tala við þá.
– Er þetta Grýla? spurði Emilía og benti á tröllskessu sem sat í einu horninu og var að bera á sig fínasta kroppakrem.
– Nei, þetta er hún Gilitrutt. Hvað ertu að gera hérna? spurði Dúðadurtur skessuna.
Skessan var búin að bera svo mikið krem á sig að það var farið að leka af henni niður á hellisgólfið.
– Ég frétti að Grýla væri farin, svo ég bara ákvað að koma hingað í hennar stað. Hún á svo mikið af fínu snyrtidóti. Einhver verður að nota þetta, svaraði Gilitrutt.
Gloría stökk til hennar til að spyrja um Stúf en var svo óheppin að renna í öllu kreminu sem hafði lekið niður á gólf. Feldurinn var allur útataður í kremi.
– Er Stúfur hérna? spurði Gloría þegar hún náði loks að komast aftur á fætur.
– Hann er að elda mat, svaraði Gilitrutt og hélt áfram að maka kroppakreminu í andlit sitt og hár.
– Komum, sagði Dúðadurtur, eldhúshlóðirnar eru innar í hellinum.
Þau fylgdu honum eftir dimmum göngum lengst inn í fjallið. Það var heppilegt að Gussi afi hafði munað eftir að taka með sér vasaljós sem hann var alltaf með í bakpokanum sínum til öryggis.
Stúfur stóð við hlóðirnar og hrærði í stórum potti. Hann æpti upp yfir sig af gleði þegar hann sá Dúðadurt, stökk upp um hálsinn á honum og knúsaði hann.
– Ætla þau að hjálpa okkur? spurði Stúfur og benti á Gloríu, Gussa afa og krakkana.
– Já, Stúfur minn en þú þarft líka að koma með okkur. Við þurfum að fara í háskaför hringinn í kringum landið, leysa erfiðar þrautir og finna landvættina. Ég veit ekki af hverju þú þarft að koma með en þetta sögðu ljósálfarnir í Helgufossi.
– Er ekki betra að einhver stærri og sterkari fari með ykkur? Ég er hvorki hugrakkur né klár.
– Jú, þú verður að koma með. Leiðangurinn er ekki fullmannaður án þín, sagði Gloría, sem var í óðaönn að reyna að sleikja af sér mesta kremsullið.
Stúfur samþykkti loks að fara með þeim. Hann ætlaði samt fyrst að klára kássuna sem hann var að sjóða fyrir bræður sína. Hann vildi ekki að þeir yrðu svangir.
Skyndilega fór allt að nötra og skjálfa inni í hellinum, pottar og pönnur hrundu niður úr hillum. Stúfur rétt náði að bjarga súpupottinum frá því að hendast niður á gólf.
– Jarðskjálfti, hrópaði Gussi afi og greip í Emilíu og Andra. Drífum okkur út.
Hann hljóp af stað með krakkana áleiðis út úr hellinum. Hellirinn hristist svo mikið að hann sá ekki hvert hann var að fara og datt kylliflatur um jólasveinana sem enn lágu á gólfinu að spila tölvuleiki.
– Nei, nei þetta var bara Gilitrutt að ropa hrópaði Stúfur. Hún er þekkt fyrir að hrista jörðina með látunum í sér. Gussi afi vildi samt koma sér út sem fyrst.
Þegar þau gengu út úr hellinum mættu þau jólakettinum. Hann var búinn að lita sig fjólubláan og ilmaði eins og lofnarblóm. Hann sagðist hafa skroppið í pottana í Hvammsvík til að dekra dálítið við sig.
– Já, við þurfum greinilega að hafa hraðar hendur, sagði Gussi afi þegar hann sá útlitið á jólakettinum. Hann tók í hendurnar á tvíburunum og þau flýttu sér öll saman niður fjallið og í bílinn.
Brokey
Gussi afi stoppaði í Borgarnesi. Þar fengu þau sér pylsur og ís í sjoppunni. Þau settust í eitt hornið. Þar var nógu stór bekkur svo Dúðadurtur gat setið hjá þeim. Lítill strákur sat með pabba sínum við næsta borð. Hann hrópaði upp yfir sig þegar hann sá Dúðadurt og benti á hann.
– Pabbi, sjáðu tröllkarlinn. Pabbi sneri baki í þau og sussaði á barnið.
