Í tilefni af kvennafrídegi föstudaginn 24. nóvember fór fram málþing á Bókasafni Kópavogs til heiðurs þremur kjarnakonum sem bjuggu og unnu í Kópavogi. Allar voru þær frumkvöðlar og ruddu brautina fyrir komandi kynslóðir.
- Hulda Dóra Jakobsdóttir, fyrsti kvenkyns bæjarstjóri á Íslandi.
- Gerður Helgadóttir, frumkvöðull í höggmyndalist og þrívíðri abstrakt.
- Ásta Sigurðardóttir, rithöfundur og myndlistarkona.
Fundarstjórn var í höndum Arndísar Þórarinsdóttur, rithöfunds. Var málþingið einkar vel sótt og erindin um þessa kvenskörunga fróðleg og valdeflandi.
Ásta Sigurðardóttir
Ásta Sigurðardóttir var rithöfundur sem bjó og starfaði í Kópavogi. Vera Sölvadóttir flutti erindi um hana, en Vera hefur m.a. fjallað um Ástu í tveimur útvarpsþáttum og sökkt sér djúpt í sögu þessarar merku konu.
Ásta var brautryðjandi í bókmenntum, en hún vakti strax athygli þegar fyrsta smásaga hennar, „Frá sunnudagskvöldi til mánudagsmorguns“, birtist í tímaritinu Líf og list árið 1951. Sagan var frískandi og ögrandi — sögð frá sjónarhorni ungrar konu sem hefur varið kvöldinu í drykkju í miðbæ Reykjavíkur og endar ein, illa haldin og brotin.
Þetta var sprengja í íslenskri bókmenntahefð. Sagan var eins og högg í andlitið fyrir marga lesendur:
-Hún sýndi ófegrandi, hráa lýsingu á borgarlífinu í Reykjavík – eitthvað sem var sjaldgæft í íslenskum bókmenntum fram að því. -Konan í sögunni var ekki “hrein” eða “dygg” kona, heldur flókin, brotin og mannleg – það var nánast fordæmalaust. -Margir töldu söguna dónalega, siðlausa eða klámfengna á þeim tíma.
Hún opnaði dyr fyrir fleiri persónulegar og óhefðbundnar kvenraddir í skáldskap. Ásta varð brautryðjandi í því að skrifa um konur sem lifa utan við hefðbundin gildi – og sýndi að slíkar sögur höfðu gildi og vægi.
Áður en orðið femínismi var almennt notað hér á landi, þá var Ásta að skrifa sögur sem fjölluðu að vissu leyti um kúgun kvenna. Hún sýndi ekki konur sem hetjur eða fórnarlömb — heldur sem flóknar manneskjur, sem urðu fyrir höfnun, ofbeldi og vonbrigðum. Það má segja að hún hafi ekki bara verið á undan sinni samtíð — hún hafi verið í átökum við hana.
Hulda Dóra Jakobsdóttir
Hulda var fyrsti kvenkyns bæjarstjóri á Íslandi, einmitt í Kópavogi.
Dætradætur hennar, þær Elín Smáradóttir, Hanna Styrmisdóttir og Hulda Dóra Styrmisdóttir, fjölluðu um ömmu sína á persónulegum nótum, sem frumkvöðul, sem ömmu, sem bæjarstjóra.
Hulda settist að í Kópavogi 1940 ásamt manni sínum Finnboga Rúti Valdemarssyni og tveimur dætrum. Í Kópavogi var fátt til reiðu fyrir ungar barnafjölskyldur í leit að húsnæði. Ekki vatnsveita, vegir eða frárennsli, ekki almenningsamgöngur, ekki heldur skólar eða verslanir. Íbúarnir voru hins vegar kjarkmiklir og framtakssamir og áður en langt um leið varð til Framfarafélag Kópavogs – sem var framfaraafl án flokkslita.
1. janúar 1948 varð Kópavogshreppur til. Kvenfélag Kópavogs var stofnað 1950 og amma var formaður þess á árunum 1952-1954.
1955 varð Kópavogur svo kaupstaður, Finnbogi Rútur varð bæjarstjóri og Hulda formaður fræðsluráðs. Þá voru íbúar tæplega 4000. Þegar Hulda tók við sem bæjarstjóri 4. júní 1957 og varð formaður niðurjöfnunarnefndar sem sá um ákvörðun útsvars á fyrirtæki og einstaklinga og formaður byggingarnefndar bæjarins, hélt hún líka áfram sem formaður fræðsluráðs. Það var því alveg ljóst hvar áhugi hennar og hjarta lá því hún var í forystu fyrir skólamálum Kópavogs í alls 16 ár. Á þessum 16 árum hafði hún forystu um byggingu og mönnun barnaskólanna Kópavogsskóla og Kársnesskóla og gagnfræðaskólans Víghólaskóla.
