Auður Jónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, verður gestur okkar í Leslyndi miðvikudaginn 8. apríl kl. 12:15.
Auður Jónsdóttir er fædd í Reykjavík 30. mars 1973. Fyrsta ritverk hennar sem var gefið út á prenti var smásagan Gifting árið 1997 og ári síðar kom út skáldsagan Stjórnlaus sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Auður fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2004 fyrir skáldsögu sína Fólkið í kjallaranum. Hún hlaut einnig Fjöruverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir Ósjálfrátt árið 2012 og aftur Fjöruverðlaunin fyrir Þjáningarfrelsið óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla árið 2018, ásamt meðhöfundum sínum. Fyrir Skrýtnastur er maður sjálfur hlaut Auður einnig viðurkenningu Upplýsingar, félags íslenskra bókasafnsfræðinga sem vel unnið fræðirit fyrir börn. Hún var jafnframt kosin barnabók ársins í kosningu íslenskra bóksala.
Leslyndi hverfist um yndislestur og uppáhaldsbækur. Þjóðþekktir bókaunnendur stíga á stokk og deila eftirlætishöfundum og bókakveikjum með gestum. Ævintýri og ástarsögur, dagbækur og draumráðningar, sígildar sögur og samtímaverk, orðið er frjálst.
Viðburðaröðin hefur notið mikilla vinsælda og skapað sér fastan sess undanfarin misseri, þegar fólk flykkist að til að sjá hina ýmsu rithöfunda deila með okkur sínum uppáhaldsbókum.
Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Viðburðurinn er styrktur af menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.










