Brúin yfir Dimmu

Brúin yfir Dimmu

Í fjarskaríkinu Mángalíu búa vöðlungarnir, friðsamur flokkur sem hefur lifað í sátt og samlyndi frá örófi alda. Í gegnum ríkið rennur stórfljótið Dimma og á bakka hennar stendur Stöpull undir Brúarsporði. Þar búa smávöðlungarnir Kraki og Míría ásamt foreldrum sínum og fjölskyldu. Værð liggur yfir staðnum en þau eru ekki fjarri því að þau þyrsti í tilbreytingu. Dag einn finna þau dularfullan lykil í hylnum undir Dunufossi og þegar þau átta sig á því að hann gengur að leynidyrum heima hjá þeim opnast nýr veruleiki fyrir þeim. Dyrnar liggja inn í gömul leynigöng sem grafin voru á tímum löngu gleymds stríðs og fortíðin mætir þeim af fullum þunga. Saman halda systkinin ásamt Póa litla út í átt að Morklendingunum, sem herjuðu eitt sinn gegn vöðlungunum og kalla sjálfa sig mannfólk.

Bókin er fallega skreytt af Halldóri Baldurssyni.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er fæddur á Húsavík 1955 og var afkastamikill, bæði á sviði tón- og ritlistar. Eftir verslunar- og stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands og stutta viðkomu í íslenskudeild Háskóla Íslands, sneri hann sér að listsköpuninni og hefur ekki látið af síðan. Aðalsteinn hóf ritferilinn með ljóðabókinni Ósánar lendur árið 1977 og á eftir fylgdu þónokkrar ljóðabækur og ein skáldsaga. 1991 kom út barnabókin Dvergasteinn og þá varð ekki aftur snúið, næsta áratuginn gaf Aðalsteinn einungis út barnabækur, þar á meðal Brúin yfir Dimmu 2000. Síðan þá hafa komið út eftir hann ljóð, þýðingar og skáldverk í bland. Tónverk og þýðingar Aðalsteins skipta tugum og fyrir þau, ásamt ritverkum sínum, hefur hann hlotið á annan tug verðlauna og fjölda tilnefninga. Helsti samstarfsmaður Aðalsteins á sviði tónlistar var eiginkona hans, vísnasöngkonan Anna Pálína Árnadóttir sem lést 2004.

Lestraganga í Kópavogi er samstarfsverkefni Bókasafns Kópavogs og Barnabókaseturs Íslands.

Í göngunni má finna textabrot úr þeim íslensku barnabókum sem þjóðinni eru hvað kærastar og með því að færa textabrotin út í náttúruna sameinar gangan útivist, samverustundir fjölskyldunnar og lestrarhvatningu. Sumar bækurnar munu foreldrar/forráðamenn kannast við frá því í bernsku, aðrar eru nýlegar og þekktar meðal barnanna.

Tilvalið er skrifa hjá sér þær bækur sem kveikja áhuga eða hafa verið lesnar og athuga svo hvar hægt er að nálgast þær, á bókasafninu, í bókabúð eða í bókahillu hjá ættingja eða vini.

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau-sun
Lokað

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau-sun
Lokað