Laugardaginn 7. apríl verður sýning Margrétar Jónsdóttur, myndlistarkonu, opnuð á Bókasafni Kópavogs.
Sýningin heitir Eilífðin og ljósið og þar sýnir Margrét nýleg olíumálverk þar sem hún glímir við birtuna, jafnt sólarupprás og sólarlag. Litir himins og hafs bregða á leik í verkunum, sem eru skemmtilegur vorboði á safninu.
Margrét ólst upp í Bolungarvík og í verkum hennar má skynja áhrifin sem hafið, fjöllin og veðrið hafa haft á hana. Hún segist í verkum sínum glíma við spurningar eins og það hvar sjóndeildarhringurinn endar, hvað myndi gerast ef haldið væri endalaust áfram í eina átt og hvað væri eiginlega á bak við fjöllin. „Ég man að ég velti þessu mikið fyrir mér sem barn. Bolungarvík stendur við opið haf og oft var ófært vegna veðurs. Ég horfði mikið út á hafið yfir í Jökulfirðina, á fjöllin og velti þessu öllu fyrir mér. Ég man líka að þegar veður voru sem verst komu togarar og lágu í vari undir Grænuhlíðinni, og á vetrarkvöldum glitti í ljósin sem blikkuðu á öllum þessum skipum. Þarna voru breskir togarar og mér fannst eins og þarna væri komið annað þorp. Mér fannst við ekki eins innilokuð þegar þessi skip voru þarna.“
Margrét hóf myndlistarnám árið 2007, þá fimmtug, í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þá lét hún gamlan draum rætast, en löngunin til þess að mála hafði lengi búið með henni, ekki síst eftir nám í listasögu hjá Auði Övu í Háskóla Íslands. Þegar hún lét drauminn rætast kenndu henni meðal annarra Þorri Hringsson, Einar Garibaldi og Sigtryggur Bjarni Bjarnason. Margrét hefur verið iðin við sköpunina síðustu ár og hélt sína fyrstu einkasýningu sumarið 2014 í Gallerí Bakarí í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt fjölda samsýninga og sótt námskeið hjá ýmsum listamönnum.
„Oft er glíman við strigann og litina erfið, eins og útkoman geti ekki orðið eins og mig langar, ég þarf að taka myndina fram og mála aftur og aftur,“ segir Margrét. „En oft gengur líka vel, og ég segi stundum að mitt yoga sé að mála, því þá fer ég stundum inn á við, næ að slaka á og þetta er mín hugleiðsla. Stundum verð ég sjálf hissa á því hver útkoman er. Þ.e.a.s ég byrja að mála án þess að ákveða hvað ég ætla að mála, leyfi myndinni bara að koma ef svo má segja.“
Sýning Margrétar mun standa út aprílmánuð og sýningin er sölusýning.
Áður birt í Kópavogspóstinum.