Í þessu landi
leynast engir brautarpallar
með þokuskuggum að bíða tvífara sinna
Engar mystískar næturlestir
sniglast gegnum myrkrið á hraða draumsins
Engir stálteinar syngja
fjarskanum saknaðaróð
Í þessu landi
situr rúta föst á jökli
Hrímgaðar rúður
Framljósaskíma að slokkna
Frosin hjól að sökkva
Andgufa sofandi farþega
setur upp draugaleikrit
Og á aftasta bekk
les kínversk stúlka
um lestargöng sem opnast og lokast
einsog svart blóm
Fullvaxin spegilmynd
gegnumlýst
í röntgengeislum
Nýársdags.
Brotið kjúkubein
á baugfingri vinstri handar,
brak bernskunnar
ryðgað milli bringspalanna.
Höfuðkúpan
loftþéttur kúpull
úr gleri,
lagður yfir safn stillimynda;
augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.
Hendur hans að herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir
mér á bak.
Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.
Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.
/…/
Að lifa lífi sínu einn.
(vakna
vaka
sofna
sofa)
og grafa spörfugla gærdagsins
án hluttekningar,
því nándin
er dýpsta
sárið.
Rafglóandi taugabrautir
– göng
í gegnum tímann –
rangt tengdar
við sjálfið;
hvern dag horfi ég á hendur mínar
– líflínan
morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –
og minni mig á
ártalið;
frumurnar
sem skipta sér;
aldur
tanna minna og beina;
barnið sem varð fullorðið.
Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.
Hún gengur á ísilögðu vatninu
og hvergi heyrist brestur
Því ísinn er jafnþykkur söknuðinum
og hún gengur og gengur og
það er ekki fyrr en hún sér sólina á ný
sem ísinn tekur að þiðna og áður en varir
gengur hún í vatni hún breiðir út
faðminn og syndir í vatninu hún baðar sig
í fersku vatninu
og þegar hún stígur aftur á land
er hún sterkari en allur ís
sem hún hefur gengið á
sterkari en vatnið sem hún faðmaði
sterkari en allt nema
söknuðurinn
sem fylgir henni
og býr í henni og gerir hana
sterka
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig á fréttabréf Bókasafns Kópavogs:
HAFÐU SAMBAND OG FYLGSTU MEÐ
OPNUNARTÍMI BÓKASAFNS KÓPAVOGS
mán til fös
kl. 8-18
laugardaga
kl. 11-17
mán til fös
kl. 13-18
laugardaga
kl. 11-15*
*lokað á laugardögum í júní, júlí og ágúst
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 13-18
Opið laugardaga
kl. 11-15
Skráðu þig hér á fréttabréf Bókasafns Kópavogs: