Annað árið í röð bjóða framhaldsnemendur af söngdeild Tónlistarskóla FÍH til ljúfra hádegistónleika á Bókasafni Kópavogs. Tónleikarnir fara fram síðasta fimmtudag hvers mánaðar en þar stíga tónlistarstjörnur framtíðarinnar á stokk með spennandi blöndu af gömlu og nýju, lög sem öll þekkja í bland við sjaldheyrðari smelli.
Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
Í hádeginu þann 27. mars nk. munu söngnemendur úr Tónlistarskóla FÍH, Steinunn Jónsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason og Bríet Vagna flytja fyrir okkur nokkur dásamleg lög Sigfúsar Halldórssonar. Fullkomin leið til að taka stund frá önnum dagsins og njóta hins byrjandi vors. Undirleikur er í höndum Vignis Þórs Stefánssonar
Steinunn Jónsdóttir er einn af forsprökkum hljómsveitanna Amabadama og Reykjavíkurdætur og hefur starfað við tónlist síðan 2011, bæði sem flytjandi og höfundur. Á sínum yngri árum lærðu hún á víólu í Tónlistarskóla Kópavogs og söng í kór hjá Margréti Pálmadóttur. Samhliða tónlistarferlinum hefur Steinunn kennt börnum bæði dans og textasmíðar síðan 2016. Í dag starfar hún við tónlistardeild Fellaskóla auk þess sem hún er blaðamaður hjá Birtingi. Steinunn hefur verið nemandi í FÍH síðan 2023.
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason er skáld og tónlistarmaður í hjáverkum. Þorvaldur starfar sem akademískur verkefnastjóri hjá Listaháskóla Íslands, stundar framhaldsnám í rytmískum söng við Tónlistarskóla FÍH og er meðlimur í kórnum Klið.
Bríet Vagna er 21 árs gömul vestfirsk söngkona sem hefur verið að koma fram á hinum ýmsu sviðum allt frá grunnskólaaldri. Bríet Vagna hófgítar og söngnám við tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2017 en fluttist til Reykjavíkur árið 2022 til að hefja nám við tónlistarskóla FÍH. Nú er hún á framhaldsstigi í rythmískum söng og stefnir á að ljúka framhaldsprófi vorið 2026.
Vignir Þór Stefánsson byrjaði átta ára gamall að læra á píanó í Tónlistarskóla Árnessýslu og var farinn að leika á dansleikjum átján ára gamall. Hann stundaði djasspíanónám í tónlistarskóla FÍH og lauk einnig tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Árið 1995 fluttist Vignir til Haag í Hollandi til að leggja stund á djasspíanó í Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag. Þaðan lauk hann mastersprófi vorið 2001. Samhliða náminu lék Vignir með djasshljómsveitum af öllum stærðum og gerðum og á hljómborð í söngleikjum í atvinnuleikhúsum.
Eftir að hafa flutt aftur heim til Íslands hefur Vignir komið víða við í íslensku tónlistarlífi, á tónleikum, sjónvarpsþáttum, hljómdiskum og í leikhúsum.
Í dag sinnir hann einnig kennslu í Menntaskóla í tónlist (MÍT) og tónlistarskóla FÍH og kennir þar djasspíanó og sér um undirleik hjá söngnemendum.