Látlaus gátt til annarra heima

15. september 2016

Dagur læsis er 8. september og þá er jafnframt haldið upp á dag bókasafnanna.

Það er vel við hæfi því bókasöfnin halda uppi lestrarfærni landsmanna – það skiptir nefnilega máli að lesa meira bara það sem  maður á.

„Bókasafnsskírteinið er í raun aðgöngumiði að umheiminum,“ segir Lísa Z. Valdimarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Kópavogs. „Starfsemi bókasafnsins er mjög fjölbreytt, við stöndum fyrir fjölda viðburða árið um kring, en það er líka skemmtilegt að staldra við og hugsa um það hvað þessi grunnur starfseminnar – bókasafnsskírteinið – er í rauninni magnaður.“ Skírteinið kostar 1800 krónur á ári og lætur lítið yfir sér en fyrir það má fá lánað ótakmarkað magn af bókum, tímaritum, kvikmyndum, sjónvarpsefni og tónlistardiskum. Lánþegar sem eru yngri en 18 ára og eldri en 67 ára fá ókeypis skírteini, sem og öryrkjar. Þegar horft er til kostnaðarins við það að kaupa efnið borgar sig greinilega að fá það að láni.

„Það var mjög gleðilegt þegar það var samþykkt um síðustu áramót að við mættum lána DVD-diska út án frekara endurgjalds,“ segir Lísa. „Nú er því ekki krafist aukagreiðslu fyrir neitt safnefni.“

En hvað með sektirnar? „Við höldum sektum í lágmarki, þær eru 25 krónur á dag fyrir bækur, en 200 krónur á dag fyrir DVD diska. Hins vegar hefur sú nýbreytni orðið hjá okkur á síðustu árum að það eru sendar út áminningar í tölvupósti áður en komið er að skilafresti sem gefur fólki tækifæri til þess að bregðast við og sækja um endurnýjun ef á þarf að halda. Það á því að vera einfalt að forðast sektargreiðslur.“

Bókasafnsdagurinn er haldinn árlega til þess að minna á mikilvægi bókasafna í samfélaginu. „Bókasöfnin verða upphaflega til svo allir hafi aðgang að fræðum og menningu. Það er hlutverk sem okkur þykir enn mjög mikilvægt,“ segir Lísa að kveðjuskyni.

Þessi frétt birtist í Kópavogsblaðinu 8. september.