Í bæjarstjóratíð sinni hélt Hulda áfram að renna traustum stoðum undir áframhaldandi framtíðarvöxt sveitarfélagsins auk þess að halda styrkum en mildum höndum um reksturinn. Félagsheimilið var vígt 1959, gagnfræðaskólinn 1960 og Kópavogskirkjan 1962. Þar var Hulda enn í forystu: hún gegndi hlutverki formanns sóknarnefndar í 15 ár og var því í forystu fyrir byggingu kirkjunnar.
Hulda Jakobsdóttir var stjórnmálakona, frumkvöðull og listunnandi sem hafði kjark og sýn til að leita til tveggja afar hæfra listakvenna starfandi erlendis um gerð stórra listaverka í opinberu rými og skapa með þeim nýja menningararfleifð í Kópavogi. Það voru þær áðurnefnd Gerður og Högna, en hún leitaði til Gerðar eftir steindum gluggum sem prýða Kópavogskirkju og Högnu arkitekts um byggingu sundlaugar Kópavogs, þótt það verk hafi ekki komist til framkvæmda í tíð Huldu sem bæjarstjóra.
Gerður Helgadóttir
Gerðarsafn í Kópavogi er eina listasafn landsins sem er stofnað til heiðurs listakonu og flutti Brynja Sveinsdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns erindi um Gerði Helgadóttur.
Gerður var afkastamikill listamaður og hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1974 fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar. Verk Gerðar voru í stöðugri þróun og mótuðust af breiðu áhugasviði hennar. Þau kraftmiklu verk sem hún vann á síðustu árum ævi sinnar marka nýtt tímabil í listsköpun hennar og veita innsýn í metnað hennar og stórhug. Gerður átti enn svo margt ógert þótt hún hefði innan við fimmtugt afrekað að vinna sér sess sem einn helsti myndhöggvari þjóðarinnar á 20. öld.
Gerður hefur nám við Handíðaskólann árið 1945 og sýnir hæfileika í mótun en höggmyndalist er ekki kennd við skólann.
1947 fer Gerður til Flórens og er fyrst íslenskra listamanna til að hefja nám þar. Megináherslur í námi Gerðar eru á mótun eftir lifandi fyrirmyndum, anatómíu og listasögu. Gerði finnst kennslan miðast of mikið við klassíska list og ekki næg áhersla lögð á nútímalist. Haustið 1949 heldur Gerður til Parísar, sem hefur sterkt aðdráttarafl á listamenn hvaðanæva að úr heiminum á þessum tíma og hefur nám í Académie de la Grande Chaumiére. Aðalkennari hennar er rússneski myndhöggvarinn Ossip Zadkine (1890-1967), en hann var einn af frumkvöðlum kúbísks skúlptúrs. Gerður heldur sína fyrstu einkasýningu í galleríinu Colette Allendy í París árið 1951 og sýnir þar einungis óhlutbundin verk. Á sjötta áratugnum er Gerður vel þekkt í framsæknum listakreðsum Parísar og fjalla gagnrýnendur um hana sem eina af stefnumótandi myndhöggvurum samtímans.
Gerður lærir tæknina við gluggagerð hjá Jean Barillet á verkstæðinu og vinnur sína fyrstu steindu glugga í kapelluna á Elliheimilinu Grund og í Hallgrímskirkju í Saurbæ á árunum 1955-1957. Hún sendir tillögur í hugmyndasamkeppni um gerð steindra glerglugga í Skálholtskirkju árið 1957 sem hún hlýtur fyrstu verðlaun fyrir ári síðar.
Gerður vinnur að fjölda verka í almenningsrými við upphaf áttunda áratugarins, þar á meðal stórri bronsmynd við fjölbýlishús í París og tveimur höggmyndum fyrir ráðhús Venray í Hollandi. Árið 1972 gerir Gerður tillögur að mósaíkmynd fyrir Tollstöðvarhúsið í Reykjavík.
Sama ár vinnur hún einnig að veggmyndum utan á fyrirtæki Gunnars Guðmundssonar á Sæbraut, altaristöflu fyrir Kópavogskirkju og leggur fram frumgerð að verki fyrir Listahátíð í Reykjavík. Gerður fer í krabbameinsmeðferð heima á Íslandi 1974 en heldur áfram að vinna að stórum verkum þrátt fyrir veikindin.Gerður andast úr krabbameini á Landspítalanum 17. maí 1975, aðeins 47 ára að aldri.












