Myndlistarsýning 2.-30. nóvember

Mýkt og hlýja í þæfðri ull

Kamma Níelsdóttir sýnir þæfð ullarverk í fjölnotasal aðalsafns. Til sýnis verða silkiskreytt ullarsjöl og renningar, ullarskúlptúrar í mynd íslenskra fjalla, álfahúfur, landnámshænur, öskupokar og fleira skemmtilegt sem Kamma hefur þæft. Íslenska ullin er meginefniviðurinn og tilgangurinn er að gæða umhverfið mýkt og umvefja það hlýju.

Rafræn bókasafnsskírteini

Bókasafnið beint í símann!

Lánþegum Bókasafns Kópavogs býðst nú rafrænt bókasafnsskírteini. Skírteinið getur verið alfarið í símanum ef lánþegi kýs það og því þarf ekki að örvænta ef gamla plastskírteinið gleymist heima.

Kíktu til okkar og við græjum bókasafnsaðganginn þinn beint í símann!

Saumavélar á aðalsafni

Stytta, falda, breyta og bæta!

Gestir aðalsafns geta nú notað saumavélar til að breyta og bæta hin ýmsu klæði og flíkur.

Félag kvenna í Kópavogi gaf Bókasafni Kópavogs tvær Toyota saumavélar sem ætlaðar eru til notkunar fyrir gesti og gangandi sem nýta sér þjónustu safnsins.

Saumavélarnar eru á 2. hæð aðalsafns og eru opnar gestum á afgreiðslutíma safnsins, þeim að kostnaðarlausu.