Leikhópurinn Óhemjur kemur í heimsókn á Bókasafn Kópavogs á aðventunni með jólasýninguna “Nátttröllið Yrsa – einmana á jólanótt”.
Nátttröllið Yrsa sér fram á einmanalega jólahátíð þar sem foreldrar hennar og systkini eru öll orðin að steini. Hún tekur á það ráð að fanga lítinn skógarþröst og læsa hann inni í helli sínum svo hún hafi félagsskap yfir jólin. Skógarþrösturinn er á öðru máli og hjálpar henni að sjá hlutina í nýju ljósi. Þetta er hjartnæm saga um einmana tröll sem þarf að læra að setja sig í spor annarra og hver veit, kannski eignast hún vin í leiðinni?
Sagan af Yrsu hefur ríkan boðskap sem á sannarlega erindi við börnin okkar. Fullkomin aðventusaga; einlæg, falleg og sorgleg á stundum en húmorinn og sprellið eru aldrei langt undan! Sýningin er 25 mínútur að lengd og stútfull af söng, leik og dansi.
Um leikarana:
Helgi Grímur Hermannsson er með BA gráðu af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og mastersgráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Hann er leiklistarkennari í Laugalækjarskóla og hefur komið að uppsetningu fjölda leikrita (barnaóperu í Hörpu, útvarpsleikrit hjá Storytel, frumsamin leikrit fyrir unglingastig o.s.frv.) ásamt fjöldanum öllum af listnámskeiðum fyrir börn og ungmenni.
Ellen Margrét Bæhrenz er leikkona og dansari með BA í leiklist frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu af barnasýningum; Þ.á.m. lék hún og dansaði í Mary poppins í Borgarleikhúsinu, Latabæ í Þjóðleikhúsinu, Óð og Flexu með Íslenska Dansflokknum og var brúðuleikari í Brúðubílnum. Hún hefur reynslu af því að skapa og ferðast með barnaverk milli leikskóla ásamt því að hún hefur kennt í áfanganum Barnaverk við leikarabraut LHÍ.