– Uss, Pési litli. Það er dóna-legt að benda á fólk og setja út á útlit þess, hann er örugglega bara í körfuboltaliðinu sem er að fara að spila við Skallagrím. Þeir eru stundum hávaxnir, sagði pabbinn og hélt áfram að lesa blaðið sitt.
Pési litli hélt áfram að stara á þau. Stúfur brosti til hans, setti upp stút og vísifingur á munninn til að sýna honum að þetta væri þeirra leyndarmál. Barnið kinkaði kolli og hélt áfram að borða ísinn sinn.
Þau héldu áfram ferðinni og næsta stopp var á Dröngum á Snæfellsnesi. Þaðan var stutt út í Brokey. Þar var gistiheimili fyrir ferðamenn. Gussi afi fór inn á hótelið til að athuga með far út í eyjuna.
Þegar hann kom til baka sagði hann að afgreiðslumaðurinn hefði bara talað útlensku en hann væri viss um að hann hefði sagt að það væri bátur í fjörunni sem þau mættu fá lánaðan.
Gussi afi keyrði niður að sjónum. Þar lá árabátur á hvolfi rétt við fjöruborðið. Þau stukku út úr bílnum. Afi rótaði í skottinu og fann björgunarvesti fyrir krakkana. Gloría var ekki spennt fyrir því að fara í sjóferð. Henni var illa við vatn.
– Þú sest bara neðst í bátinn þá sérðu ekki sjóinn, sagði Dúðadurtur, þetta verður ekkert mál.
Dúðadurtur sneri bátnum við með einu handtaki og skellti honum á réttan kjöl. Þau komu sér öll fyrir í bátnum. Gussi afi ýtti frá landi, tók svo tvöfalt heljarstökk og lenti fimlega um borð eins og karate-meistara einum er lagið.
Gussi afi settist við árarnar og réri af fullum krafti í áttina að Brokey. Veðrið var gott en það var farið að dimma. Þau yrðu eflaust að gista í Brokey í nótt. Þau voru næstum því komin út í eyjuna þegar Dúðadurtur rak augun í eitthvað á botni bátsins.
– Hvað ætli þetta sé? sagði hann um leið og hann greip um eitthvað sem líktist korktappa. Hann kippti honum upp til að skoða hann betur. Samstundis flæddi sjór af miklum krafti inn í bátinn. Gloría varð strax rennandi blaut. Hún svamlaði í vatninu og komst ekki upp á þóftirnar. Krakkarnir æptu upp yfir sig af hræðslu.
Afi stökk til, greip negluna og stakk henni aftur á sinn stað. Báturinn var orðinn hálffullur af vatni en sem betur fer höfðu Emilía og Andri ekki blotnað. Andri náði að grípa Gloríu upp úr vatninu. Hún var óttalega ræfilsleg að sjá svona rennandi blaut.
Dúðadurtur var alveg miður sín þegar hann áttaði sig á hvað hann hafði gert og grét hástöfum.
– Svona, svona, þetta var alveg óvart, sagði Stúfur og reyndi að hugga bróður sinn.
– Dragðu okkur nú í land svo fleiri þurfi ekki að blotna.
Dúðadurtur lét ekki segja sér það tvisvar. Hann stökk út í sjóinn og dró bátinn síðasta spölinn alla leið upp á land.
Brokey var falleg eyja með hæðum, hólum og klettabeltum við ströndina. Stórt hvítt hús með rauðu þaki stóð á hæð ofan við fjöruna. Það var ljós í gluggum.
Gussi afi tók Gloríu upp og tróð henni inn undir úlpuna sína til að halda á henni hita. Aðeins hausinn á Gloríu stóð út um
hálsmálið.
– Vonandi getum við fengið að gista hérna. Gloría þarf að komast inn í hlýjuna sem allra fyrst svo hún verði ekki veik, sagði Gussi afi. Þau flýttu sér upp að húsinu og bönkuðu á dyrnar.
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig á fréttabréf Bókasafns Kópavogs:
HAFÐU SAMBAND OG FYLGSTU MEÐ
OPNUNARTÍMI BÓKASAFNS KÓPAVOGS
mán til fös
kl. 8-18
laugardaga
kl. 11-17
mán til fös
kl. 13-18
laugardaga
kl. 11-15*
*lokað á laugardögum í júní, júlí og ágúst
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 13-18
Opið laugardaga
kl. 11-15
Skráðu þig hér á fréttabréf Bókasafns Kópavogs: