Leslyndi hverfist um yndislestur og uppáhaldsbækur. Þjóðþekktir bókaunnendur stíga á stokk og deila eftirlætishöfundum og bókakveikjum með gestum. Ævintýri og ástarsögur, dagbækur og draumráðningar, sígildar sögur og samtímaverk, orðið er frjálst.
Sigrún Eldjárn kemur í heimsókn á Bókasafn Kópavogs í upphafi októbermánaðar og segir frá bókum sem hafa hreyft við henni.
Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.
—
Sigrún Eldjárn lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 1974. Á unglingsárum sótti hún námskeið ýmist í Myndlistarskólanum í Reykjavík eða Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Eftir stúdentspróf stundaði hún fullt nám við þann síðarnefnda og útskrifaðist þaðan árið 1977 úr grafíkdeild. Árið 1978 var hún gestanemi við Listaakademíurnar í Varsjá og Kraká í Póllandi. Þar lærði hún sérstaka grafíkaðferð sem kallast mezzótinta. Hún hefur unnið við myndlist alla sína tíð og gert ótal grafíkverk að mestu með mezzotintuaðferðinni auk þess að mála olíumálverk og gera bæði vatnslitamyndir og teikningar. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum innan lands og utan.
Sigrún hefur unnið við myndlist alla sína tíð og gert ótal grafíkverk að mestu með mezzotintuaðferðinni auk þess að mála olíumálverk og gera bæði vatnslitamyndir og teikningar. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum innan lands og utan.
Hún hefur myndlýst margar bækur annarra höfunda en árið 1980 skrifaði hún sjálf sína fyrstu barnabók sem nefnist Allt í plati. Síðan þá hefur hún gefið út bók eða bækur árlega. Út hafa komið eftir hana margir tugir skemmtilegra bóka fyrir börn, bæði stuttar og langar, feitar og mjóar og allar stútfullar af myndum.
Sigrún hefur hlotið marvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Þar ber helst að nefna tilnefningar til H.C. Andersenverðlauna fyrir ritstörf og myndlist 1998, til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2004 og til Vest-Norrænu barnabókaverðlaunanna 2006. Hún hlaut Sögustein, Barnabókaverðlaun IBBY og Glitnis 2007, Dimmalimm, myndskreytiverðlaun 2007, riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til barnamenningar, 2008. Hún var tilnefnd til ALMA priset (Astrid Lindgrens Memorial Award) 2010 – 2013 og aftur 2024. Íslensku Bjartsýnisverðlaunin hlaut hún 2011 og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 fyrir Silfurlykilinn. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 fyrir sömu bók og fékk heiðursverðlaunin Sögur á verðlaunahátíð barnanna 2020.