Heiðurslistamaður Kópavogs 2021

Þórir Baldursson

Tónlistarmaður

Þórir Baldursson tónlistarmaður var útnefndur heiðurslistamaður Kópavogsbæjar 2021 fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála. Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, tilkynnti um valið við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni í síðustu viku.

Þórir Baldursson á að baki stórmerkilegan feril sem lagahöfundur, Hammond-orgelleikari og útsetjari, hérlendis og erlendis og hefur sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar með aragrúa vinsælla sönglaga og útsetninga.

Þórir er fæddur árið 1944 í Keflavík og hóf tónlistarferil sinn ungur að árum. Hann útskrifaðist af kennarabraut Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1965, 21 árs, og var þá þegar orðinn einn af þekktari tónlistarmönnum landsins, meðal annars sem stofnmeðlimur hins ástsæla Savanna-tríós. Á áttunda og níunda áratugnum bjó Þórir í München og í Bandaríkjunum og starfaði sem útsetjari og upptökustjóri fyrir heimsþekkt tónlistarfólk á borð við Donnu Summer, Elton John, Grace Jones og Giorgio Moroder.

Þórir hefur verið búsettur á Íslandi frá 1990 og látið taka til sín á tónlistarsviðinu, hvort tveggja sem kennari og tónlistarmaður. Hann hefur komið fram á ógrynni tónleika, tónlistarhátíðum og plötum en á meðal samstarfsfólks má nefna Sigurð Flosason, Andreu Gylfadóttur, KK, Jóel Pálsson, Einar Scheving, Björn Thoroddsen, hljómsveitirnar Gamma og Sálgæsluna.

Þórir Baldursson hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2011.

Við athöfnina í Gerðarsafni í síðustu viku flutti jazztríó, skipað Unu Stef söngkonu, Agnari Má Magnússyni á Hammond-orgel og Scott McLemore trommuleikara tvö af ástsælustu sönglögum Þóris, lögin Leyndarmál og Kling Klang.

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar hefur útnefnt heiðurslistamann bæjarins á tveggja til fjögurra ára fresti frá árinu 1988 en á meðal heiðurslistamanna sem áður hafa verið útnefndir fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála má nefna Kristínu Þorkelsdóttur hönnuð, Þórunni Björnsdóttur kórstjóra, Ragnar Axelsson ljósmyndara og Jónas Ingimundarson píanóleikara.

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau
11-15
sun
Lokað

Aðalsafn

mán-fös
8-18
lau
11-17
sun
Lokað

Lindasafn

mán-fös
13-18
lau
11-15
sun
Lokað